spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Tap í fyrsta leik hjá Bárði og Stólunum

Umfjöllun: Tap í fyrsta leik hjá Bárði og Stólunum

 
Stjarnan mætti í kvöld í annað sinn á 10 dögum í Síkið á Sauðárkróki. Nú var leikið í Lengjubikarnum og heimamenn í Tindastóli mættu með nýjann “kall í brúnni”. Bárður Eyþórsson nýráðinn þjálfari Tindastóls var mættur til að stjórna sínum mönnum gegn toppliði deildarinnar.
Hann byrjaði með Miller, Þröst, Helga Frey, Hampton og Helga Rafn sem fyrstu fimm, en byrjunarlið starfsbróður hans Stjörnumegin var hefðbundið með þá Marvin, Jovan, Cothran, Shouse og Fannar sem fyrsta val.
 
Stólarnir byrjuðu af miklum krafti í kvöld, nokkuð sem þeir hafa ekki gert í fyrstu þremur deildarleikjum sínum hingað til. Fór þar fremstur Helgi Freyr sem splæsti í tvo þrista í fyrsta leikhluta. Stjarnan var þó aldrei langt undan og þegar staðan var 20 – 16 fyrir Tindastól skiptu gestirnir um gír og Jovan hrökk í gang. Síðustu eina og hálfa mínútuna skoruðu þeir 12 stig í röð og leiddu 20 – 28 eftir fyrsta fjórðung.
 
Stjarnan hélt svo þessum mun framan af öðrum leikhluta, en jók svo smátt og smátt við hann seinni hluta fjórðungsins. Þeir voru að hitta mjög vel og fór þar fremstur í flokki Jovan Zdravevski sem var kominn með 16 stig í hálfleik. Næstur honum kom Keith Cothran með 14. Hjá Tindastóli var Helgi Freyr með 12 stig og Miller 9. Staðan í hálfleik 37 – 53.
 
Stjarnan skoraði fyrstu körfu síðari hálfleik, en í kjölfarið fylgdu 10 stig frá heimamönnum og eftir þrist frá Þresti Leó var staðan 52 – 59 og Teitur Örlygsson tók leikhlé til að slá á þetta áhlaup. Það tókst því það sem eftir var leikhlutans munaði þetta 7 – 9 stigum. Staðan 61 – 70 eftir þrjá leikhluta.
 
Hafi Stólarnir gert sér vonir um að geta strítt Stjörnunni í restina hvarf það fljótlega í fjórða fjórðungi. Lítið gekk í sókninni á meðan flest skot gestanna rötuðu rétta leið og ef þau gerðu það ekki þá náðu þeir frákastinu. Jovan og Justin settu nokkrar körfur í röð og þegar rúmar sex mínútur voru eftir var staðan orðin 62 – 84 og ljóst að Stjarnan færi aftur með sigur úr Síkinu. Næstu mínútur náðu Stólarnir aðeins að laga stöðuna, en síðan hættu bæði lið að hitta körfuna og síðustu þrjár mínúturnar var ekkert skorað. Lokastaðan 69 – 87.
 
Helgi Freyr Margeirsson var stigahæstur Tindastóls með 17 stig, en næstir honum komu Miller með 15 og Þröstur Leó með 13. Hjá Stjörnunni bar Jovan Zdravevski af með 25 stig og síðan kom Keith Cothran með 19. Þá áttu Shouse og Fannar ágætis leik.
 
Stólarnir mættu loksins til leiks í kvöld og sýndu á köflum ágætis leik. Meiri barátta og vilji var í liðinu en undanfarið. Stjarnan var samt einfaldlega of sterk fyrir þá og þegar Jovan spilar eins og hann spilaði í kvöld þá er erfitt að stoppa þá.
 
Næsti leikur Tindastóls verður ekki auðveldari þegar hitt taplausa liðið í deildinni verður sótt heim í Grindavík næsta föstudag.
 
Dómarar voru Sigmundur Már Herbertsson, Eggert Þór Aðalsteinsson og Einar Þór Skarphéðinsson.
 
 
Texti: JS
Myndir: Hjalti Árnason
Fréttir
- Auglýsing -