Í kvöld eru 12 leikir á dagskránni í undankeppni EuroBasket karla 2015. Í A-riðli Íslands mætast Bretland og Bosnía í Copper Box Arena í London kl. 19:35 að staðartíma eða kl. 18:35 að íslenskum tíma. Bosnía leikur sinn fyrsta leik í keppninni í kvöld en eins og frægt er orðið töpuðu Bretar sínum fyrsta leik í Höllinni gegn íslenska liðinu.
Yfirlit fyrir alla leiki dagsins má nálgast hér en Svíar leika m.a. gegn Rúmenum, stórleikur verður þegar Rússar og Ítalir mætast í Moskvu og þá verður grannaslagur þegar Austurríkismenn taka á móti Þjóðverjum.
Íslenska liðið mætir Bosníumönnum í Tuzla þann 17. ágúst næstkomandi og heldur liðið út til Bosníu næsta föstudag. Eftir það liggur leiðin til London þar sem Bretland og Ísland eigast við þann 20. ágúst og lokaleikur undankeppni EuroBasket er þann 27. ágúst þegar Bosníumenn mæta í Laugardalshöll.
Mynd/ Axel Finnur