spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Valur sigraði FSu á Hlíðarenda

Umfjöllun: Valur sigraði FSu á Hlíðarenda

Valur fékk FSu í heimsókn í kvöld og boðið var upp á spennandi leik sem lauk með sigri Vals, 99 gegn 95. FSu byrjuðu leikinn betur og hittu vel úr stökkskotum alls staðar af vellinum. Valsmenn voru hins vegar í basli með að ná góðum skotum og komust lítið að körfu andstæðingana. 
 
Það vakti athygli að Nathen Garth kom ekki inn á völlinn fyrr en ein og hálf mínúta var eftir af fyrsta leikhluta. Gestirnir voru með níu stiga forskot eftir fyrsta leikhluta og Valsmenn virtust ekki hafa kraft til að minnka þann mun. Í byrjun annars leikhluta hófu FSu menn að pressa allan völlinn og falla aftur í 1:3:1 vörn, sem er frekar sjaldséð í seinni tíð. Colin Pryor var besti leikmaður vallarinns í fyrri hálfleik og var kominn með 17 stig og fjölmörg fráköst. Staðan í hálfleik 43 gegn 55 fyrir gestina.
 
Í seinni hálfleik var ekkert sem benti til þess að Valur myndi koma til baka og munurinn fór mest í 16 stig um miðjan þriðja leikhluta. Þá fór varnarleikur Vals að batna og munurinn minnkaði smátt og smátt niður í 10 stig. Rétt fyrir lok leikhlutans ákvað þjálfari FSu að hvíla Pryor og við það fór allur vindur úr gestunum. Nú hættu skotin að falla fyrir þá og virtist sem þá vantaði trú á að geta klárað leikinn. Fjórði leikhluti byrjaði með miklu óðagoti hjá báðum liðum og lítið var skorað.
 
Mikil barátta var í leiknum en sóknarleikurinn ómarkviss. Þegar sex mínútur voru eftir í stöðunni 75 – 79 tók Leifur Steinn sig til og skoraði tvær þriggja stiga körfur og kom Val í 81 – 79. Eftir það létu heimamenn forystuna ekki af hendi. Kristján Leifur skoraði tvær mikilvægar körfur og kom Val í 91 – 86. Það sem skóp sigur Vals var samt fyrst og fremst góður varnar leikur síðustu 15 mínútur leiksins. Stigahæstur í liði Vals var Nathen Garth með 25 stig og þar af 15 af vítalínunni í 15 tilraunum.
 
Illugi Auðunsson var besti leikmaður Vals í leiknum með 16 stig og a.m.k. 11 fráköst og frábæra vörn. Hjá gestunum var Pryor lang bestur og endaði með 32 stig og fjölmörg fráköst. Ari Gylfason byrjaði á að hitta úr fyrstu þrem skotunum sínum, en svo fór ekkert ofan í körfuna nema skot frá eigin vallarhelmigi um það bil sem leiknum lauk.
 
 
Texti:  Torfi Magnússon
 
Mynd: Hilmir Ægir Ómarsson, Val sækir að körfu FSu í kvöld. (Torfi Magnússon)
Fréttir
- Auglýsing -