spot_img
HomeBikarkeppniUmfjöllun: Stjarnan mun sterkari á heimavelli

Umfjöllun: Stjarnan mun sterkari á heimavelli

Átta liða úrslit í bikarkeppninni fóru fram í dag og byrjuðu á leik Stjörnunnar og Skallagríms, þar sem Stjarnan vann öruggan sigur. Fyrir leik hefði maður haldið að baráttuleikur yrði í boði og allt yrði skilið eftir á gólfinu en svo var ekki, að hálfu Skallagríms allavega. Stjörnukonur mættu tilbúnar með hnefann á lofti frá fyrstu mínútu og slógu Skallagrím í rot. Skallagrímur setti fyrstu stig leiksins, Ines Kerin setti þrist eftir sendingu frá Sigrúnu Sjöfn. Bríet svarði því með annarri þriggja stiga körfu en Ines kom Skallagrím aftur yfir með körfu og vítaskoti að auki. En það var í einu skiptin sem Skallagrímur var yfir í leiknum. Þegar þrjár og hálf mínúta voru liðnar af leiknum kom Stjarnan sér yfir og þá var ekki aftur snúið.

Stjarnan var miklu sterkari á öllum sviðum á vellinum, hvort sem það var í vörn eða sókn. Skallagrímskonur áttu engar lausnir í vörninni hvað þá svör gegn sterkri vörn Stjörnunnar. Skallagrímur reyndi um tíma að skipta yfir í svæðisvörn og virkaði það ágætlega til þess að byrja með en frábær sóknarleikur Stjörnunnar vann vel gegn allri vörn sem andstæðingurinn spilaði. Þrátt fyrir að hafa komið Stjörnunni örlítið á óvart með svæðisvörninni gekk ekkert í sókn Skallagríms, ef þær náðu að stoppa í vörninni gekk þeim samt sem áður illa að koma boltanum ofan í hringinn á hinum enda vallarins.

Í öðrum leikhluta skoraði Skallagrímur sín fyrstu stig á fjórðu mínútu eftir óíþróttamannslega villu, bæði vítin rötuðu ofan í körfuna og fengu þær boltan aftur. Sókn Skallagríms endar á körfu og villu að auki, skoruðu þær því 5 stig á einungis 5 sekúndum. Skallagrímur stelur síðan aftur boltanum og klikkar á báðum færum sínum. Þá rífur Ragna Margrét til sín varnarfrákastið, en kastar síðan boltanum í hendurnar á Shequila sem skorar sjöunda stig Skallagríms á innan við mínútu. Allt leit út fyrir það að Skallagrímur myndi ranka við sér og rífa sig í gang, en svo var ekki. Þær skoruðu aðeins sex stig næstu sex mínúturnar og staðan því 37:29 í hálfleik.

Það verður að segjast að Skallagrímur hafi spilað langt frá sínum besta leik í dag og líklegast er það Stjörnunni að kenna. Stjarnan spilaði nánast óaðfinnanlega vörn mest allan tímann, en hefðu á köflum geta spilað betri sóknarleik. Þriðji leikhluti var slakasti leikhluti leiksins, enda einkenndist hann af slæmum ákvörðunum og mistökum beggja liða. Þrátt fyrir lélegan leikhluta náði Stjarnan að auka forskot sitt í 17 stig og þá voru einungis 10 mínútur eftir þar til að Stjarnan myndi trygga sér farmiða í Höllina í fyrsta sinn.

Í fjórða leikhluta hélt Stjarnan áfram að auka forskot sitt og héldu Skallagrím í 10 stigum annan leikhlutann í röð. Skallagrímskonur voru andlausar og lítil gleði ríkti milli leikmanna. Undir lok leikhlutans skiptu bæði lið óreyndari leikmönnum inn á til þess að klára leikinn. Ef litið er á tölfræði þætti má sjá að Stjarnan er að hitta mun betur en Skallagrímur, ásamt því að rífa fleiri fráköst og senda mun fleiri stoðsendingar. Það sést helst þar hversu lélega Skallagrímur spilaði.

Hetja leiksins var vörn Stjörnunnar, þær hreyfðu sig vel saman, önnur og þriðja hjálp voru alltaf til staðar og má þakka góðum talanda í vörninni fyrir það. Því er ljóst að góður varnarleikur er ástæða þess að Stjarnan sé í fyrsta skipti á leiðinni í undanúrslit í bikarnum. Hreint út sagt frábært fyrir þær og klúbbinn að fá að upplifa það.

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Ólafur Þór)

Viðtöl:

Umfjöllun: Regína Ösp Guðmundsdóttir

Fréttir
- Auglýsing -