Haukar sýndu klærnar á heimavelli í kvöld þegar Grindvíkingar mættu í heimsókn. Grindvíkingar eru sem kunnugt er, nýlega búnir að missa landsliðsmiðherjann Sigurð Þorsteinsson í atvinnumennsku, reyndust ekki nægilega sterkir til að halda í við rauðklædda Hauka í 40 mínútur.
Það voru heimamenn sem voru sneggri úr startholunum í kvöld og náðu strax stjórn á leiknum, án þess þó að ná að hrista gestina af sér. Bæði lið frumsýndu nýinnflutta erlenda leikmenn, rauðklæddan Alex Francis og bláan Joel Hayden Haywood. Francis heimamanna beið ekki boðanna og ruddist fram á sviðið með 6 stig og 8 fráköst í fyrsta leikhluta, ekki amalegt það. Það var hlutverk Hauka að leiða leikinn út í gegn, en óguðleg skotnýting Hauks Óskarssonar reyndist gestunum erfið, 12 stig lágu í valnum í lok fyrsta leikhluta, sem Haukarnir leiddu 30-22.
Ekki munaði miklu á liðunum fram að hálfleik, Haukar leiddu þá með sex stigum og allt opið. Eftir að Grindvíkingar náðu stuttlega forystunni snemma í þriðja leikhluta opnuðust allar flóðgáttir hjá Haukum, en á köflum mátti halda að þeir stæðu á bryggjuenda í Hafnarfirði og þyrftu aðeins að hitta í sjóinn. Gestirnir leiddu 53-55 um miðjan þriðja leikhluta, en sáu ekki til sólar eftir það. Haukar settu niður fjórtán af næstu átján skotum sínum utan af velli og breyttu stöðunni í 91-70. Ekkert gekk upp hjá Grindavík á sama tíma, “Haukarnir voru einfaldlega miklu betri en við” sagði Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Grindavíkur eftir leik.
Gott flæði var í sóknarleik Haukamanna á þessum lykilkafla í seinni hálfleik, varnarleikurinn var að sama skapi þéttur og ljóst að ungt og spennandi lið Hauka ætlar sér stóra hluti í vetur. Það er ljóst að Grindvíkingar eru að sama skapi að leita að jafnvægi í sínum leik eftir að hafa misst Sigurð á vit ævintýranna, en hann batt saman vörn þeirra hin síðustu ár. “Varnarlega vorum við skelfilegir og áttum ekki skilið neitt úr þessum leik” klykkti Sverrir út með, og hefur eflaust saknað Sigurðar úr miðjum teignum.
Alex Francis stóðst frumsýningarpressuna og skilaði af sér tröllatvennu, 20 stigum og 20 fráköstum. Haldi hann uppteknum hætti er ljóst að Haukar hafa unnið í kanalottóinu. Það var hins vegar Haukur Óskarsson sem dró vagninn löngum stundum með sín 27 stig (11/15 í skotum). Hjá Grindavík var Magnús Þór Gunnarsson atkvæðamestur með 21 stig og Joel Haywood bætti 19 stigum í sarpinn.
Myndasafn – Axel Finnur