spot_img
HomeFréttirUndir 18 ára drengir töpuðu sínum fyrsta leik í Södertalje - Eiga...

Undir 18 ára drengir töpuðu sínum fyrsta leik í Södertalje – Eiga möguleika á að vinna mótið með sigri í lokaleik

Undir 18 ára drengjalið Ísland tapaði sínum fyrsta leik í dag á Norðulandamótinu í Södertalje er liðið laut í lægra haldi gegn Finnlandi, 73-98. Ísland er því með þrjá sigra og eitt tap. Þrátt fyrir tapið á liðið enn möguleika á að hampa titlinum, en til þess þurfa þeir að vinna Svíþjóð í lokaleik sínum á mótinu á morgun.

Fyrir leik

Fyrir leik dagsins var íslenska liðið taplaust eftir fyrstu þrjá leiki mótsins. Finnlandi hafði ekki gengið svo vel framan af móti, voru búnir að vinna einn og tapa tveimur.

Byrjunarlið Íslands

Þórður Freyr, Hallgrímur Árni, Friðrik Leó, Hilmir og Kristján Fannar.

Gangur leiks

Eftir nokkuð jafnar upphafsmínútur nær Finnland aðeins að slíta sig frá íslenska liðinu. Mestur er munurinn 10 stig í fyrsta leikhlutanum, en staðan fyrir annan fjórðung er 15-24 Finnlandi í vil. Enn gengur Finnland á lagið í upphafi annars leikhlutans og eru þeir 14 stigum yfir þegar mest lætur. Ísland gerir þá vel í að vinna muninn niður að mestu og eru 6 stigum undir um miðbygg leikhlutans. Missa þá þó aftur frá sér og er munurinn 9 stig þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 41-50.

Stigahæstir í íslenska liðinu í fyrri hálfleiknum voru Brynjar Kári Gunnarsson og Lars Erik Bragason hvor um sig með 11 stig.

Ísland mætir miklu betur til leiks í seinni hálfleiknum. Eru miklu áræðnari á báðum endum vallarins heldur en þeir höfðu verið í fyrri hálfleiknum. Eru þó enn 4 stigum undir þegar 5 mínútur eru eftir af þriðja fjórðung, 53-57. Undir lok leikhlutans fara þeir svo illa að ráði sínu og missa Finnland aftur 16 stigum framúr sér fyrir lok þess þriðja, 57-73. Finnland gerir svo meira og minna útum leikinn í upphafi fjórða leikhlutans, eru með 31 stigs forystu þegar 5 mínútur eru eftir af leiknum. Undir lokin sigla þeir svo mjög öruggum 25 stiga sigur í höfn, 73-98.

Atkvæðamestir

Atkvæðamestir fyrir Ísland í leiknum voru Brynjar Kári Gunnarsson með 15 stig, 2 fráköst og Friðrik Leó Curtis með 15 stig og 7 fráköst.

Hvað svo?

Lokaleikur Íslands á mótinu er á morgun sunnudag 2. júlí gegn heimamönnum í Svíþjóð kl. 11:45.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Gunnar Jónatansson)

Umfjöllun Körfunnar um íslensku landsliðin er kostuð af Lykil

Fréttir
- Auglýsing -