spot_img
HomeFréttirUndir 18 ára stúlknalandslið Íslands í þriðja sæti Norðurlandamótsins í Kisakallio

Undir 18 ára stúlknalandslið Íslands í þriðja sæti Norðurlandamótsins í Kisakallio

Undir 18 ára stúlknalið Íslands mátti þola tap í dag fyrir Finnlandi í lokaleik sínum á NM 2022. Liðið hafnaði því í þriðja sæti mótsins, með tvo sigra og þrjú töp líkt og Danmörk, en vegna innbyrðisstöðu gegn þeim var Ísland fyrir ofan. Norðurlandameistarar voru Svíþjóð og í öðru sæti varð Finnland.

Lokastaða NM 2022

Gangur leiks

Leikurinn var í nokkru jafnvægi í upphafi. Finnland þó stigi á undan eftir fyrsta leikhluta, 16-15. Í öðrum leikhlutanum ná þær svo að vera skrefinu á undan og fara með 7 stiga forystu til búningsherbergja í hálfleik, 35-28.

Íslenska liðið gerir vel að missa Finnland ekki lengra frá sér í upphafi seinni hálfleiksins. Með góðu skipulagi og elju ná þær að halda leiknum nánast jöfnum fyrir fjórða leikhlutann þar sem aðeins 5 stig skildu liðin að, 49-44. Í lokaleikhlutanum gerir Ísland hvað þær geta til þess að ná forystunni og komast 3 stigum næst Finnlandi. Lengra nær það þó ekki og nær Finnland að lokum að kría út tíu stiga sigur, 68-58.

Atkvæðamestar

Emma Sóldís Hjördísardóttir og Eva Wium Elíasdóttir voru stigahæstar í liði Íslands í dag hvor um sig með 13 stig. Framlagshæst var Heiður Karlsdóttir með 7 stig, 4 fráköst, 3 stoðsendingar, 2 stolna bolta og varið skot.

Kjarninn

Af þeim fimm leikjum sem Ísland lék á mótinu má segja að fyrir utan leikinn gegn Eistlandi, sem liðið átti að vinna, hafi þær gert virkilega vel. Erfiðir leikir gegn A þjóðum Svíþjóð og Finnlands síðustu tvo dagana, þar sem að þrátt fyrir töp í þeim báðum, náðu þær að sýna það að í þessu liði býr hellings barátta og hæfileikar. Þriðja sætið nokkuð sanngjörn og rétt niðurstaða fyrir liðið miðað við getu andstæðinga þeirra á mótinu.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -