spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Njarðvík kláraði Val í fyrri hálfleik

Umfjöllun: Njarðvík kláraði Val í fyrri hálfleik

 Njarðvík vann öruggan sigur á nýliðum Vals að Hlíðarenda í kvöld.  Njarðvíkingar byrjuðu leikinn af krafti og höfðu náð tveggja stiga forskoti strax í fyrsta leikhluta.  Forskot gestana stækkaði með hverri mínútunni sem leið og þegar flautað var til hálfleiks var það orðið 18 stig.   Þriðji leikhluti var svo algjör eign gestana sem skoruðu 23 stig gegn 5 stigum Vals og þar með voru úrslitin ráðin.  Lokatölur voru 63-92.  Stigahæstur í liði Njarðvíkur var Hjörtur Einarsson með 18 stig en næstir voru Travis Holmes með 16 stig og Cameron Echols og Ólafur Helgi Jónsson gerðu 12 stig hvor.  Hjá Val var Igor Tratnik yfirburðamaður með 22 stig og 9 fráköst en næstir voru Birgir Pétursson með 13 stig og 9 fráköst og Alexander Dungal með 6 stig.  
 Njarðvíkingar byrjuðu leikinn vel og pressuðu heimamenn hátt.  Aggressífur varnarleikur Njarðvíkur skilaði sér fljótt og þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður höfðu gestirnir náð 6 stiga forskoti, 9-15.  Njarðvíkingar héldu Valsmönnum nokkuð frá sér það sem eftir lifði leikhlutans en náðu mest 12 stiga forskoti þegar ein og hálf mínúta var eftir af leikhlutanum, 14-26.   Njarðvík hafði svo 9 stiga forskot þegar flautað var til loka fyrsta leikhluta, 21-30.  

Njarðvík skoraði fyrstu 7 stig annars leikhluta og höfðu því náð 16 stiga forskoti áður en Valsmenn skoruðu sín fyrstu stig leikhlutans.  Valsmenn svöruðu því með fjórum stigum í röð frá Igor Tratnik og Einar Jóhannsson tók leikhlé fyrir Njarðvík, 25-27.  Njarðvíkingar höfðu aftur náð forskotinu upp í 17 stig þegar þrjár mínútur voru eftir af fyrri hálfleik, 29-46.  Þegar flautað var til leikhlés var forskot gestana komið upp í 18 stig, 35-52.  

Stigahæstur í hálfleik í liði Njarðvíkur var Elvar Geir Friðriksson með 11 stig, Travis Holmes og Cameron Echols með 10 stig hvor.  Hjá Valsmönnum var Igor Tratnik yfirburðamaður með 16 stig og 6 fráköst en næstir voru  Birgir Pétursson með 6 stig og Curry Collins með 4 stig.  

Strax eftir þrjár mínútur af þriðja leikhluta sá Ágúst Björgvinsson sig knúinn að taka leikhlé þegar forskot Njarðvíkur var komið upp í 24 stig, 37-61.  Þegar leikhlutinn var hálfnaður höfðu Valsmenn aðeins skoarð 2 stig gegn 15 stigum gestana og því augljóst í hvað stemdi.  Á meðan allt gekk upp hjá ungu liði Njarðvíkur fór ekkert ofaní hjá lánlausum Valsmönnum.  Seinustu mínúturnar í þriðja leikhluta líktist meira yngriflokka körfubolta en efstu deild á íslandi þar sem bæði lið gerðu sig sek um klaufaleg mistök og óagaðan körfubolta.  Njarðvík hafði 35 stiga forskot eftir þriðja leikhluta sem Njarðvík vann 5-23.  

Þrír af fjórum erlendum leikmönnum Vals sátu á bekknum frá miðjum þriðja leikhluta og ljóst að Ágúst var ekki ánægður með þeirra framlag í leiknum.  Þegar fjórði leikhluti var hálfnaður hafði Njarðvík 33 stiga forskot, 50-83.  Það breyttist lítið í fjórða leikhluta.  Erlendu leikmenn liðana fengu að hvíla sig og yngri leikmenn fengu góðar mínútur.  Þegar flautað var til loka leiksins var munurinn á liðunum 29 stig, 62-92 og öruggur sigur Njarðvíkur staðreynd. 

Myndasafn má finna hér

Viðtal við Ágúst og Einar má finna hér

Umfjöllun: Gísli Ólafsson

Mynd : Tomasz Kolodziejski

Fréttir
- Auglýsing -