,,Ég fléttaði alltaf á mér hárið fyrir leikina gegn Hamri, ég held að það hafi gert útslagið,“ svaraði Unnur Tara Jónsdóttir leikmaður KR sem í kvöld varð Íslandsmeistari eftir 84-79 sigur gegn Hamri í oddaleik liðanna. Unnur Tara fór á kostum í úrslitaseríunni með KR og reyndist Hamri þungur ljár í þúfu. Unnur skoraði 27 stig fyrir KR í kvöld, tók 7 fráköst og var með 2 stolna bolta. Hún setti niður 7 af 8 teigskotum, 1 – 1 í þriggja og 10 af 12 vítum og fyrir þetta hrundu inn 35 framlagsstig. Draumaleikur hvers leikmanns í oddaleik um þann stóra!
Vitandi að margir leikmenn liðsins ættu tvenn silfurverðlaun heima frá síðustu tveimur leiktíðum fann Unnur þá fyrir þeirri pressu innan liðsins?
,,Nei í rauninni ekki, við höfum verið að gera góða hluti í vetur og sem betur fer tókum við þann stóra,“ sagði Unnur en hún ásamt hinum tveimur miðherjum KR liðsins fengu það vandasama verkefni að glíma við Juliu Demirer alla seríuna.
,,Hún er alveg svakaleg, alger trukkur og erfitt að eiga við hana en mér fannst Signý standa sig vel gegn henni,“ sagði Unnur en hvað fór fram í búningsklefanum í hálfleik? KR kom einbeitt inn í þriðja leikhluta og vann hann 31-21 og lagði þar grunninn að sigri sínum í kvöld.
,,Benni þjálfari fór aðeins að öskra á okkur í hálfleik, þar minnti hann okkur á hvað væri í húfi og við bara svöruðum þessu kalli,“ sagði Unnur sem á síðustu leiktíð spilaði í Finnlandi. Merkir hún einhverja breytingu á íslenska kvennakörfuboltanum síðan hún kom heim?
,,Ég held bara að það hafi aðallega verið ég sem breyttist og þá hugarfarslega. Það var mjög fínt að vera þarna úti og þar gat ég alveg tekið næsta skref sem leikmaður. Í Finnlandi þurfti ég að stíga upp með mínu liði og það hjálpaði mér núna til að gera slíkt hið sama með og fyrir KR,“ sagði Unnur sem gerði garðinn fyrst frægan með Haukum en hefur nú heldur betur unnið hug og hjörtu Vesturbæinga.



