spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Snæfell marði sigur á Ásvöllum

Umfjöllun: Snæfell marði sigur á Ásvöllum

Haukar og Snæfell mættust á Ásvöllum í leik sem var fjörugur, jafn og spennandi allt fram á loka mínútur leiksins. Fyrirfram var Snæfellsliðið talið sterkar og sigurstranglegra en Haukar sýndu það að þeir munu koma til með að veita harða mótspyrnu í vetur.
Haukar stýrðu leiknum alveg frá fyrstu mínútu. Þó svo að liðin hafi skipst á að leiða með örfáum stigum allan fyrrihálfleikinn þá voru heimamenn ávallt skrefinu á undan og virtust eiga svör við öllum gerðum Snæfells.
 
Staðan í hálfleik var jöfn 43-43 en Haukar skoruðu jöfnunarkörfuna um leið og leiktíminn rann út þegar að Jovonni Shuler náði að blaka misheppnaðri tilraun Sveins Ómars Sveinssonar til að jafna leikinn. Erlendu leikmenn Snæfells þeir Brandon Cotton og Quincy Hankins-Cole voru mjög sprækir og áttu Haukamenn í erfiðleikum með þann síðarnefnda sem að tók mikið pláss í teignum og var drjúgur í fráköstunum.
 
Seinni hálfleikur var í raun mun betur spilaður en sá fyrri og virtust liðin svona vera búin að hrista af sér mesta haustslenið þó svo að það hafi ekki verið nein gífurleg merki um það í fyrri hálfleiknum.
 
Haukar náðu að keyra muninn upp í sex stig en það var mesti munur sem hafði verið á liðunum fram til þessa. Snæfellingar svöruðu en þá komu Haukar með gott áhlaup og keyrðu muninn upp í níu stig. Þegar hér er komið við sögu þá er fjórði leikhluti hálfnaður og Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, tók leikhlé. Snæfell skipti yfir í svæðisvörn og við það riðlaðist leikur Hauka. Það bar þess þó ekki merki fyrst um sinn því Haukar skoruðu úr hraðaupphlaupi og settu svo þriggja stiga körfu strax í kjölfarið en síðan ekki söguna meir.
 
Snæfellingar minnkuðu muninn jafnt og þétt og komust fjórum stigum yfir. Haukar tóku þá leikhlé til að kokka upp einhverja snilld en hún sýndi sig ekki þegar á völlinn var komið. Snæfellingar náðu boltanum eftir misheppnað skot frá Haukum og juku muninn í sex stig. Haukar tóku þá annað leikhlé og náðu að skora úr þriggja stiga skoti og minnka muninn í þrjú. Það var strax brotið á Pálma Frey sem að fékk tvö vítaskot og nýtti annað þeirra. Haukar reyndu hvað þeir gátu til að skora en allt kom fyrir ekki og Snæfell vann fjögra stiga sigur, 89-93.
 
Hjá Snæfelli var Brandon Cotton stigahæstur með 33 stig en hann var spilaði virkilega vel eins og landi hans Quincy Hankins-Cole sem að skoraði 17 stig og tók 15 fráköst.
 
Hjá Haukum var Jovonni Shuler stigahæstur með 20 stig og 7 fráköst og Örn Sigurðarson gerði 16 stig og tók 6 fráköst.
 
 
 

Umfjöllun: [email protected]

Mynd: Hafþór Ingi Gunnarsson er aftur kominn í rautt fyrir Snæfellinga – [email protected]
 
Fréttir
- Auglýsing -