spot_img
HomeFréttirUmfjöllun og viðtöl: Ótrúlegur Valssigur á Haukum

Umfjöllun og viðtöl: Ótrúlegur Valssigur á Haukum

Í kvöld hófst úrslitakeppni í Subwaydeild kvenna. Haukar tóku á móti Valskonum í Ólafssal. Haukar hafa haft betur í vetur á móti Val. Unnið þær tvisvar í deild og slógu þær svo út í bikarnum. En nú er nýtt mót og liðin í öðru og þriðja sæti deildarinnar tókust á.  Geggjuð stemming fyrir leik, gæsahúðakynning á leikmönnum Og sjálf Helena Sverris mætt á parketið. Leikurinn endaði með mögnuðum Valssigri eftir framlengingu 71-73.

Það var ekki að sjá að það væri einhver úrslitakeppniskvíði í gangi, bæði lið spiluðu af öryggi og það var nánast jafn allan fyrsta leikhluta. Haukarnir voru að frákasta ívið betur og það var aðeins betra flæði í sóknarleiknum. En þrátt fyrir að vera ögn betri þá var jafnt að lokum fyrsta leikhluta 20-20.

Í byrjun annars leikhluta kom sjálf Geitin, Helena Sverrisdóttir inn á við mikin fögnuð áhorfenda. Virkilega gaman að sjá hana aftur á vellinum. Haukakonur byrjuðu að krafti og voru komnar á augabragði niu stigum yfir þegar Óli tók leikhlé. Það skilaði littlu, Haukarnir virtust alltaf finna einhverja lausa undir körfunni ef ekki þá bara henti Robinson djúpum þristi. Haukakonur léku á alls oddi á meðan Valskonur gátu ekki skorað til að bjarga lífi sínu. Haukar unnu þennan leikhluta 24-7, staðan í hálfleik 44-27.

Þriðji leikhlutinn hófst með látum. Valskonur ætluðu ekki að gefa neinar ódýrar körfur eftir útsöluna í öðrum leikhluta. Eini gallinn við þetta plan þeirra var að Haukakonur voru einmitt að gera það hinum megin.. Sara Líf og Simone komu með smá bardagaanda í Valsliðið. En Elísabet Ýr var ekkert á því að gefa Valskonum  neitt ókeypis. Á tímabili virtist leikurinn vera að leysast upp í einhverja vitleysu, en eftir leikhlé fóru þetta nú aftur í eðlilegt horf. Valskonur unnu þennan leikhluta 13-18 sem er magnað því þær voru ekki nema 27% skotnýtingu. Staðan eftir þrjá leikhluta 57-45.

Valskonur byrja 4. leikhluta vel, vinna boltann í vörnnni og Kiera þrumar niður þristi. En Haukakonur voru nú samt ekkert að fara á taugum og svöruðu vel og héldu þessum leikhluta í járnum. Þá tók Óli leikhlé og eitthvað sagði hann því þær komu fílefldar til baka og skoruðu 7 stig í röð og allt í einu er þetta orðin leikur aftur. Bjarni ákvað að stoppa blæðinguna og tók leikhlé. Staðan 61-58 og rúmar 5 mínútur eftir.  Eftir leikhléiið var leikurinn æsispennandi, eitthvað sem engin bjóst við í hálfleik.  Núna hittu Valskonur mun betur á meðan ekkert var að ganga upp hjá Haukakonum. Þegar ein og hálf mínúta var efitr komsut Valskonur yfir.  Eftir háspennudramatík, þar sem bæði lið höfðu tækifæri á að klára þennan leik, þá endaði hann á jafntefli, 64-64 og því framlengt. Í þessum leikhluta skoraði Haukar aðeins sjö stig.

Framlengingin var eins og í fyrsta leikhluta, stál í stál. Valskonur þó með yfirhöndina núna. En Haukakonur gáfust auðvitað ekkert upp og þegar 12.8 sekúndur eru eftir komast þær yfir eftir mikið harðfylgi Keira Robinson. Valur tekur leikhlé, uppúr því kemur kerfi sem virðist vera að misheppnast þegar Embla þrumar niður þristi úr horninu. Bjarni tók strax leikhlé. Keira sækir tvö víti þegar 1.1 sekúnda er eftir og hún klikkaði á fyrra skotinu. Sara tekur frákastið eftir seinna skotið og Valskonur fagna gríðarlega.

Stemmingin í húsinu var alveg upp á 10, nokkuð vel mætt þótt það hafi alveg verið pláss fyrir fleiri. Leikurinn geggjaður, frábær auglýsing fyrir kvennakörfuboltann og frábær byrjun á úrslitakeppninni.

Hjá Haukum var Keira atkvæðamest með 29 stig og 12 fráköst, byrjaði mjög vel en dró aðeins af henni þegar leið á leikinn en kom upp aftur í framlengingunni. Elísabeth Ýr átti einnig stórgóðan leik með 9 stig og 15 fráköst. Hjá Valskonum var það Kiana að venju, átti magnaðan leik og þá sérstaklega í 4. leikhluta, með 30 stig og 11 fráköst. Ásta Júlía átti prýðisleik, sérstaklega í seinni hálfleik með 14 stig og 12 fráköst.

Næsti leikur verður á Skírdag og þá verður leikið í Origohöllinni.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -