spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaUmfjöllun: Þórssigur í kvöld gegn Hetti

Umfjöllun: Þórssigur í kvöld gegn Hetti

Egilsstðabúar komu í Höllina í heimsókn í kvöld 22. febrúar og ljóst var fyrir leik að hér var uppgjör tveggja af bestu liðum 1.deildar. Hattarmenn með 22 stig í 3 – 5 sæti á meðan Þór var á toppnum með 28 stig og færi langleiðina með að tryggja sér sigur í deildinni með því að landa sigri í kvöld. Höttur aftur á móti berst fyrir því að komast í umspilið og allt umfram það er bónus. Höttur gerði harða atlögu að þessum tveimur stigum sem voru í boði en heimamenn reyndust ofjarlar þeirra er þeir lönduðu naumum sigri eftir sveiflukenndan leik þar sem Þór var með forystu nánast allan leikinn.

Þór tók á móti Hetti í Höllinni í úrslitaleik því að ef Þór nær að landa sigri í kvöld þá er einu risaljóninu rutt úr vegi á leiðinni að sigri í deildinni og öruggu sæti á meðal þeirra beztu á næsta ári. Höttur er aftur á móti í hörku baráttu um heimaleikjarétt í umspilinu og jafnvel sigri í deildinni ef þeir ná í sigur í kvöld. Þannig að það er mikið undir.

Liðin eru þannig skipuð til að byrja með:

Þór: Júlíus, Ingvi, Pálmi, Bjarni og Larry

Höttur: Eysteinn, Sigmar, Dino, Charles og André

Leikhluti 1.

Leikurinn hófst eins og vonir stóðu til um, hörkukörfubolti hjá báðum liðum, góðar varnir og flott sóknartilþrif. Liðin skiptust á að hafa forystu fyrst um sinn en þegar Þór setti tvo þrista niður í beit og náðu 4ra stiga forystu 16 – 12 þegar 3:45 voru eftir að ísinn væri brotinn og nú myndu þeir láta kné fylgja kviði og bæta í. Það gerðist þó ekki enda Hattarmenn engir nýgræðingar í boltanum og jöfnuðu þeir í 19 – 19 með þriggja stiga körfu og troðslu í kjölfarið. Hörkuleikur. Þórsarar svöruðu með þriggja stiga körfu frá Ingva. Bæði lið bættu við stigum undir lok leikhlutans en Þór þó fleiri.

Staðan eftir 1. leikhluta 27 – 25.

Leikhluti 2.

Annar leikhluti byrjaði frekar rólega í stigaskorun en alls ekki inni á vellinum þar sem kappið bar fegurðina yfirliði og voru bara skoruð 2 stig fyrstu 1 og hálfa mínútuna, þegar Höttur jafnaði. En þá tóku heimamenn við sér og skoruðu 11 – 2 á næstu 2 mínútum og komust í 38 – 29. Eins og áður hefur verið nefnt hafa Egilsstaðabúar spilað körfubolta áður og hafa ekki verið þekktir fyrir að leggja árar í bát þegar á móti hefur blásið. Þeir girtu sig í brók eftir þennan góða kafla heimamanna og minnkuðu muninn í 38 – 36 eða 0 – 7 kafli þeim í hag. Þegar áhorfendur vonuðu í annað sinn í leiknum eftir góðu forskoti hvarf það eins og dögg fyrir sólu. Heimamenn héldu þó haus þrátt fyrir þetta áhlaup gestanna og bættu við stigum þannig að þegar 1:30 voru eftir var staðan 42 – 41 Þór í vil. Tvö víti ofan í og svo stórkostleg hraðaupphlaupskarfa eftir sendingu frá Larry yfir endilangan völlinn á Damir sem skilaði boltanum auðveldlega í körfuna, ollu því að þegar 40 sek voru eftir af hálfleiknum leiddi Þór með 5 stigum 46 – 41. Höttur náði að laga stöðuna örlítið fyrir hálfleik.

Staðan í hálfleik: 46 – 43

Seinni hálfleikur:

Leikhluti 3.

Fyrstu sex stigin voru heimamanna svo enn einu sinni rifu þeir sig frá gestunum og náðu 9 stiga forystu 52 – 43 og svo 10 stigum 55 – 45 stuttu síðar. Höttur hætti ekki frekar en fyrri daginn og náði að svara þessu með áhlaupi upp á 5 – 11 og breyttu stöðunni í 57 – 54. Júlíus lenti illa eftir samstuð og fer af velli. Heimamenn létu það ekki slá sig út af laginu og bættu enn einni sveiflunni í leikinn með því að skora 12 – 3 á næstu tveimur mínútum og juku forskotið í 12 stig 69 – 57. Þetta er ekki búið. Hattarmenn hafa sýnt það að þeir geta komið af krafti til baka eftir svona kafla heimamanna en óneitanlega er þetta góð staða þegar svona langt er liðið á leikinn. Það var svo sem við manninn mælt þegar maður jinxar þetta stöðugt. Höttur setti næstu 8 stig og staðan þegar mínúta og sjö sekúndum betur er 69 – 65. Hörkuleikur enn eftir tæpar 30 mín. Nú er bara að skella Júlla kóngi inn á. Hann er enn að jafna sig og bíður þess að fá leyfi til að vera aftur með. Heimamenn stöðva hins vegar þessa atlögu gestanna og setja 5 stig á móti 1 í lok leikhlutans og fara með 8 stiga forskot inn í fjórða leikhluta.

Leikhluti 4.

Spennan er nánast áþreifanleg í upphafi síðasta leikhlutans. Ekki mikið skorað fyrstu mínúturnar því eftir fjögurra mínútna leik er búið að skora 9 stig, 6 – 3 fyrir Þór og staðan því orðin 80 – 69 þegar hér er komið við sögu. Það má búast við því að taugarnar eigi eftir að jafna sig og fleiri skot rati rétta leið á lokamínútum leiksins. Næstu þrjár mínútur skoraði hvort lið um 10 stig og staðan hélst nánast óbreytt, því þegar 2:38 eru eftir eru Þorpararnir enn með 10 stiga forystu 89 – 79 og útlitið nokkuð bjart. Það þarf bara að halda haus og leyfa gestunum frá Egilsstöðum ekki að hleypa leiknum upp í eitthvað rugl. Eftir leikhlé hjá Vidda Hattara númer 1 lögðu gestirnir í stað í lokaáhlaupið. Þeir settu pressu á heimaliðið og gerðu harða atlögu að sigrinum með því að minnka flótlega muninn í 6 stig með baráttu í vörn og sókn. Þórsarar sofnuðu á sama tíma og leyfðu gestunum að sækja á sig. Enn bættu gestirnir í og þegar mínúta var eftir var munurinn orðinn 3 stig. 92 – 89 og spennan óbærileg. Höttur vann boltann og náði að reyna tvö þriggja stiga skot en sem betur fer fyrir Þór þá geiguðu bæði og svo var brotið á Damir þegar hann náði frákasti þegar 14 sek voru eftir. Hann stóðst pressuna og setti bæði skotin niður og jók muninn í 5 stig. Hjartveikir Þórsarar sem voru búnir með allar bláu töflurnar önduðu léttar. Heimamenn settu eitt stig í viðbót án þess að Höttur svaraði fyrir sig og lokatölur því 95 – 89 fyrir Þór.
Margir heimamanna voru ansi góðir í kvöld og skorðuð þeir Larry, Damir og Júlíus mest. Þeir Larry og Pálmi hirtu flest fráköst sem töldu svo sannarlega þegar upp var staðið.

Tölfræði leiks

Viðtal við Lárus Jónsson og myndbrot úr leiknum

Fréttir
- Auglýsing -