spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Steven Gerard stýrði Keflavík eins og herforingi

Umfjöllun: Steven Gerard stýrði Keflavík eins og herforingi

 
Sigur Keflavíkur var aldrei í hættu í kvöld þegar þeir tóku á móti Val í Lengjubikarkeppninni og sigruðu 72-54. Keflavík spilaði skemmtilegan bolta í kvöld þar sem Steven Gerard stjórnaði leik þeirra eins og herforingi þar sem hann var með 13 stoðsendingar og margar hverjar þeirra af bestu gerð. Charles Parker var með 21 stig og 8 fráköst fyrir Keflavík og Jarryd Cole með 19 stig og 8 fráköst. Hjá Val var Birgir Björn Pétursson stigahæstur með 12 stig og 12 fráköst.
Leikurinn byrjaði heldur rólega í kvöld og áttu bæði lið erfitt með að setja boltann í körfuna fyrstu mínúturnar. En þegar leið á fyrsta leikhlutann fór aðeins að hitna í mönnum og þá ekki aðeins í skotunum því að Igor Tratnik fékk tæknivillu fyrir að vera ósammála dómaranum. En staðan í lok leikhlutans var 23-11. Magnús Þór Gunnarsson var kominn með jafn mörg stig og Valsliðið í heild eða 11 stig og þar af voru þrír þristar. En hjá Val var Darnell Hugee kominn með 7 stig.
 
Hraði leiksins var farinn að aukast í öðrum leikhluta og var það ekki að fara vel í Hugee sem að fékk villu og tæknivillu að auki sem voru hans þriðja og fjórða villa, þegar búið var aðeins þrjár mínútur af leikhlutanum. Keflavík var að spila mjög vel saman og voru að sundurspila Valsmenn. Gerard var að stýra sínum mönnum vel og var að gefa stoðsendingar hvað eftir annað í öllum regnbogans litum. Í hálfleik var staðan 42-26 fyrir Keflavík og voru aðeins þrír leikmenn Keflavíkur búnir að skora í fyrstu tveimur leikhlutunum. Parker og Cole voru báðir komnir með 15 stig og Maggi var með 12 stig. Hjá Val var Darnell kominn með 9 stig og Birgir með 8.
 
Þriðji leikhlutinn byrjaði eins og sá annar endaði. Keflavík hélt áfram að keyra á Valsmenn og áttu þeir erfitt uppdráttar. Eftir rúmar fjórar mínútur misstu þeir sinn besta mann til þessa, Hugee, út af með fimm villur. Þegar fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum þá fannst Ágústi Björgvinssyni að hann þyrfti að ræða við sína menn enda aðeins búnir að skora fjögur stig í leikhlutanum. Leikhlutinn endaði 61-36, þar sem ekkert var að ganga í sóknarleik Valsmanna. Parker var kominn með 21 stig og Cole með 19 stig. Hjá Val var Darnell með 11 stig og Hamid með 9 stig.
 
Valur byrjaði á 0-8 áhlaupi í byrjun fjórða leikhluta og ætluðu ekki að gefast upp. En þeir reyndu of seint og sigur Keflavíkur var aldrei í hættu. Byrjunarlið Keflavíkur sat á bekknum nær allan leikhlutann og fengu ungu drengir Keflavíkur að spreyta sig. Það sama gerði Valur svo í lok leiks og var nokkuð gaman að fá að fylgjast aðeins með næstu kynslóðinni í körfuboltanum. Hjá Val var Benedikt Blöndal að sýna flotta takta og er þar flott efni á ferð. Leikurinn endaði svo 72-54 í skemmtilegum leik þó svo að spenna hafi aldrei átt sér stað í leiknum.
 
Stig Keflavíkur: Charles Parker 21 stig (8 fráköst), Jarryd Cole 19 stig (8 fráköst), Magnús Þór Gunnarsson 14 stig, Almar Guðbrandsson 6 stig (7 fráköst), Andri Daníelsson 4 stig, Valur Orri Valsson 4 stig, Gunnar Stefánsson 3 stig, Steven Gerard 1 stig (13 fráköst), Hafliði Már Brynjarsson 0 stig, Ragnar Albertsson 0 stig, Sigurður Gunnarsson 0 stig og Andri Skúlason 0 stig.
 
Stig Vals: Birgir Pétursson 12 stig (12 fráköst), Darnell Hugee 11 stig (6 fráköst), Benedikt Blöndal 10 stig, Hamid Dicko 9 stig, Alexander Dungal 5 stig (9 fráköst), Ragnar Gylfason 4 stig, Sigurður Sigurgeirsson 2 stig, Kristinn Ólafsson 1 stig, Curry Collins 0 stig (5 stoðsendingar), Austin Bracey 0 stig, Bergur Ástráðsson 0 stig og Igor Tratnik 0 stig (8 fráköst).
 
Mynd/ Eyþór Sæm – www.vf.is  
Umfjöllun/ [email protected]
Fréttir
- Auglýsing -