spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Njarðvíkursigur í hörku leik

Umfjöllun: Njarðvíkursigur í hörku leik

Njarðvík tók á móti Val í fyrstu umferð Lengjubikars kvenna í gærkvöld og eftir mikinn baráttuleik náðu heimastúlkur að knýja fram eins stigs sigur, 65-64. Mikið fór fyrir erlendu leikmönnum Njarðvíkur þar sem Lele Hardy var með 22 stig og Shanae Baker 21 stig.
Leikurinn byrjaði nokkuð rólega og jafnt var með liðum framan af. Það var ekki fyrr en Kristrún Sigurjónsdóttir kom inn af bekknum að Valur fór að hrökkva í gang og leiddu 9-20 eftir fyrsta leikhlutann og Kristrún komin með 8 stig. Í öðrum leikhluta fór Njarðvík að koma sér betur inn í leikinn þó Valur hafi alltaf verið með yfirhöndina og voru að spila mjög vel á tímabili. Leikhlutinn endaði 32-37 fyrir Val og má segja að Baker og Hardy hafi borið liðið á herðum sér þennan leikhlutann þar sem þær voru búnar að skora 28 stig saman af þessum 32.
 
Seinni leikhlutinn byrjaði með látum og ætlaði hvorugt liðið að gefa neitt eftir. Það var svo í lok leikhlutans sem að Njarðvík komst yfir og má það skrifast á að liðið var farið að spila meira saman á þessum tíma og fleiri farnir að taka af skarið. Eftir leikhlutann leiddi Njarðvík 49-46 og allt stefndi í spennandi lokamínútur. Fjórði leikhlutinn var eins og sá síðasti, þar sem baráttan var í fyrirrúmi. Njarðvík leiddi mest allan leikhlutann en Valur komst yfir 61-62 þegar rúm ein mínúta var eftir af leiktímanum. Í næstu sókn ná svo Njarðvík að komast aftur yfir 63-62 og eru þá 24 sekúndur eftir af leiknum. Valsstúlkur fara í sókn og ná að skora, 63-64, en nota mjög lítið af tímanum svo að Njarðvík brunar í sókn og fá tvö víti þegar brotið er á Baker. Hún var sallaróleg á línunni og sökkti báðum vítunum og Njarðvík komið enn og aftur yfir, 65-64.
 
Þannig lauk þessum spennandi leik sem hefði getað endað á báða bóga. Flott barátta hjá báðum liðum en hægt er að segja að það sem skildi liðin að var frákastabarátta Njarðvíkinga, en þær vorum með 20 sóknarfráköst í leiknum á móti 4 hjá Val og skiluðu þessi sóknarfráköst í flestum tilfellum tveimur stigum fyrir þær.
 
Stigaskor Njarðvíkur dreifðist miklu betur í seinni hálfleik en stigahæst hjá þeim var Hardy með 22 stig og 13 fráköst og á eftir henni var Baker með 21 stig, 9 fráköst og 4 stoðsendingar. Hjá Val var Kristrún Sigurjónsdóttir með 21 stig, Hallveig Jónsdóttir með 11 stig og María Ben Erlingsdóttir með 10 stig og 7 fráköst.
 
Mynd/ Hardy var stigahæst í Njarðvíkurliðinu í gær.
 
Fréttir
- Auglýsing -