spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Snægrímur í úrslit

Umfjöllun: Snægrímur í úrslit

Það var samkurlað lið Snæfells/Skallgríms sem við skulum kalla hérna Snægrím, sem bar sigurorð á Tindastóli í undanúrslitum unglingaflokks karla í Stykkishólmi. Leikurinn endaði 100-92 og var spennandi frá upphafi til enda.
 
 
Tindastólsmenn með Ingva Rafn fremstan leiddu mestann hluta leiksins en Ingvi skoraði 46 stig fyrir gestina í leiknum sem dugði því miður ekki eitt og sér til sigurs. Tindastóll leiddu í upphafi 4-8 en Snægrímur jafnaði 8-8 og bæði lið þurftu að taka til í varnarleiknum og kuldi var í leikmönnum. Skagfirðingar tóku af skarið í lok fyrsta hluta þegar jafnræði hafði verið á með liðunum. Hannes Másson smellti niður þrist og lagaði stöðuna 16-20 en Atli Aðalsteinsson hjá Snægrím svaraði að bragði 19-20. Staðan var 21-26 fyrir Tindastól eftir fyrsta hluta.
 
Sigurður Páll sýndi að hann er fædd skytta og sallaði niður þremur þristum í öðrum hluta og var kominn með alls 12 stig. Leikar höfðu verið 32-32 eftir að Snjólfur Björnsson jafnaði af vítalínunni og Snægrímur komust yfir 36-34. Sigurður breytti því strax í 36-40 og Tindastóll leiddi í hálfleik 37-48. Ekki voru gestirnir að vinna á fráköstum því Snægrímsmenn höfðu tekið 31 slíkt gegn 12, en heimamenn voru að tapa á töpuðum boltum og slæmum ákvörðunum. Stefán Karel var kominn með 14 stig og 11 fráköst og tvennan komin í hús og Þorbergur Helgi var með 10 stig fyrir Snægrím. Ingvi Rafn var sér á parti með 19 stig en Sigurður Páll setti afar mikilvægar körfur og var kominn með 12 stig en Snægrímsmenn voru arfaslakir í að stoppa opin langskot gestanna sem þeir settu niður.
 
Fátt virtist benda til annars en að Tindastóll héldi vellli og voru að leiða leikinn með plús mínus tíu stigum og Pétur Rúnar var að stjórna þessu ágætlega hjá þeim. Þegar staðan var 48-58 fóru hlutirnir að gerast hjá Snægrími og Þorbergur setti niður þrist. Jóhann Kristófer Sævarsson vildi vera með í skotgleðinni og kom þeim þremur niður í þriðja hluta og Snægrímsmenn söxuðu vel á. 68-72 var staðan fyrir lokahlutann og heimamenn að styrkja varnarleikinn á meðan Tindastóll höfðu ekki breiddina í sóknarleik sínum.
 
Snjólfur fékk dæmda á sig tæknivillu fyrir sýnileg mótmæli eftir að hafa fengið aðvörun og slíkt kom uppá á hinum enda vallarins einnig og það kom Snægrími yfir 77-75 í leiknum og staðan var 83-75 um miðjan fjórða hluta með 13-0 áhlaupi. Þá forystu létu þeir ekki af hendi þrátt fyrir áhlaup gestana og mikið puð allra á vellinum í leiknum. Þegar 1.30 voru eftir var Snægrímur með yfirhöndina 90-86 og Tindastólsmenn fóru illa að ráði sínu á meðan heimamenn refsuðu og þá helst Stefán Karel í teignum. Þegar 30 sekúndur lifðu leiks var staðan 95-92 og Snægrímur setti niður stigin á vítalínunni og sigruðu 100-92. Snægrímsmenn eru komnir í úrslitaleikinn í unglingaflokki karla þrátt fyrir að menn hefðu ekki spáð fyrir um slíkt í upphafi móts, en þeir hafa lagt núna sterk lið Tindastóls og Stjörnunnar og mæta Keflavík í úrslitaleiknum.
 
Snægrímur: Stefán Karel 29/20 frák. Snjólfur Björnsson 16/8 frák/8 stoðs. Þorbergur Helgi 16. Davíð Guðmundsson 13/7 frák. Davíð Ásgeirsson 12/5 frák/ 4 stoðs. Jóhann Kristófer 9/5 stoðs. Atli Aðalsteinsson 5/6 frák. Hjalti Ásberg 0. Viktor Marinó 0. Guðbjartur Máni 0. Kristján Örn 0. Óttar Sigurðsson 0.
 
Tindastóll: Ingvi Rafn 46/7 frák/4 stolnir. Pétur Rúnar 16/5 frák/8 stoð/4 stolnir. Sigurður Páll 14. Friðrik Þór 6. Viðar Ágústsson 4. Hannes Ingi 3. Þröstur Kárason 1. Pálmi Þórsson 0. Hlynur Freyr 0. Friðrik Hrafn 0. Árni Freyr 0.
 
Símon B. Hjaltalín.
  
Fréttir
- Auglýsing -