spot_img
HomeBikarkeppniUmfjöllun: Valur bikarmeistari!

Umfjöllun: Valur bikarmeistari!

Starnan og Valur mættust í bikarúrslitum Geysisbikarsins í dag. Hvorugt lið hafði unnið bikarinn áður og þí ljóst að glænýr bikarmeistari yrði krýndur í lok leiks.

Valur skoraði fyrstu 6 stig leiksins og svo tók Stjarnan við og skoraði 9 stig í röð. Valur komst svo inn í leikinn og náði aftur forystunni þegar um 2 og hálf voru eftir en það stóð ekki lengi því Starnan tók aftur forystuna von bráðar. Hörku fyrsti leikhluti í höllinni! Það var svo Valur sem kláraði leikhlutann betur og staðan eftir fyrstaleikhluta því 15 – 21 Val í vil.

Valur byrjaði annan leikhluta betur en Stjarnan var að spila vel og hjuggu hægt og rólega á forystu Vals sem um miðbik leikhlutans var komin niður í 1 stig. Mikil barátta einkenndi leik beggja liða en það var Valur sem var sterkari lokamínúturnar. Hálfleikstölur 38 – 45 Val í vil.

Valur kom mun ákveðnari til leiks í þriðja leikhluta. Stjarnan átti fá svör hvorki í vörn né sókn og Valur komst mest 15 stigum yfir um miðjan leikfjórðunginn. Stjarnan komst loks af stað þegar líða fór á seinni hluta leikhlutans og minnkuðu forystu Vals mest niður í 7 stig með mun betri varnarvinnu og skipulagi í sókninni. Staðan fyrir fjórða leikhluta 55 – 65 Val í vil.

Valur ætlaði sér greinilega að tryggja sér bikarinn og komu mjög vel stemmdar í fjórða leikhluta. Þegar rúmlega 4 mínútur voru eftir af leiknum og Valur 18 stigum yfir var brekkan fyrir Stjörnuna orðin ansi áþreifanlega brött. Stjarnan hafði engin svör við frábærum leik Valskvenna. Lokatölur 74 – 90. Valur því bikarmeistarar kvenna 2018- 2019!

Byrjunarlið:

Stjarnan: Danielle Victoria Rodriguez, Ragnheiður Benónísdóttir, Jóhanna Björk Sveinsdóttir, Bríet Sif Hinriksdóttir, Auður Íris Ólafsdóttir.

Valur: Hallveig Jónsdóttir, Dagbjört Dögg Karlsdóttir, Simona Podesvova, Heather Butler og Helena Sverrisdóttir.

Þáttaskil:

Það er erfitt að benda á einhver þáttaskil í leik þar sem Valur stýrði megið af tímanum. Reynsla og öryggi Helenu Sverrisdóttir var samt klárlega munurinn á milli liðanna.

Tölfræðin lýgur ekki:

Stjarnan tapaði mun fleiri boltum en Valur á meðan það skipti máli og það hefur mikið að segja í svona leik (fyrstu 38 mín: 15 – 9. Síðustu tvær, þar sem sigurinn var tryggður 1 – 3).

Hetjan:

Stjarnan: Jóhanna Björk Sveinsdóttir og Danielle Victoria Rodriguez voru ferskastar hjá Stjörnunni.

Valur: Guðbjörg Sverrisdóttir átti góða innkomu og þær Heather Butler og Hallveig Jónsdóttir voru góðar. En það var Helena Sverrisdóttir sem var best á vellinum eins og svo oft áður. 31 stig, 13 fráköst, 6 stoðsendingar og 3 stolnir boltar, 44 í framlag! Þvílíkur leikmaður!

Kjarninn:

Stjarnan átti góð áhlaup en Valur var alltaf tilbúin til að koma sterkari til baka. Valur vann alla leikhlutana og því hægt að tala um nokkuð öruggan sigur Valskvenna. Stjarnan átti alls ekki slæman leik en það er nokkuð ljóst að það lið sem ætlar sér að sigra þetta Valslið í vetur þarf að vera ansi vel undirbúið og stemmt til þess.

Tölfræði

Myndasafn: Bjarni Antonsson

 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -