Fyrsti leikur Hildar Bjargar með UTPA háskólanum í gærkvöldi fór brösuglega af stað. Hildur byrjaði leikinn fyrir Broncs en fékk snemma tvær villur og var strax sett aftur á bekkinn. Þar sat hún allt þar til 7:30 voru eftir af fyrri hálfleik þegar hún fór aftur inn á völlinn og sótti strax sína þriðju villu. Á bekknum sat hún svo þar til langt var liðið á seinni hálfleik þegar hún fékk annað tækifæri til að láta gott af sér leiða. Hildur endaði leikinn með 4 stig (1/7 í skotum, 1/5 í þristum og 1/2 í vítum), 5 fráköst (3 sóknarfráköst) og 1 stolinn bolta. UTPA unnu leikinn naumlega 61-59 eftir að hafa verið stigalausar síðustu 4 mínúturnar á meðan UNM saxaði hægt og rólega á forskotið.
Margrét Rósa Hálfdánardóttir og félagar í Canisius töpuðu stórt fyrir St. Bonaventure í New York borg 46-62. Margrét spilaði aðeins 8 mínútur í leiknum og endaði stigalaus með 2 skottilraunir.
Kris Acox og félagar í Furman háskólanum steinlágu á heimavelli fyrir Charleston háskólanum 75-40. Kristófer byrjaði leikinn fyrir Paladines, spilaði 21 mínútu og setti 6 stig og reif niður 8 fráköst. Þetta var annar leikur Furman í vetur en þeir sigruðu North Greenville í síðustu viku 60-64.



