spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Naumt tap Njarðvíkur-b gegn Leikni R.

Umfjöllun: Naumt tap Njarðvíkur-b gegn Leikni R.

Leiknismenn heimsóttu Akurskóla í Njarðvík um helgina til að etja kappi við Njarðvík-b í 2. deild karla. Liðin voru að mætast í fyrsta sinn á þessu tímabili en í fyrra endaði Njarðvík-b í þriðja sæti 2. deildar og Leiknir R. í því fjórða þrátt fyrir að Leiknismenn ynnu báða leikina gegn Njarðvíkingum á því tímabili. Úrslitin í kvöld urðu ekki öðruvísi þrátt fyrir háspennuleik á lokakaflanum (og raunar allan leikinn), en Leiknir R. vann 78-80.
 

Gangur leiksins

Liðin hófu að skiptast á stigum strax frá fyrstu mínútu og ljósta að hvorugt þeirra ætlaði að sýna hinu liðinu minnstan vott af virðingu. Gestirnir fóru snemma að sækja fast á körfuna og uppskáru eitthvað af vítaskotum fyrir vikið á meðan að Njarðvíkingar voru duglegir að dæla boltanum niður á stóru mennina sína. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 20-23 fyrir Leikni. Það gætti meiri kergju í öðrum leikhlutanum sem að leiddi til þess að leikmaður Leiknis fékk dæmda á sig tæknivillu þegar ca. 15 mínútur voru liðnar af leiknum. Þá virtist sem að Njarðvíkingar hrykku í gang á meðan að Leiknismenn gátu ekki hætt að hugsa um dómarana. Á seinustu 4-5 mínútum fyrri hálfleiksins tóku Njarðvík-b níu stiga áhlaup og leiddu þ.a.l. í hálfleik; 43-40.

Eitthvað virtust gestirnir hafa rætt saman í búningsklefanum í hálfleik því að þeir mættu einbeittir í seinni hálfleikinn og settu lok á stigaskor heimamanna á fyrstu mínútunum. Leiknir skoraði fyrstu 11 stig þriðja leikhlutans áður en Njarðvík-b gat svarað fyrir sig og þá var það samt ekki nóg til að laga stöðuna nægilega fyrir lokafjórðunginn, en liðin skildu í stöðunni 52-62 eftir þriðja. Leikni fór að förlast flugið aðeins þegar nokkrar mínútur voru liðnar af fjórða leikhlutanum og Njarðvíkingar gengu aftur á lagið líkt og í öðrum leikhlutanum. Heimaliðið skoraði aftur 9 stig í röð án svars frá gestunum og liðið var komið 3 stigum yfir þegar seinni af báðum byrjunarliðsframherjum Njarðvíkinga fór út af með 5 villur. Það reyndist dýrt því að fram að því höfðu þeir tveir skilað 33 stigum og 10 stig af þeim komu í fjórða leikhluta enda áttu Leiknismenn í basli með að verjast gegn þeim í teignum. Liðin skiptust á körfum eftir þetta en svo fór að lokum að Leiknir R. náði að halda í forystuna og sigra með tveimur stigum eftir hörkuleik, 78-80.
 

Vendipunktar í leiknum

  • Fyrsta tæknivilla Leiknismanna af tveimur sem að þeir fengu í öðrum leikhlutanum og voru þær einu sem að þeir nældu sér í allan leikinn. Sá fimm mínútna kafli sem fylgdi var dýr enda tóku Njarðvíkingar 10-2 áhlaup þá til að taka forystuna fyrir hálfleik.
  • Í fjórða leikhluta tóku Njarðvíkingar áhlaup sem að Leiknir náði að standa af sér (73-74) áður en báðir byrjunarliðsframherjar heimamanna fóru út af með 5 villur.
  • Á lokasekúndum leiksins fengu Njarðvíkingar gullið tækifæri til að stela sigrinum eftir að hafa verið að elta gestina mest allan leikinn. Í stöðunni 78-80 með 2 sekúndur eftir settu þeir upp innkast-kerfi sem að leiddi til þess að þeir fengu galopið þriggja stiga skot. Það geigaði og svo fór sem fór, Leiknismenn unnu.
     

Tölfræðin lýgur ekki

Leikhlutastigaskiptin urðu mikilvæg í leiknum: 20-23, 23-17, 9-22, 26-18. Leiknir var stöðugari yfir leikinn sem að sást í því að mesta stigasveifla þeirra milli leikhluta var 6 stig á meðan að Njarðvíkingar þurftu að horfa upp á 15 stiga sveiflu í skori milli þriðja og fjórða leikhlutans hjá sér. Gestirnir skoruðu jafn mikið í fyrri og seinni hálfleik (40 stig í hvorum hálfleik) á meðan að heimaliðið skoraði 43 í fyrri hálfleik en aðeins 35 í þeim seinni. Þristarnir voru heldur ekki að detta vel fyrir Njarðvík-b, en þeir settu aðeins þrjú skot fyrir utan þriggja stiga línuna gegn 6 þristum hjá Leikni.
 

Menn leiksins

Tveir leikmenn Leiknis reyndust ansi drjúgir, en þeir Einar Bjarni Einarsson og Gunnar Arnar Gunnarsson skoruðu 24 og 20 stig fyrir gestina í leiknum. Í liði Njarðvíkur-b fór Páll Kristinsson fyrir sínum mönnum með 22 stig og var eins og áður sagði illviðráðanlegur inni í teig.
 

Kjarninn

Mjög harkalegur leikur með mikið af villum og tuði leikmanna beggja megin vallarins sem skilaði sér í að tveir byrjunarliðsmenn úr báðum liðum fengu 5 villur og þurftu að setjast á bekkinn í fjórða leikhluta. Tæknivillurnar urðu þó ekki nema þrjár yfir heildina, tvær dæmdar á Leiknismenn í fyrri hálfleik og ein á Njarðvíkinga í seinni hálfleik.
 

Stig leikmanna

Njarðvík-b:
Páll Kristinsson 22 stig, Magnús Gunnarsson 14 stig, Ólafur Aron Ingvason 12 stig, Hjörtur Hrafn Einarsson 11 stig, Grétar Már Garðarsson 9 stig, Arnar Þór Smárason 6 stig, Halldór Karlsson 4 stig.

Leiknir R.:
Einar Bjarni Einarsson 24 stig, Gunnar Arnar Gunnarsson 20 stig, Kristinn Loftur Einarsson 11 stig, Helgi Ingason 10 stig, Dzemal Licina 8 stig, Helgi Hrafn Ólafsson 5 stig, Eiríkur Örn Guðmundsson 2 stig, Ingólfur Urban Þórsson 0 stig.
 

Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson
Fréttir
- Auglýsing -