spot_img
HomeFréttirUpprifjun Eurobasket - Tyrkland

Upprifjun Eurobasket – Tyrkland

Friðrik Ingi Rúnarsson þjálfari Njarðvíkinga hefur verið duglegur að rifja upp úr sögu Eurobasket og hefur verið að setja inn ansi skemmtilega pistla á Facebook síðu "Ísland á Eurobasket"  Með góðfúslegu leyfi fáum við að birta þessa pistla hér a Karfan.is og þessi pistill fjallar um Tyrki og þeirra framgöngu á Eurobasket. 

 

Upprifjun úr sögu Eurobasket – Tyrkland.

Tyrkir hafa löngum verið góðir í körfubolta og hefur áhuginn aukist mikið á síðustu árum. Topplið Tyrklands hafa gert vel í Evrópukeppnunum að undanförnu og sama má segja um landsliðið sem hefur náð ágætis árangri.

Þó nokkrir leikmenn frá Tyrklandi hafa komist að hjá NBA liðum og hafa sumir þeirra gert góða hluti þar.

Í dag eru tveir af sigursælustu þjálfurum Evrópu að þjálfa lið frá Tyrklandi, Željko Obradovic sem var lengstum hjá Panathinaikos í Grikklandi og Dusan Ivkovic sem á stóran þátt í mörgum titlum Júgóslavíu í gegnum árin sem og hjá félagsliðum sem hann hefur þjálfað. Ivkovic var með lið Serbíu á Íslandi 2012. Báðir eru þeir félagar frá Serbíu.

Fyrirtæki frá Tyrklandi hafa verið áberandi undanfarin ár sem styrktaraðilar í hinum ýmsu mótum og deildum og nýjasta dæmið er auðvitað Turkish Airlines Euroleague.

Mögulegir hápunktar í sögu landsliðs Tyrklands:

Tyrkir fengu silfrið á heimavelli í Evrópukeppninni 2001 eftir úrslitaleik gegn Júgóslavíu. Vinur okkar, Pesic, þjálfaði Júgóslavíu þá.

HM 2010 fór fram í Tyrklandi og má segja að árangur tyrkneska landsliðsins í mótinu teljist með hápunktum í körfuboltasögu landsins, liðið fór alla leið í úrslitaleik gegn því bandaríska. Silfur á HM staðreynd.

Þjálfari Tyrklands á HM 2010 var Bogdan Tanjevic en eflaust muna einhverjir sem þetta lesa eftir honum á bekk Svartfjallalands á smáþjóðaleikunum sem fóru fram í Laugardalshöllinni í byrjun júní á þessu ári.

Það má einnig benda á að Þjóðverjar fengu, eins og aðrar "host" þjóðir á Eurobasket 2015, að velja sér einn andstæðing og urðu Tyrkir fyrir valinu. Það er mikill fjöldi Tyrkja sem býr í Berlín og er stundum sagt til gamans að Berlín sé á meðal fjölmennustu borga Tyrklands. Það má því búast við miklum fjölda sem styður Tyrkland á mótinu.

 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -