spot_img
HomeFréttirUppgjör 17. umferðar í IEX karla

Uppgjör 17. umferðar í IEX karla

 
Nú er sautján umferðum lokið í Iceland Express deild karla og eru það Íslandsmeistarar KR sem tróna á toppi deildarinnar með 28 stig þegar 10 stig eru eftir í pottinum í venjulegri deildarkeppni. Sex lið geta á þessum tímapunkti orðið deildarmeistari og eru það sex efstu lið deildarinnar og hafa þau 24-28 stig. Þá er enn ekki hægt að úrskurða fall FSu í 1. deild þar sem aðeins munar 6 stigum á þeim og næsta liði Breiðablik, sem hefur 8 stig í 11. sæti deildarinnar.
Fyrstu þrír leikir umferðarinnar fóru fram á sunnudagskvöld þar sem mættust:
Njarðvík-Hamar
ÍR-Keflavík
KR-Fjölnir
 
Njarðvík 103-94 Hamar
Njarðvíkingar kvöddu niður taphrynu sína í deildinni en fyrir leikinn gegn Hamri hafði Njarðvík tapað þremur leikjum í röð í deildinni gegn KR, Fjölni og Grindavík. Jóhann Árni Ólafsson var stigahæstur í Njarðvíkursigrinum gegn Hamri með 21 stig, 7 fráköst og 6 stoðsendingar en Njarðvíkingar léku án Magnúsar Þórs Gunnarssonar í leiknum sem staddur var erlendis. Hjá Hamri var leikstjórnandinn knái Andre Dabney stigahæstur með 26 stig og 11 stoðsendingar.
 
ÍR 84-103 Keflavík
Tveir 100 leikir í röð hjá Keflavík eftir að liðið tapaði stórt í tvígang gegn Snæfellingum, í bikar og deild. Draelon Burns var stigahæstur í liði Keflavíkur með 25 stig, 12 fráköst og 7 stoðsendingar en Steinar Arason hrökk í gírinn hjá ÍR með 27 stig og þar af 5 þrista í 7 tilraunum. Keflvíkingar léku án Jóns N. Hafsteinssonar sem enn er að glíma við eymsli í baki eftir slæma byltu í Toyota-Höllinni er Keflvíkingar tóku á móti Snæfell í sjónvarspleik á RÚV. Jón datt í gólfið og hafnaði í þrífæti myndatökumanns RÚV og hefur hann fundið til síðan þá.
 
KR 80-75 Fjölnir
Nýliðar Fjölnis lærðu mikilvæga lexíu í Vesturbænum þegar Íslandsmeistarar KR sýndu Grafarvogspiltum að körfuboltaleikur stendur í heilar 40 mínútur. KR fór á kostum á lokaspretti leiksins og settu í lás í varnarleiknum og að sama skapi gerðu heimamenn mikilvægar körfur á lokasprettinum. Tvennutröllið Christopher Smith lét miðherja KR líta út fyrir að vera byrjendur en hann pakkaði þeim saman en KR tókst stundum að þagga niður í honum og þá með tví- og jafnvel þrídekkunum. Darri Hilmarsson kom sprækur af bekk KR og var þeirra besti maður með 22 stig en Christopher Smith var með 28 stig og 9 fráköst í liði Fjölnis.
 
Þrír síðustu leikir umferðarinnar áttu svo að klárast á mánudagskvöld en fresta varð leik Tindastóls og Stjörnunnar sökum veðurs. Hinir tveir leikirnir fóru þó fram og voru eftirfarandi:
 
Grindavík-Breiðablik
FSu-Snæfell
 
Grindavík 94-68 Breiðablik
Öruggur sigur Grindavíkur þar sem Ólafur Ólafsson átti tilþrif leiksins og hugsanlega tilþrif vetrarins þegar hann tók sóknarfrákast í hæstu hæðum og tróð með ,,einari“ yfir Jeremy Caldwell sem ætlaði að hrifsa varnarfrákastið. Mögnuð tilþrif hjá þessum spræka Grindvíking. Stigahæstur hjá gulum var þó Páll Axel Vilbergsson með 21 stig en hjá Breiðablik var Jeremy Caldwell með tröllatvennu eða 21 stig og 21 frákast. Grindvíkingar eru nú á góðri siglingu og hafa unnið fjóra deildarleiki í röð en að sama skapi eru Blikar í bullandi fallbaráttu.
 
FSu 115-133 Snæfell
Stigamet var slegið á Selfossi en fleiri stig hafa ekki verið skoruð í einum og sama leiknum þessa leiktíðina. Richard Williams fór mikinn í liði FSu með 40 stig, 10 fráköst og 8 stoðsendingar en hjá Hólmurum var Sean Burton með 25 stig og 8 stoðsendingar. Fall í 1. deild virðist því nánast óumflýjanlegt hjá FSu en það eru samt 10 stig eftir í pottinum fyrir FSu svo ekki er öll nótt úti enn. Snæfell situr áfram í 5. sæti deildarinnar með 24 stig og tekur því þátt í lokasprettinum um deildarmeistaratitilinn.
 
Leikur Tindastóls og Stjörnunnar fór svo fram í gærkvöldi þar sem Stjarnan hefndi fyrir tapði gegn Stólunum í Garðabæ. Lokatölur á Króknum voru 68-70 Stjörnunni í vil sem nú vermir 3. sæti deildarinnar með 26 stig en Tindastóll berst fyrir því að komast í úrslitakeppnina og hefur liðið 10 stig í 9. sætinu. Hinn nýji leikmaður Stjörnunnar virðist finna sig vel með Garðarbæjarliðinu en hann var stigahæstur hjá Stjörnunni í gær með 22 stig og 11 fráköst en í liði Stólanna var Svavar Atli Birgisson stigahæstur með 22 stig.
 
 
Nú er komið á hlé í deildinni þar sem Subwaybikarúrslitin fara fram í Laugardalshöll um helgina en átjánda umferð Iceland Express deildar karla hefst þann 25. febrúar með þremur leikjum þar sem mætast:
 
Snæfell-ÍR
Stjarnan-Grindavík
Fjölnir-FSu
 
Þann 26. febrúar lýkur svo umferðinni með þremur leikjum til viðbótar þar sem eigast við:
 
Keflavík-Tindastóll
Breiðablik-Njarðvík
Hamar-KR
 
Einstaklingstölfræði eftir 17. umferð:
Stigahæsti leikmaður: Andre Dabney, Hamar: 25,8
Frákastahæsti leikmaður: Hlynur Bærinsson, Snæfell: 15,1
Stoðsendingahæsti leikmaður: Sean Burton, Snæfell: 7,5
Flestir stolnir boltar: Semaj Inge var með 3,4 í leik, farinn til Hauka í 1. deild. Efstur sem því enn leikur í úrvalsdeild er Andre Dabney hjá Hamri með 2,8 stolna að meðaltali í leik.
Flestir tapaðir: Andre Dabney, Hamar: 4,1
Hæsta meðaltalsframlag: Hlynur Bæringsson, Snæfell: 33,8
Besta vítanýting: Justin Shouse, Stjarnan: 88,7%
Besta 2ja stiga nýting: Hlynur Bæringsson, Snæfell: 70,3%
Besta 3ja stiga nýting: Gunnlaugur H. Elsuson var með 47,6% nýtingu með ÍR en nú hefur hann skipt yfir í 1. deildina. Næstur á eftir Gunnlaugi og þá efstur í úrvalsdeild er Keflvíkingurinn Gunnar Stefánsson með 42,9% nýtingu.
 
Fréttir
- Auglýsing -