spot_img
HomeFréttirUndirbjó sig fyrir háskólaboltann en verður heima

Undirbjó sig fyrir háskólaboltann en verður heima

 
Árni Ragnarsson verður með Fjölni í Iceland Express deildinni í vetur og hefur þegar látið til sín taka í Reykjavíkurmótinu með gulum. Árni notaði sumarið í sumar til að undirbúa sig fyrir komandi tímabil í háskólanum í Bandaríkjunum en ekkert verður af þeim plönum að þessu sinni.
,,Ég verð heima í vetur,“ sagði Árni sem var við nám í Alabama Huntsville skólanum. ,,Ég átti að fá metin tvö ár inn í skólann því ég hafði tekið háskólatengda áfanga áður en ég kom í Huntsville. NCAA körfuboltasambandið sagði að ég yrði ólöglegur ef ég fengi þetta metið inn í skólann og því byrjaði ég námið á öfugum enda, tók senior- og junioráfanga,“ sagði Árni en í þetta skiptið var Kaninn fastur fyrir.
 
,,Ég reyndi að tala við NCAA en niðurstaðan varð sú að ég er kominn heim en fæ það metið sem ég vildi og er þ.a.l. ólöglegur í bandaríska háskólaboltanum,“ sagði Árni en býst við því að klára sitt nám í gegnum veraldarvefinn.
 
Árni er hvalreki á fjörur Fjölnismanna enda Tómas Heiðar Tómasson þegar farinn út til Bandaríkjanna í nám og ekki langt að bíða þess að Ægir Þór Steinarsson kveðji félagið og því ekki ósennilegt að mikið muni mæða á Árna með gulum í vetur.
 
Mynd/ Árni ásamt Steinari Davíðssyni formanni KKD Fjölnis.
Fréttir
- Auglýsing -