Undanúrslit Euroleague fara fram í Mercedes Benz Arena í Berlín í kvöld. Höllin er okkur Íslendingum að góðu kunn en þar fór fram riðill Íslands í lokakeppni EuroBasket 2015. Það vantar ekki stórliðin sem verða á ferðinni í undanúrslitum í kvöld en í fyrri leik kvöldsins mætast CSKA Moskva og Lokomotiv Krasnodar og í síðari viðureign kvöldsins eigast við Fenerbache og Laboral Kutxa.
Valinkunnur hópur Íslendinga er nú staddur ytra en þar fer frítt þjálfarateymi skipað Inga Þór Steinþórssyni, Einari Árna Jóhannssyni, Viðari Erni Hafsteinssyni, Bendedikt Guðmundssyni, Sverri Þór Sverrissyni og Finni Frey Stefánssyni. Fleiri kunna að vera ytra til þess að fylgjast með fjörinu í kvöld og ef einhverja vantar í upptalninguna eru þeir beðnir velvirðingar.
Enn eina ferðina verða því myndarlegir fulltrúar Íslands í Mercedes Benz Arena í Berlín á stórmóti. Sjálfur úrslitaleikurinn fer svo fram sunnudaginn 15. maí næstkomandi.
Topp 10 tilþrif úrslitakeppni Euroleague til þessa
Mynd/ Teodosic verður með CSKA Moskvu í undanúrslitum Euroleague í kvöld. Hér er hann með Serbíu gegn Íslandi í Mercedes Benz Arena í lokakeppni EuroBasket 2016 og það er Martin Hermannsson sem er til varnar.