spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Silfurdrengirnir unnu Íslandsmeistarana

Umfjöllun: Silfurdrengirnir unnu Íslandsmeistarana

Þórsarar lögðu Grindvíkinga, 92-83, í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn í kvöld. Þetta var uppgjör liðanna tveggja sem börðust um Íslandsmeistaratitillinn á síðustu leiktíð og leikurinn var nokkuð vel leikinn og afbragðsskemmtun á köflum. Þórsarar byrjuðu mun betur, leiddu leikinn með um 10 stigum lengst af en misstu svo ögn flugið í fjórða leikhluta og hleyptu Grindvíkingum óþægilega mikið inn í leikinn, en aldrei fram úr sér. Þeir grænu og hvítu réttu svo úr kútnum undir lokin og tryggðu góðan sigur.
 
Þórsarar komu mjög ákveðnir til leiks, vörn þeirra var þétt og þeir félagar Rob Diggs og Benjamin Smith fóru mikinn í stigaskorun. Á hinum endanum gekk voðalega fátt upp í sóknarleiknum í upphafi leiks og Þórsarar leiddu 20-12 eftir fyrsta leikhluta.
 
Í öðrum leikhluta áttu Grindvíkingar ágætis kafla og minnkuðu muninn í 34-31 en þá rykktu Þórsarar aftur í burtu og Emil Karel Einarsson skoraði góða þriggja stiga körfu rétt áður en fyrri hálfleikurinn rann út. Þórsarar fóru því með átta stiga forystu inn í hálfleikinn og gátu vel við unað.
 
Síðari hálfleikurinn byrjaði síðan með 5 tuddastigum frá Rob Diggs. Fyrst stal hann boltanum af Grindvíkingum, brunaði aleinn upp völlinn og gerði heiðarlega tilraun til þess að rífa körfuna úr loftinu með tröllatroðslu. Helmingurinn af áhorfendum var þó enn í pizzuröðinni frammi í anddyri og missti því af þessum tilþrifum hjá Diggs. Hann var ekki hættur, því strax í næstu sókn keyrði hann á körfuna, skoraði með stæl og fékk villuna að auki.
 
Á þessum tímapunkti bjóst undirritaður við því að Þórsarar myndu keyra yfir Grindvíkinga en þá vaknaði einhver barátta hjá Íslandsmeisturunum og þeir héldu muninum í kringum 10 stigin með Aaron Broussard í algjöru aðalhlutverki. Eftir þriðja leikhluta var staðan 71-62 og allt opið.
 
Davíð Ingi Bustion byrjaði fjórða leikhlutann hrikalega vel og setti tvö þrista í smettið á heimamönnum sem voru byrjaðir að flækja hlutina of mikið í sókninni rétt eins og á móti Njarðvík í fyrstu umferð. Svo héldu Grindvíkingar bara áfram að nálgast þar til að þeir jöfnuðu leikinn í 74-74 með tveimur vítaskotum. Þá fór nú um marga Þórsara í stúkunni, en áhyggjum þeirra var aflétt mjög snögglega, Þórsarar sigldu fram úr aftur og Guðmundur Jónsson setti risastóran þrist til að auka muninn í 6 stig aftur þegar 2:20 voru á klukkunni.
 
Samuel Zeglinski, sem var búinn að vera algjörlega á klaka allan leikinn ætlaði þá að taka það að sér að snúa leiknum Grindvíkingum í hag en hann var að taka erfið skot og Rob Diggs reif þau svo af hringnum fyrir Þórsara. Zeglinski hitti 1/8 fyrir utan þriggja stiga línuna í kvöld og skoraði einungis 9 stig. Hann hefði þurft að láta boltann ganga meira undir lokin og reyna að fá einhverjar auðveldar körfur í stað þess að eyða öllum tímanum í að troða þristum á Þórsarana. Þórsarar kláruðu svo sínar sóknir undir lokin og sigldu sanngjörnum sigri í hús.
 
Robert Diggs var með tröllatvennu í liði Þórs í kvöld, 25 stig og 17 fráköst auk þriggja varinna skota og er greinilega að lagast betur að liðinu og fá smá blóð á tennurnar í vörninni. Benjamin Smith var hrikalega seigur varnarlega og setti auk þess 26 stig. Margur er knár þótt hann sér smár. Guðmundur Jónsson steig einnig vel upp í kvöld og stóð sig vel bæði í vörn og sókn.
 
Í liði gestanna frá Grindavík var það Aaron Broussard sem bar sóknarleikinn uppi, oft með frábæru einstaklingsframtaki. 27 stig frá honum. Jóhann Árni Ólafsson var einnig öflugur í kvöld og Sigurður Þorsteinsson barðist við Diggs allan leikinn og náði að setja 13 stig.
 
Stigaskor Þórs: Benjamin Curtis Smith 26/9 stoðs., Robert Diggs 25/17 fráköst/3 varin, Guðmundur Jónsson 15/6 fráköst, Darri Hilmarsson 8, Grétar Ingi Erlendsson 8/7 fráköst, Darrell Flake 7/9 fráköst/5 stoðs., Emil Karel Einarsson 3, Baldur Þór Ragnarsson.
 
Stigaskor Grindavíkur: Aaron Broussard 27, Jóhann Árni Ólafsson 17/8 fráköst, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 13/8 fráköst, Samuel Zeglinski 9 /8 stoðs., Björn Steinar Brynjólfsson 7/6 fráköst, Davíð Ingi Bustion 6, Ómar Örn Sævarsson 4/9 fráköst, Jón Axel Guðmundsson.
 
Mynd/ Davíð Þór
 
Umfjöllun/ Arnar Þór Ingólfsson
Fréttir
- Auglýsing -