spot_img
HomeFréttirUndanúrslit austur- og vesturstranda NBA deildarinnar

Undanúrslit austur- og vesturstranda NBA deildarinnar

Þá er lokið einni ótrúlegustu fyrstu umferð í sögu úrslitakeppni NBA deildarinnar þar sem fimm viðureignir af átta enduðu með oddaleik þar sem allt var undir. Ótrúleg tilþrif og frábærir leikir hafa glatt körfuboltaaðdaáendur um allan heim og “óvænt” úrslit litið dagsins ljós í einhverjum tilfellum.
 
 
Ég var með sigurvegara rétta í sex af átta viðureignum en Washington og Portland komu mér á óvart og unnu Chicago og Houston annars var spá mín fyrir fyrstu umferðina eftirfarandi:
 
Miami-Charlotte 4-0: MIAMI vann 4-0
Chicago-Washington 4-3: WASHINGTON vann 1-4
Indiana-Atlanta 4-1: INDIANA vann 4-3
Toronto-Brooklyn 4-2: BROOKLYN vann 4-3
Oklahoma-Memphis 4-2: OKLAHOMA vann 4-3
Los Angeles 4-3: Golden State: LOS ANGELES vann 4-3
Houston-Portland 4-3: PORTLAND vann 2-4
San Antonio-Dallas 4-1: SAN ANTONIO vann 4-3
 
Hér er svo mín spá fyrir aðra umferð:
 
Undanúrslit Austurstrandarinnar
 
Miami Heat – Brooklyn Nets (0-4 í vetur)
Hér verður barist til síðasta blóðdropa! Kevin Garnett og Paul Pierce vor keyptir sérstaklega til Brooklyn til að vinna titil núna í ár og til þess verða þeir að sjálfsögðu að sigra lið Miami Heat, núverandi NBA meistara með LeBron James og Dwayne Wade innanborðs. Garnett og Pierce eru líklega á síðustu metrunum sem stjörnur í NBA deildinni og myndu ekki neita því að sigra LeBron og félaga á þessum tímapunkti. Miami blés varla úr nös í viðureign sinni gegn Bobcats í fyrstu umferðinni en mæta núna mun sterkara liði sem vann allar viðureignir milli liðanna í vetur! Hverju það skilar er erfitt að segja því LeBron, Wade og Bosh eru allir leikmenn sem kunna að vinna leiki, eins og þeir hafa margoft sýnt. Wade er þó búinn að eiga í talsverðum meiðslum í vetur en hefur verið hvíldur talsvert. Ray Allen var ekki að sína sitt rétta andlit í viðureigninni gegn Bobcats og nokkrir aðrir leikmenn liðsins hafa átt við smávægileg meiðsli að stríða. Athyglisvert verður að fylgjast með mínútum hjá Wade, Bosh og LeBron en hugsanlega þorir Spoelstra ekki að hvíla þá of mikið í leikjunum sem ætti þó að vera í lagi þar sem liðið hefur fengið langa hvíld eftir “sópið” gegn Bobcats. Liðið stendur þó og fellur með LeBron James! Brooklyn liðið mun reyna að spila hægan bolta (margir ellibelgir í liðinu) Deron WIlliams leikstjórnandi þeirra hefur átt við meisli að stríða en virðist vera að ná sér á strik, Joe Johnson lék vel gegn Toronto og hefur verið jafnbesti leikmaður liðsins í vetur, Garnett og Pierce fá úthlutað ákveðnum mínútum og þá sérstaklega Garnett. “Aukaleikarar” beggja liða gætu riðið baggamun í þessari viðureign og ég hallast að því að Brooklyn muni eiga lokaorðið og sigra í mest spennandi seríu undanúrslitanna eftir epískan útisigur í tvíframlengdum oddaleik!
Mín spá: Brooklyn vinnur 3-4
 
Indiana Pacers – Washington Wizards (2-1 í vetur)
Washington kom mér á óvart og vann Chicago Bulls verðskuldað 1-4 og mætir efsta liði austurdeildarinnar Indiana Pacers sem lék undir getu megnið af viðureigninni gegn Atlanta Hawks en virðist vera að finna taktinn aftur og lék vel síðustu fimm leikhlutana gegn Atlanta og vann sjöunda leikinn nokkuð auðveldlega og þar með seríuna 4-3. Nú er bara að sjá hvort Pacers liðið sem lék svo vel framan af leiktíðinni sé komið aftur! Ef svo er ætti liðið að klára Wizards. Pacers liðið gæti lent í miklum erfiðleikum með Wizards liðið með þá John Wall og Bradley Beal í broddi fylkingar ásamt meðreiðarsveinunum Nene og Gordat sem fóru illa með Chicago vörnina trekk í trekk. Ætla mætti að Wizards reyni að keyra upp hraðann í leikjunum gegn Indiana og þótt Pacers geti vel spilað þannig bolta þá hentar þeim frekar að hægja á leiknum og láta sóknirnar fara í gegnum David West og Paul George. Roy Hibbert miðherjinn hávaxni lét lítið til sín taka gegn Atlanta þangað til í oddaleiknum og ef hann nær sér á strik gegn Washington þá ætti Indiana að ná að vinna seríuna. Ég spái því að rimma Nene og David West geti skorið úr um hvernig serían fer. Ég er í miklum vandræðum með að spá fyrir um úrslit þessarar viðureignar – hausinn segir Indiana – en hjartað segir Washington!! Ég ætla að leyfa hjartanu að ráða í þetta skiptið og spá Washington Wizards í úrslitum austurdeildarinnar eftir skemmtilega rimmu gegn Indiana.
Mín spá: Washington vinnur 2-4
 
 
Undanúrslit Vesturstrandarinnar

Oklahoma City Thunder – Los Angeles Clippers (2-2 í vetur)
Bæði liðin lentu í erfiðleikum með andsæðinga sína í fyrstu umferð. OKC lenti 3-2 undir gegn Memphis Grizzlies en náði að vinna sjöunda leikinn í seríunni nokkuð auðveldlega og vann viðureignina 4-3. Clippers lentu einnig í vandræðum gegn skemmtilegu liði Golden State Warriors en knúðu fram sigur á heimavelli í sjöunda leiknum og vann 4-3, þrátt fyrir alla vitleysuna í kringum eiganda liðsins Donald Sterling sem var í raun rekinn úr NBA deildinni í kjölfarið! Westbrook og Durant munu leiða Oklahoma liðið (auk þess sem Derek Fisher vinnur einn leik með flautukörfu!). Oklahoma stendur og fellur með þeim félögum og Durant virtist finna skotið sitt aftur í síðustu tveimur leikjunum gegn Memphis auk þess sem Westbrook átti fanta leik með þrefalda þrennu í oddaleiknum. Clippers náði að sigra Golden State með smá vörn í lokaleikhluta oddaleiksins en varnir liðanna eru ekki þeirra sterka hlið. Chris Paul spilar greinilega ekki heill og Blake Griffin hefur ekki náð að heilla mig amk ekki í seríunni gegn Warriors, en það gerði DeAndre Jordan hinsvegar! Þvílíkur fanta leikmaður og baráttujaxl sem maðurinn er er alveg ótrúlegt. Þessar stórstjörnur liðanna munu leiða lið sín í hröðum og skemmtilegum leikjum og mætti segja mér að mest yrði skorað í þessari seríu og að hraðasti boltinn verði spilaður hér. Það verður samt vörnin sem mun að lokum ráða hverjir fara í úrslit vesturstrandarinnar og mér segir svo hugur að í sjöunda leiknum í seríunni verði það varnarmenn OKC (les Perkins) sem hafa betur.
Mín spá: Oklahoma vinnur 4-3
 
San Antonio Spurs – Portland Trail Blazers (2-2 í vetur)
Ætlar Tim Duncan ekkert að eldast? San Antonio hefur spilað hreint frábærlega í vetur og hefur nánast engu máli skipt hverjir eru inná hverju sinni! Boltinn gengur betur milli leikmanna heldur en hjá flestum öðrum liðum og jafnvægið í liðinu er magnað. Tim Duncan hefur spilað vel, Tony Parker var frábær í oddaleiknum gegn Dallas og Ginobili einnig. Danny Green Kawhi Leonard, Tiago Splitter og Boris Diaw hafa einnig spilað vel og gæti Portland reynst erfitt að verjast Spurs liðinu með svona marga valkosti. Portland er leitt áfram af LaMarcus Aldridge og Damian Lillard en þeir tveir áttu stærstan þátt í að Portland vann sigur á Houston í sex leikjum. Aldridge er líklega ein vanmetnasta stórstjarna deildarinnar og margir hafa gleymt því að Portland vann ansi marga leik framan af leiktíðinni og er til alls líklegt. Lillard setti að sjálfsögði “flautu þrist” í sjötta leiknum gegn Houston og tryggði þar með Portland eins stigs sigur en aðrir leikmenn sem hafa leikið vel fyrir Portland eru Nicolas Batum, Robin Lopez (tvíburabróðir Brook Lopez hjá Brooklyn) og Wes Matthews en barátta liðsins var stórkostleg í rimmunni gegn Houston. Barátta Portland mun þó ekki duga gegn San Antonio sem nær að knýja fram sigur í oddaleik á heimavelli.
Mín spá: San Antonio vinnur 4-3
 
Ef spá mín gengur eftir verða úrslit deildanna þannig:
 
Austurdeild
Washington Wizards-Brooklyn Nets
 
Vesturdeild
San Antonio Spurs-Oklahoma City Thunder
 
Góðar stundir!
Hannes Birgir Hjálmarssson – Reykjavík – 5. maí 2014
 
Fréttir
- Auglýsing -