Strákar í 8. flokki drengja hjá Breiðablik gerðu sigurför til Svíþjóðar um síðustu helgi á Göteborg Basketball Open Festival. Í þeirra aldursflokki voru skráð 100 lið frá Svíþjóð, Noregi, Íslandi, Danmörku, Þýskalandi, Bretlandi og Bandaríkjunum.
Blikar skráðu tvö lið til leiks og gekk þeim báðum afar vel. B lið komst alla leið í úrslit í sinni úrslitakeppni en laut í lægra haldi gegn Loddefjord. Silfur í höfn og frábær árangur.
A lið gerði sér lítið fyrir og vann mótið! Í úrslitaleik tóku þeir á móti Västerås og unnu 34-24. Breiðablik unnu alla sína níu leiki nokkuð sannfærandi og voru án vafa sterkasta liðið á mótinu. Rúnar Magni Rúnarsson var síðan valinn MVP úrslitaleiksins.
Það er skemmtileg tölfræði frá því að segja að samanlagt hittu A og B liðið 83 þriggja stiga körfur á móti 18 frá andstæðingum yfir allt mótið. Framúrskarandi skyttur í hópnum greinilega !
Helgina þar á undan unnu þeir sinn þriðja Íslandsmeistaratitil í röð. Titlaóðir drengir þar á ferð.


