spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaUmfjöllun: Þórsstúlkur lögðu Snæfell í fyrsta heimaleik vetrarins

Umfjöllun: Þórsstúlkur lögðu Snæfell í fyrsta heimaleik vetrarins

Þórsstúlkur gerðu sér lítið fyrir og skelltu Snæfelli nokkuð örugglega í fyrsta heimaleik vetrarins 79:67. 

Þór skoraði fyrstu stigin af vítalínunni í fyrstu sókn 1:0 en gestirnir svöruðu með þremur þristum og komust í 1:9. Þessu svöruðu Þórsstúlkur með 11:0 áhlaupi og breyttu stöðunni í 12:9 um miðjan fjórðunginn. 

Gestirnir komust yfir 14:16 og svo aftur 16:18 en það voru Þórsarar sem lokuðu fyrsta leikhlutanum þá með 6:0 og leiddu með sex stigum að honum loknum 24:18.

Snæfell hóf leikhlutann af krafti og skoruðu fyrstu sex stigin í fjórðungnum og jöfnuðu 24:24 drifnar áfram af stórleik Sianni Martin. Þetta vakti Þórsara af stuttum værum blundi sem settu kraft í leik sinn og náðu aftur vopnum sínum og náðu allt að fimm stiga forskoti. Snæfell vann leikhlutann með einu stigi 12:13 en Þór leiddi í  hálfleik 36:31. 

Í fyrri hálfleiknum kom Karen Lind sterk inn og skoraði 11, Marín Lind var með 7 og Rut 6. Hjá Snæfelli var Sianni Amari Martin hreinlega óstöðvandi og skoraði 18 stig og næst henni kom Preslava með 6 stig. Helsti styrkur Þórsliðsins í fyrri hálfleik var sterk liðsheild.

Í þriðja leikhluta hélt baráttan áfram og Þór náði allt að sjö stiga forskoti 46:39 en gestirnir náðu að minnka muninn niður í tvö stig 52:50 þegar tæp mínúta lifði af fjórðungum en Hrefna bætti við þrist áður en fjórðungurinn var úti og staðan 55:50 þegar lokakaflinn hófst.

Snæfellskonur neituðu að gefast upp og þegar um tvær mínútur voru liðnar af leikhlutanum var Snæfell komið með eins stigs forskot 58:59. En Þórsarar bættu verulega í og keyrðu upp hraðann í leiknum og nýttu sér það að Sianna var komin í villuvandræði og þá var fátt um fína drætti hjá gestunum. 

Þórsarar bættu í og juku forskotið jafnt og þétt og þegar upp var staðið var 12 stiga sigur staðreynd og segja má að sá sigur hafi verið síst of stór. 

Í liði gestanna var hin margumrædda Sianna Amari allt í öllu og skoraði 40 stig og tók 7 fráköst. Rebekka Rán var með 13 stig, Preslava Koleva 6 og 4 fráköst, Vaka Þorsteinsdóttir 5 og Minea Ann Kristin 3 og 8 fráköst.

Hjá Þór var Marín Lind stigahæst með 15 stig 9 fráköst og 4 stoðsendingar. Hrefna 14/12/4, Karen Lind 12/3, Rut Herner 11/6/2, Eva Wium 10/4/4, Heiða Hlín 7/7/6, Ásgerður Jana 5/5/1, Katla María 3 og Hrafnhildur Magnúsdóttir 2. 

Eins og áður segir var sigur Þórs sanngjarn og síst of stór. Helsti styrkur liðsins liggur í liðsheildinni eins og sést á stigaskorinu þar sem 5 leikmenn skoruðu 10 stig eða fleiri hver. Ein alls komust níu leikmenn Þórs á blað.

Hjá Snæfelli voru það aðeins tveir leikmenn sem fóru yfir tíu stiga múrinn þær Sianna og Rebekka Rán. 

Nánari tölfræði sjá HÉR

Gangur leiksins eftir leikhlutum: 24:18 / 12:13 (36:31) 19:19 / 24:17 = 79:67

Staðan í deildinni

Næsti leikur Þórs er útileikur gegn Aþenu-UMFK og fer sá leikur fram á Akranesi-Jaðarsbökkum þriðjudaginn 12. október klukkan 18:00.

Myndir úr leiknum: Palli Jóh

Fréttir
- Auglýsing -