Breiðablik hefur samið við Einar Örvar Gíslason fyrir komandi tímabil í fyrstu deild karla.
Einar er 18 ára 200 cm framherji sem kemur til Breiðabliks frá uppeldisfélagi sínu í Keflavík, en á síðustu leiktíð kom hann við sögu í 11 leikjum með liðinu í Bónus deildinni. Þá vann hann sér sæti í U18 ára landsliði Íslands sem stóð sig svo vel á Norðurlandamótinu í Svíþjóð á dögunum. Þar stóð hann sig meðal annars frábærlega í sigri gegn Eistlandi þar sem hann skoraði 16 stig og sýndi góðan alhliða leik á báðum endum vallarins.




