spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Stjarnan sótti tvö stig á krókinn

Umfjöllun: Stjarnan sótti tvö stig á krókinn

 Stólarnir töpuðu sínum fyrsta leik í vetur, svona nokkuð örugglega þegar Stjarnan úr partýbænum Garðabæ kom í heimsókn í kvöld.
 Mikil eftirvænting var á Króknum fyrir leiknum í kvöld enda margt til að vera spenntur fyrir, nýjir útlendingar, nýtt gólf, nýjar línur, nokkrar nýjar reglur og ný stuðningsmannasveit sem var búin að boða sig á leikinn.

Leikinn byrjuðu fyrir Stólana Helga Freyr, Helgi Rafn, Þröstur, Hampton og í stöðu leikstjórnanda var Loftur Eiríksson úr Hegranesi að spila sinn fyrsta meistaraflokksleik. Loftur er ofboðslega athyglisverður leikmaður sem hefur í sínu vopnabúri mikinn hraða, sprengikraft og skemmtilega líkamstjórn og verður spennandi að fylgjast með stráknum í vetur. Hjá Stjörnunni var Jovan ekki með en Keith Cothran nýr leikmaður Stjörnunnar var mættur í byrjunarliðið.

Fyrsti leikhluti byrjaði nokkuð jafnt, sérstaklega var Hampton sterkur fyrir Stólanna og sýndi nokkur flott tilfþrif. Hampton er með stóran faðm og langa leggi og leikmenn andstæðingana verða alveg varir við kvikindið þegar þeir nálgast teiginn.

Þegar leið á leikhlutann náðu Stjörnumenn hins vegar yfirhöndinni, fremstur í flokki Justin Shouse, nema hver, en Stjarnan spilar svokallaðan leikstjórnanda sóknarleik þar sem boltinn er meira og minna í höndunum á Shouse allar sóknir, allan leikinn, allan tímann og  Shouse ákveður síðan nokkurn veginn hver tekur skotið í Stjörnuliðinu í hverri sókn fyrir sig. Fyrsti leikhluti endaði 19-27 og Stjarnan skrefinu á undan.

Moe Miller mætti til leiks í lok fyrsta leikhluta fyrir Stólana og tók við leikstjórnanda stöðunni af Lofti en Moe kom ekki í Skagafjörðinn fyrr en á leikdag og eyddi deginum í það að læra kerfin og nöfnin á strákunum í liðinu. Moe byrjaði líka rólega, ætlaði sér greinilega að komast hægt og bítandi í hlutina, velta fyrir sér hvernig landið liggur og það allt. Þessi rólyndisháttur í manninum blekkti Stjörnumenn svolítið og gáfu þeir honum nokkur frí skot sem strákurinn nýtti sér og setti þrjá þrista í öðrum leikhlutanum. Þessa ágæta byrjun hjá Moe ásamt nokkrum flottum stigum frá Svavari stigamaskínu og Þresti bróðir Gauja héldu Tindastólsstrákunum í leiknum og það var ennþá 9 stiga munur í hálfleik.

Ef það glitti í stigamaskínuna Svavar Birgisson í 2. leikhluta þá var hún mætt af fullum krafti í 3. leikhluta. Svavar raðaði niður 10 stigum á tveimur fyrstu mínútum seinni hálfleiksins og kveikti aldeilis í húsinu. Stemninginn fór í lið með Stólunum og Stjörnumenn máttu hafa sig alla við að standast áhlaupið. Moe hætti einnig að velta fyrir sér landinu og skellti smá blóði á tennurnar og fór að sækja á körfuna.

Stjörnumenn eru hins vegar engir aukvissar í körfubolta. Marvin, Fannar Helga og Guðjón Lárus eru stórir strákar og voru að hitta ákaflega vel í kvöld. Vítanýtingin var síðan grunsamlega ótrúleg góð hjá Stjörnumönnum allt kvöldið og það var eins og Teitur þjálfari hafi tekist að dáleiða leikmenn sína í að halda að þeir væru Larry Bird í hvert skipti sem þeir stigu á vítalínuna.

Þannig að þrátt fyrir mjög góðan leikhluta hjá Stólunum þá voru Stjörnumenn enn með yfirhöndina í lok þriðja leikhluta en þó ekki nema bara með sex stigum og leikurinn galopinn. Grundvallaratriði fyrir Stólana var að hleypa Stjörnumönnum ekki of langt fram úr sér og ná einu góðu stemningsáhlaupi i viðbót.

En vendipunktur eða kannski meira vendi mínúta leiksins var fyrsta mínútan í fjórða leikhluta. Atburðarrásin hófst þannig að Marvin gegnumbrotaði að körfunni og þegar hann var að leggja boltann í netið kinnhestaði Þröstur hann nokkuð ágætlega. Líklega óviljaverk hjá Þresti, eða kannski smá leifar af keflvíska körfuboltauppeldinu hjá stráknum en dómarar leiksins höfðu ekki húmor fyrir varnarleik Þrastar og skelltu á hann óþjálustu villunni í bókinni eða óíþróttamannslegri villu. Marvin (eða kannski Larry Bird) skellti sér á línuna og setti að sjálfsögðu bæði ofan í. Stjarnan fékk aftur boltann, klúðruðu sniðskoti en hver annar en Marvin var mættur til að tippsa boltanum ofan í.  Fjögurra stiga sókn og Stólarnir riðuðu til falls. Shouse tók svo naglann með sér í næstu sókn og hamraði honum í kistuna þegar hann lagði niður eitt stykki þrist frá undralandi.

Stemninginn skipti algjörlega um lið og næstu 6 mínútur voru einn stór harmleikur fyrir Stólanna. Stjörnumenn röðuðu niður stigunum og sóknarleikurinn var hreinlega vandræðalegur hjá heimamönnum. Stólarnir tóku loks leikhlé þegar 4 mínútur voru eftir og eitthvað um 20 stiga munur. Restin af leiknum fór í rusl mínútur þar sem Stólarnir löguðu aðeins stöðunna en það voru Stjörnumenn sem fögnuðu sanngjörnum sigri 91-105.

Tindastólsstrákarnir eiga mikið inni, sérstaklega í varnarleiknum en þótt að Shouse sé fáránlega góður körfuboltamaður og vítanýting Stjörnumanna hafi ekki verið úr þessum heimi þá voru Stjörnumenn að fá mikið af auðveldum sniðskotum sem hefði mátt koma í veg fyrir með réttum varnarfærslum.

Hjá Stólunum var Moe einna bestur ásamt Svavari stigamaskínu sem einhverja hluti vegna spilaði bara rúmar 13 mínútur í leiknum en náði að setja 20 stig. Þá sýndi Þröstur fín tilþrif og kann augljóslega ýmislegt fyrir sér og Helgi Rafn náði að setja niður nokkur stig í ruslamínútunum. Trey Hampton byrjaði leikinn mjög vel en síðan dróg mikið úr honum, sérstaklega sóknarlega þegar leið á. Trey er ágætis leikmaður en ofboðslega örvhentur og þá er vítatæknin hjá manninum mjög sérstök án þess að minnast á það eitthvað meira. Þá olli það nokkrum vonbrigðum að sönglagasveitin Grettir lét ekki sjá sig en það er vonandi að þeir hafi bara verið að spara söngraddirnar í kvöld og mæti í næst leik, vel tónaðir.Hjá Stjörnunni áttu margir virkilega góðan leik. Marvin, Cothran og Shouse voru með sín 20 stigin og þá átti Guðjón Lárusar feykilega góðan leik með 18 stig. Maður leiksins var síðan Fannar Helga. Það er kannski full mikið að segja að Fannar hafi átt leik lífs síns afþví að Fannar er fínn leikmaður og hefur örugglega oft spilað mjög vel en þessi leikur er örugglega ofarlega á þeim lista. Fannar hitti mjög vel, var að setja þrista á góðum augnablikum og 12 víti ofan í af 12 reyndum á útivelli segir allt sem segja þarf en Stjarnan hitti úr 26 vítum af 29, 90% nýting með Stólarnir voru með 21 af 32 sem gerir eitthvað um 66%.

Erfiður fyrsti leikur hjá Stólunum og næsti leikur verður ekkert gefins heldur en strákarnir fara á sunnudaginn í Keflavík og reyna að hirða stigin sem eru í boði þar. Ýmislegt sem þarf að laga en það er mikið sem býr í liðinu og liðið gæti hreinlega dottið í gang hvenær sem er, svona eins og Katla, en annað en með hana Kötlu þá verður virkilega gaman að vera nálægt þegar Stólarnir fara í gang og því hvetjum við alla til að kíkja í Keflavík og styðja strákana.

Myndasafn má finna hér 

Texti: Björn Ingi Óskarsson.

Mynd: Hjalti Árnason

Fréttir
- Auglýsing -