spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaUmfjöllun: Njarðvík unnu ÍR-stelpur í Hellinum

Umfjöllun: Njarðvík unnu ÍR-stelpur í Hellinum

Í kvöld mættust ÍR og Njarðvík í Hertz-Hellinum í lokaleik sínum í 1. deild kvenna tímabilið 2018-2019.

Fyrir leik

Njarðvík hafði fyrir þennan leik unnið báða fyrri leikina gegn ÍR og voru í 4. sæti, einu sæti á undan Breiðhyltingum. ÍR-ingar gætu enn komist upp fyrir Njarðvíkinga og í seinasta úrslitakeppnissætið með sigri í þessum leik og næstu leikjum líka. Njarðvík gat aftur á móti tryggt sig svo að segja alveg í úrslitakeppnina með sigri í kvöld.

Njarðvík fékk Ernu Freydísi Traustadóttur aftur frá Breiðablik í janúar og ÍR hafði verið að klífa töfluna eftir slaka byrjun á tímabilinu. Ljóst var að þetta yrði hörkuleikur.

Gangur leiksins

ÍR-stelpur byrjuðu leikinn mjög flatar og virtust óöruggur gegn orkumikilli vörn Njarðvíkurstúlkna svo að staðan var fljótlega orðin fremur slæm fyrir heimaliðið eftir aðeins 5 mínútur, 6-17. ÍR prufaði að skipta yfir í 3-2 svæðisvörn á kafla til að reyna slökkva á gestunum sem gekk í smá stund, en Njarðvíkingar voru komnir á bragðið og héldu áfram að hitta úr skotunum sínum. Staðan eftir fyrsta leikhluta 13-28.

Njarðvík byrjaði að hökta eilítið sóknarlega í öðrum leihlutanum en það kom ekki að sök því að Breiðholtsstelpurnar voru áfram kaflaskiptar í vörn og sókn. Þær blá- og hvítklæddu gátu þó spilað aðeins betur saman en á fyrstu 10 mínútum og liðin skoruðu á endanum bæði 16 stig í leikhlutanum. Hálfleiksstaðan varð því 29-44 eftir gott lokaáhlaup hjá heimaliðinu.

Það virtist sem að önnur lið mættu úr búningsklefunum eftir hálfleikshléið. ÍR spilaði hörkuvörn og voru grimmar á meðan að Njarðvík varð óöruggt í sóknarleik sínum og gekk illa að skora. Sókn ÍR-inga gat hins vegar ekki nýtt tækifærin sem komu úr vörninni og eftir 5 mínútur höfðu Breiðhyltingar aðeins minnkað muninn í 10 stig. Ragnar Halldór Ragnarsson, þjálfari Njarðvíkur, tók þá leikhlé í stöðunni 40-50 og liðin hófu að taka áhlaup til skiptis. Njarðvík hélt enn í ágæta forystu í lok þriðja leikhlutans; 49-58.

Stúkan hjá ÍR varð mikilvæg fyrir heimastúlkur í kvöld enda voru áhangendur Breiðholtsliðsins með mikil læti sem skiluðu sér áfram í óöryggi Njarðvíkur sóknarlega. Gestirnir gátu ekki skorað nema 4 stig fyrstu fimm mínútur lokafjórðungsins en það kom ekki að sök því að ÍR skoraði líka aðeins 4 stig fyrstu fimm mínúturnar. Liðin skiptust á að skora undir lokin en ÍR komst ekki nær en 7 stig og leiknum lauk 61-70, Njarðvík í vil.

Lykillinn

Erna Freydís Traustadóttir og Kamilla Sól Viktorsdóttir reyndust Njarðvík mjög drjúgar en þær voru á köflum dýrmætar fyrir Ljónynjurnar í sókn og vörn. Erna Freydís skoraði 23 stig, stal fjórum boltum og setti 5 þrista á meðan að Kamilla Sól skoraði 16 stig, tók 10 fráköst, gaf 5 stoðsendingar og sótti 8 villur. Júlía Scheving Steindórsdóttir var sömuleiðis nokkuð öflug, en þrátt fyrir að skora aðeins 3 stig þá tók hún 13 fráköst, gaf 6 stoðsendingar og stal tveimur boltum.

Hjá ÍR voru þær Sigurbjörg Rós Sigurðardóttir og Kristín Rós Sigurðardóttir (ekki skyldar) bestar, en Sibba eins og hún er jafnan kölluð skoraði 11 stig (83% skotnýting), tók 10 fráköst og endaði með 21 í framlag á meðan að Kristín Rós gerði ekki mikið tölfræðilega séð (3 stig, 3 fráköst, 2 stoðsendingar) en endaði með bestu +/- tölfræðina hjá liðinu sínu og var því yfirleitt inn á þegar að liðinu gekk vel.

Tölfræðin segir sitt

ÍR-ingar voru með afleita skotnýtingu í dag (36%) en það sem vekur mesta athygli er að þær fengu aðeins 13 villur dæmdar á gestina í öllum leiknum á meðan að Njarðvíkingar tóku 25 vítaskot í leiknum úr 25 sóttum villum. 25-13 í liðsvillum væri kannski ekki óeðlilegt nema fyrir það að ÍR fór reglulega inn í teiginn (40 reynd skot í teignum) á meðan að Njarðvíkingar tóku 16 fleiri þrista og sóttu ekki sterkt á körfuna (23 reynd skot inni í teig).

Kjarninn

Þessi leikur vannst í fyrsta leikhluta. ÍR mættu ekki reiðubúnar fyrir kæfandi pressuvörn Njarðvíkur og misstu gestina of langt frá sér á fyrstu metrum leiksins. ÍR þurftu meiri stemmingu úr stúkunni í fyrri hálfleik og hefðu getað tekið leikinn ef þær hefðu spilað fyrstu 10 mínúturnar (sem ÍR tapaði með 15 stigum) eins og þær spiluðu seinustu 30 (sem ÍR vann með 6 stigum).

Það verður hins vegar ekki tekið af Njarðvík að þær spiluðu flottan bolta gegnum leikinn og byrjuðu sterkt þó að þær hafi látið lætin í stúkunni og vörn ÍR í seinni hálfleik slá sig út af laginu. Svipað gerðist gegn Hamri fyrir skemmstu (sem endaði næstum í óvæntu tapi, 66-60 fyrir Njarðvík) og þær verða að vanda til verka ef þær ætla ekki að láta sópa sér úr úrslitakeppninni. Ljónynjurnar mega ekki byrja leiki sterkt og klára þá síðan eins og kettlingar.

Samantektin

Þá eru Njarðvíkingar búnir að tryggja sig í úrslitakeppnina í 1. deild kvenna og geta farið að slípa sig betur fyrir komandi átök án þess að hafa áhyggjur af sæti sínu í deildinni. Þær geta jafnvel reynt að komast upp í 3. sætið ef þær gera allt rétt og liðin fyrir ofan förlast flugið.

ÍR-ingar eru nú annað árið í röð í 5. sæti deildarinnar og þurfa að passa sig ef þær ætla ekki að falla niður í 6. sætið, en þær eru jafnar að stigum með Tindastóli. Tindastóll getur farið upp fyrir þær með fleiri sigrum í seinustu þrem leikjunum eða með því að sigra þær innbyrðis (ÍR og Tindastóll eiga eftir að hittast einu sinni í viðbót, 23. febrúar á Sauðárkróki).

Undirritaður kann ekki við að benda á dómgæslu og hefur yfirleitt varið dómara en það er mögulega tímabært fyrir dómara að fara að verja miðherja og stóra leikmenn sem reyna að fara sterkt upp gegn minni mótherjum. Það er einkennilegt í meira lagi að liðið sem er stærra og sækir meira inn í teig fær aðeins 12 vítaskot á meðan að lið sem sækir minna inn í teig og spilar maður á mann vörn allan leikinn sækir 25 liðsvillur á hitt liðið og tekur 25 vítaskot.

Tölfræði leiksins

Myndasafn (Bára Dröfn)

Viðtöl eftir leikinn:
Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Bára Dröfn Kristinsdóttir
Fréttir
- Auglýsing -