Nú er loksins komið að því að gera upp jólakveðjuna 2012. Síðustu tvö ár hefur Þórsarinn Baldur Ragnarsson þótt standa sig með mikilli prýði en á síðasta ári í jólakveðjunni 2012 var lítill snáði sem stal senunni þegar hann söng af mikilli kostgæfni ,,Í skóginum stóð kofi einn.”
Litli töffarinn heitir Óliver Daði og fyrir þessa vasklegu frammistöðu ákvað Karfan.is að leysa Óliver út með hrollkaldri kippu af Gatorade og rándýrum trefli sem á er að finna sjálfan Hörð Axel Vilhjálmsson leikmann MBC í þýsku Bundesligunni.
Einhverjir ættu nú að kannast við pabbann á myndinni en sá heitir Rúnar Ingi Erlingsson leikmaður Vals í 1. deild karla. Þeir feðgar voru kampakátir með sigurlaunin, Óliver með Gatorade-drykkina og Rúnar með trefilinn sem hann var ekki lengi að sveipa um hálsinn á sér enda Hörður uppáhalds leikmaðurinn hans í þýska boltanum.



