spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Þór Þorlákshöfn tók ÍR í Hellinum

Umfjöllun: Þór Þorlákshöfn tók ÍR í Hellinum

 Þór frá Þorlákshöfn vann óvæntan sigur á ÍR í Hellinum fyrr í kvöld.  Sigur Þórs var sannfærandi en þeir voru mest 19 stigum yfir á tímabili í leiknum.  ÍR komst aðeins inní leikinn í fjórða leikhluta og tókst að gera hann spennandi en það var of lítið og of seint.  Stigahæstur í liði Þórs og algjör yfirburða maður í kvöld var Darren Govens með 40 stig, 6 stoðsendingar og 8 fráköst.  Næstir voru það Michael Ringgold og Guðmundur Jónsson með 18 stig hvor en Michael bætti einnig við 14 fráköstum.  Stigahæstur í liði ÍR var James Bartolotta með 30 stig en næstir voru Nemanja Sovic með 22 stig og 12 fráköst og Sveinbjörn Claessen með 13 stig.  

Gestirnir byrjuðu leikinn vel og leiddu fyrstu mínúturnar.  Þeir náðu 4 stiga forskoti og komust í 7-11 þangað til ÍR datt í gang þegar leikhlutinn var að verða hálfnaður.  ÍR skoraði þá 8 stig gegn 0 stigum gestana og komust í 15-11.  Þór hafði svo aftur jafnað leikinn í stöðunni 18-18 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum.  Heimamenn sigu svo aftur frammúr undir lok fyrsta leikhluta og höfðu 4 stiga forksot þegar honum lauk, 28-24.  

Þór Þ. byrjaði annan leiklhuta mun betur og höfðu skorað 14 stig gegn 2 stigum ÍR þegar Gunnar Sverrisson tók leikhlé fyrir ÍR eftir fjórar mínútur af leik, 30-38.  Græni drekinn lét vel í sér heyra og stemmingin var öll með gestunum.  Þegar leikhlutinn var hálfnaður var munurinn 9 stig, 33-42.  Það gekk lítið sem ekkert hjá ÍR að minnka þennan mun fyrr en undir lok leikhlutans þegar þeir settu niður hvern þristinn á fætur öðrum.  Þegar flautað var til hálfleiks var munurinn kominn niður í 5 stig, 50-55.  

Stigahæstur í hálfleik hjá ÍR var Nemanja Sovic með 16 stig en næstir voru Sveinbjörn Claessen með 9 stig og James Bartolotta með 8 stig.   Hjá Þór Þ. var Darren Govens stigahæstur með 19 stig en næstir voru Guðmundur Jónsson með 15 stig og Michael Ringgold með 10 stig.  

Velgengni gestana virtist vera farið að fara í taugarnar á ÍR en þegar tvær mínútur voru liðnar af þriðja leikhluta fékk Sveinbjörn Claessen dæmdan á sig sóknarvillu og tæknivillu í kjölfarið eftir langa samræðu við dómara leiksins.  Forskot Þórs fór þá uppí í 12 stig, 54-66.  Munurinn á liðunum var í og um 10 stig næstu mínúturnar.  Þegar fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum tók Gunnar Sverrisson leikhlé fyrir ÍR, 62-74.  Þór Þ. skoruðu næstu 7 stig leiksins við mikinn fögnuð Græna drekans.  Benedikt Guðmundsson tók svo leikhlé fyrir Þór stuttu seinna eftir þrist frá James Bartolotta, 67-81.  Það gekk hins vegar ekkert hjá ÍR að stoppa sóknarleik Þórs og því minnkaði munrinn aldrei. Grétar Ingi Erlendsson fékk sína fimmtu villu á lokamínútu þriðja leikhluta en hann hafði þá skorað 11 stig í leiknum. Darrin Govens var nánast óstöðvandi og var kominn með 33 stig eftir aðeins þrjá leikhluta. Þegar einn leikhluti var eftir af leiknum munaði 16 stigum á liðunum, 71-87.  

ÍR mætti hins vegar af krafti inn í fjórða leikhluta og þegar þrjár og hálf mínúta var liðinn af leikhlutanum var munurinn kominn niður í 8 stig, 84-92.  Benedikt Guðmundsson tók þá leikhlé fyrir Þór.  Stuðningsmenn beggja liða létu vel í sér heyra og stemmingin í húsinu minnti meira á úrslitakeppnina heldur en aðra umferð.  ÍR tókst að setja góða pressu á Darrin Govens sem nánast stöðvaði sóknarleik Þórs um tíma.  Þegar leikhlutinn var hálfnaður munaði 6 stigum á liðunum, 86-92.  Nemanja Sovic fékk sína fimmtu villu þegar þrjár og hálf mínúta var eftir af leiknum, hann hafði þá skorað 22 stig í leiknum.  Gunnar Sverrisson tók leikhlé þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum en þá munaði 7 stigum á liðunum, 88-95, og spennan farin að aukast til muna.  Marko Latinovic bætti tveimur stigum í það forskot með stórgrlæsilegri troðslu og kveikti allhressilega í stuðningsmönnum Þórs.  Þegar ein mínúta var eftir af leiknum munaði 7 stigum á liðunum, 90-97. ÍR reyndi hvað þeir gátu á lokamínútunum og sendu gestina oft á línuna en það var of seint í rassinn gripið.  Sigur Þórs var staðreynd, 92-101.
 
 
 
Umfjöllun: Gísli Ólafsson
Mynd : Tomasz Kolodziejski – Darren Govens fór hamförum gegn ÍR í kvöld
Fréttir
- Auglýsing -