Heil umferð fór fram í Iceland Express deild kvenna í kvöld þar sem Hamar verður á toppnum um jólin með 22 stig, fullt hús stiga eftir 11 sigurleiki í röð! Hamarskonur tóku á móti Grindavík og lögðu gesti sína 78-71 í Blómabænum, Jaleesa Butler gerði 23 stig í liði Hamars en hjá Grindavík var Crystal Boyd með 29 stig og 11 fráköst.
Önnur úrslit:
Njarðvík 47-75 Haukar
Shayla Fields gerði 22 stig í liði Njarðvíkinga og tók 9 fráköst en í liði Hauka var Kathleen Snodgrass með 25 stig.
Keflavík 79-39 Fjölnir
Jaqueline Adamshick gerði 22 stig og tók 11 fráköst í liði Keflavíkur. Hjá Fjölni var Inga Buzoka með 9 stig og 16 fráköst en Fjölniskonur léku án Natöshu Harris sem er meidd. Bragi Hinrik Magnússon tjáði þó Karfan.is í dag að Harris væri ekki með slitið liðband í hönd eins og óttast var í fyrstu en liðbandið er þó nokkuð skemmt. Að svo stöddu er vonast til að Harris geti verið með Fjölni strax í fyrsta leik eftir jól.
Snæfell 56-79 KR
Sade Logan gerði 20 stig í liði Snæfells en hjá KR var Margrét Kara Sturludóttir í stuði með 34 stig, 12 fráköst og 6 stolna bolta en KR lék án Hildar Sigurðardóttur sem hefur verið að glíma við meiðsli undanfarið.
Úrslit í 1. deild karla:
Breiðablik 83-82 Valur
Arnar Pétursson tryggði Blikum sigurinn með tveimur vítum þegar 4 sekúndur voru til leiksloka. Arnar og Atli Örn Gunnarsson voru stigahæstir hjá Blikum báðir með 15 stig en hjá Val var Calvin Wooten með 30 stig.
Laugdælir 75-85 FSu
Jón H. Baldvinsson og Sigurður Orri Hafþórsson voru stigahæstir Laugdæla báðir með 18 stig en Richard Field fór mikinn í liði FSu með 39 stig og 20 fráköst.
Nánar um leiki kvöldsins síðar…




