Nýliðar Vals lögðu Fjölni 78-88 í Iceland Express deild kvenna í kvöld. María Ben Erlingsdóttir gerði 21 stig og tók 7 fráköst í liði Vals sem fékk fínt framlag úr mörgum áttum í kvöld á meðan Fjölniskonur lögðu of mikil þyngsli á herðar Britney Jones og Katinu Mandylaris og það tók af tanknum á seinni stigum leiksins.
María Ben Erlingsdóttir brá sér eldsnöggt í stöðu bakvarðar þegar hún stal boltanum í upphafi leiks, brunaði upp völlinn og skoraði og fékk villu að auki og Valskonur opnuðu viðureignina í Dalhúsum 0-3. Eva María Emilsdóttir byrjaði hjá gulum að hafa gætur á Maríu sem átti eftir að láta betur til sín taka í leiknum en Eva fékk tvær villur eftir eina og hálfa mínútu og sást lítið í fyrri hálfleik eftir það.
Britney Jones gerði 6 fyrstu stig Fjölnis í leiknum áður en Birna Eiríksdóttir minnkaði muninn í 8-9 með skoti sem… já, fór spjaldið ofaní, hvað annað? Skömmu síðar fóru Fjölniskonur af stað og komust í 18-10 en þá tóku Valskonur leikhlé.
Að leikhléinu loknu setti Hallveig Jónsdóttir tóninn fyrir gestina með þrist og skömmu síðar höfðu Valskonur jafnað 23-23 og leiddu 23-26 að fyrsta leikhluta loknum þar sem Guðbjörg Sverrisdóttir skellti niður Valsþrist þegar rétt rúmar tvær sekúndur voru eftir af fjórðungnum.
Valur hafði undirtökin í öðrum leikhluta, leiddu með litlum mun en þegar líða tók á leikhlutann tók María Ben Erlingsdóttir leikinn í sínar hendur, á lokaspretti fyrri hálfleiks skoraði hún nánast að vild og Valur leiddi 43-52 í leikhléi. Britney Jones var með 21 stig í hálfleik í Fjölnisliðinu en hékk of mikið á boltanum og því fáir sem urðu þátttakendur í sóknarleiknum aðrir en Britney og Katina Mandylaris sem var með 11 stig í hálfleik. Hjá Val var María Ben Erlingsdóttir með 17 stig og Kristrún Sigurjónsdóttir 15 en hún var hvað beittust í fyrsta leikhluta.
María Ben hélt uppteknum hætti á blokkinni í upphafi síðari hálfleiks, Katina átti ekki roð í Maríu og Valskonur nýttu meðbyrinn, komust í 47-61 þegar þrjár mínútur voru liðnar af seinni hálfleik og Bragi bað um leikhlé fyrir Fjölni. Ræða Braga skilaði sér ekki því Valur jók bilið og leiddu 60-79 fyrir fjórða og síðasta leikhluta. Vörn Valskvenna var að virka því sóknarlega var enginn sem tók af skarið nema Britney og Katina í liði Fjölnis og því hægt um vik fyrir fimm varnarmenn að hafa aðeins um tvo sóknarmenn að hugsa.
Fjölniskonur opnuðu fjórða leikhluta 6-0 og minnkuðu muninn í 66-79. Munurinn komst svo í tíu stig á síðustu mínútunum þegar Fjölniskonur fóru að beita svæðisvörn sem hægði aðeins á Val en rauðar voru komnar á bragðið og kláruðu leikinn 78-88.
María Ben, Kristrún og Melissa Jo Leichlitner fóru fyrir Valskonum í kvöld en Hallveig Jónsdóttir átti fínar rispur og Þórunn Bjarnadóttir komst vel frá sínu. Hjá Fjölni voru Britney og Katina allt í öllu og Erla Sif Kristinsdóttir kom inn í myndina á seinni stigum leiksins. Þriggja stiga nýting Fjölnis var afleit, 1 af 19 og hafði það sitt að segja í leiknum.
Byrjunarliðin:
Fjölnir: Britney Jones, Heiðrún Harpa Ríkharðsdóttir, Eva María Emilsdóttir, Birna Eiríksdóttir og Erla Sif Kristinsdóttir.
Valur: María Ben Erlingsdóttir, Kristrún Sigurjónsdóttir, Unnur Lára Ásgeirsdóttir, Melissa Jo Leichlitner og Berglind Ingvarsdóttir.
Stiklur:
-Bergdís Ragnarsdóttir var ekki með Fjölni í leiknum, enn fjarri góðu gamni sökum meiðsla.
-Fjölniskonur unnu Keflavík í fyrstu umferð.
-Valskonur töpuðu gegn Snæfell í fyrstu umferð.
-Erna María Sveinsdóttir leikmaður Fjölnis á afmæli í dag, við óskum henni að sjálfsögðu til lukku með daginn!
-Íslenskir leikmenn Fjölnis skoruðu samtals 27 stig í sigurleiknum gegn Keflavík, framlag þeirra var ekki jafn veglegt í kvöld eða samtals 19 stig.
-Þriggja stiga nýting Fjölnis í fyrsta mótsleik – 26%
-Þriggja stiga nýting Vals í fyrsta mótsleik – 29%
-Þriggja stiga nýting Fjölnis í öðrum mótsleik – 5,2%
-Þriggja stiga nýting Vals í öðrum mótsleik – 27,2%
Stigaskor leiksins:
Fjölnir: Brittney Jones 33/7 fráköst/10 stoðsendingar, Katina Mandylaris 26/21 fráköst, Erla Sif Kristinsdóttir 10/6 fráköst, Birna Eiríksdóttir 5, Eva María Emilsdóttir 2, Heiðrún Harpa Ríkharðsdóttir 2/6 fráköst, Dagbjört Helga Eiríksdóttir 0, Erna María Sveinsdóttir 0, Telma María Jónsdóttir 0, Margrét Loftsdóttir 0, Margrét Helga Hagbarðsdóttir 0, Sigrún Anna Ragnarsdóttir 0.
Valur: María Ben Erlingsdóttir 21/7 fráköst, Kristrún Sigurjónsdóttir 20/7 fráköst/5 stoðsendingar, Melissa Leichlitner 18/4 fráköst/8 stoðsendingar, Hallveig Jónsdóttir 11/4 fráköst, Þórunn Bjarnadóttir 6/6 fráköst, Unnur Lára Ásgeirsdóttir 4, Guðbjörg Sverrisdóttir 3/4 fráköst, Berglind Karen Ingvarsdóttir 3, Signý Hermannsdóttir 2/8 fráköst/5 varin skot, Ragnheiður Benónísdóttir 0, Brynja Pálína Sigurgeirsdóttir 0, Súsanna Karlsdóttir 0.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Aðalsteinn Hrafnkelsson.
Ljósmyndir og umfjöllun: Jón Björn Ólafsson – [email protected]