spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: X-factorinn Björn Kristjáns

Umfjöllun: X-factorinn Björn Kristjáns

Það var kannski táknrænt að nýr X-factor myndi stíga upp í kvöld í 4. leik Þórs Þorlákshafnar og KR en Helgi Már Magnússon var munurinn í 3. leiknum. Í kvöld var það Björn Kristjánsson sem kom öllum að óvörum, þ.e. öllum nema sjálfum sér!  Alltaf þegar Þórsarar virtust vera koma til baka og jafnvel að ná yfirhöndinni, þá smellti Bjössi í rándýran þrist, oft laaaangt fyrir utan 3. stiga línuna!  Bjössi hitti 5/8 úr þristunum og var einfaldlega munurinn á liðunum.

KR-ingar leiddu allan leikinn og fór munurinn mest upp í 18 stig en Þórsarar eru ólseigir og alltaf komu þeir til baka.  KR leiddi 22-34 eftir 1. fjórðung en heimamenn tóku 2. hlutann með 1 stigi og því leiddu gestirnir með 11 stigum í hálfleik.  Þeir byrjuðu seinni hálfleikinn betur en eins og áður segir þá náðu þeir aldrei að slíta sig alveg frá Þórsurum og fyrir lokabardagann munaði áfram þessum 11 stigum og fór munurinn minnst í 4 stig í lokin sem sýnir að leikurinn var galopinn í raun allan tímann.  Það var ekki fyrr en í lokin þegar Kinu Rochford missti hausinn þegar 1:30 voru eftir og Þórsarar 10 stigum undir, sem KR-ingar gátu kannski loksins andað léttar.  Magnað afrek hjá þeim röndóttu að vera komnir í FINALS 6. árið í röð, segi það og skrifa SJÖTTA ÁRIÐ Í RÖÐ!!

Auðvitað er alltaf súrt að tapa en Þorlákshafnarbúar hljóta að bera höfuðið hátt eftir þetta fyrsta tímabil Baldurs við stjórnvölin.  Eins og frægt er, sneru Þórsarar 0-2 stöðu sinni á móti Tindastóli í sigur og veittu Íslandsmeisturunum harða keppni.  Þau frændsystkini „Ef“ og „Hefði“ hafa aldrei myndað gott tvíeyki nema í draumórum en fróðlegt hefði verið að sjá Þórsara með hinn frábæra Kinu Rochford heilan í þessari seríu!  Hann skilaði ekki „nema“ 50 framlagspunktum í 2. leiknum en meiðsli hans í mjöðm versnuðu í 3. leiknum og hann var eiginlega ekki svipur hjá sjón í kvöld og skilaði „bara“ 20 framlagspunktum (11 stig og 13 fráköst).  Bestur Þórsarar var hin frábæra skytta Nikolas Tomsick með 30 stig og 10 stoðsendingar.  Jaka Brodnik skilaði líka sínu með 25 framlagspunkta (18 stig og 9 fráköst (var með frábæra skotnýtingu sem skýrir út hátt framlag)).  Emil Karel, Halldór Garðar (11) og Ragnar Örn Braga skiluðu líka góðu framlagi (innan sviga).

Hjá Íslandsmeisturunum var fyrrnefndur Björn Kristjáns X-factorinn!  Þótt Julian Boyd hafi skilað mestu framlagi eða 28 (26 stig og 11 fráköst) þá verður bara MVP leiksins að fara á Bjössa sem setti 19 stig og hitti 5/8 í þristum.  Kristófer Acox skilaði sem fyrr flottum tölum eða 21 í framlag (17 stig og 7 fráköst).  Geitin Jón Arnór var frábær í fyrri hálfleik en meiddist svo í seinni og þurfti að fara út af um tíma en sem betur fer fyrir KR-inga sneri hann aftur inn á völlinn og er vonandi heill heilsu.  Athyglisvert að rýna í tölfræði Pavels Ermolinski en hann var einungis með 6 stig og 7 fráköst (13 í framlag) en hann er langhæstur KR-inga þegar kemur að +- dálkinum!  Var með +24, næsti maður með +14.

Eftir stendur að KR-ingar eru komnir í FINALS og bíða niðurstöðunnar úr rimmu Stjörnunnar og ÍR.

Viðtöl eftir leik:

Fréttir
- Auglýsing -