spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Flautukonsert í Njarðvíkursigri

Umfjöllun: Flautukonsert í Njarðvíkursigri

00:58 

{mosimage}

 

 

Njarðvíkingar og KR skiptust á því að skora og hafa forystu í síðari undanúrslitaviðureign kvöldins í Laugardalshöll. Að lokum voru það Íslandsmeistararnir frá Njarðvík sem höfðu sigur 102-95 og mæta því grönnum sínum frá Keflavík í úrslitaleik Powerade bikarsins en leikurinn fer fram í Laugardalshöll á laugardag kl. 16:00.

 

Friðrik Stefánsson gerði fyrstu körfu leiksins og svo skiptust liðin á því að skora þvert ofan í annað. Jeremiah Sola fór mikinn í upphafi leiks og gerði hverja körfuna á fætur annarri án þess að Njarðvíkingar fengju eitthvað við hann ráðið undir körfunni. Þegar 1. leikhluti var hálfnaður tóku KR-ingar fína rispu og breyttu stöðunni í 18-11 en Njarðvíkingar náðu að jafna í 19-19 þar sem Brenton Birmingham gerði 8 stig í röð. Leikhlutanum lauk 23-23 og var hann opinn og skemmtilegur.

 

Keflvíkingurinn Gunnar Stefánsson kom KR yfir 26-23 með góðri þriggja stiga körfu í upphafi annars leikhluta en Jeb Ivey jafnaði metin strax í næstu sókn með þriggja stiga körfu. Leikhlutinn var hnífjafn en athygli vakti vaskleg framganga Hjartar Einarssonar í Njarðvíkurliðinu en hann hélt smá lífi í sínum mönnum sem virtust vera að missa KR fram úr sér. Jeb Ivey kom Njarðvíkingum svo í 47-45 þegar aðeins nokkrar sekúndur voru til hálfleiks.

 

{mosimage}

 

Tyson Patterson kom KR í 49-47 með þriggja stiga körfu og eftir það kom heil buna af körfum frá liðunum og snögglega var staðan 61-61. Guðmundur Jónsson setti þá niður þriggja stiga körfu fyrir Njarðvík ,64-61, en Brynjar Björnsson svaraði að sama skapi 64-64 og hvorugt lið ætlaði að gefa tommu eftir. Þegar tæpar 3 mínútur voru til loka leikhlutans fékk Friðrik sína fjórðu villu og hélt á bekkinn til að forðast þá fimmtu. Við brotthvarf Friðriks tvíelfdust KR-ingar og Tyson Patterson kom KR í 78-71 þegar nokkrar sekúndur voru eftir af þriðja leikhluta og minnti þá Jeb Ivey á að hann væri ekki einn um að skora flautukörfur.

 

KR hafði yfirhöndina í lokaleikhlutanum allt þar til fjórar mínútur voru til leiksloka. Þá jafnaði Jeb Ivey leikinn í 84-84 með þriggja stiga skoti. Lokaleikhlutinn minnti smávægilega á tónleika sinfóníunnar en þeir Björgvin Rúnarsson og Kristinn Óskarsson, dómarar leiksins, voru allt of duglegir við að þenja flautuna og því miður setti það mark sitt á leikinn. Friðrik Stefánsson fékk að lokum sína fimmtu villu og þeir Pálmi Sigurgeirsson, Tyson Patterson og Jeremiah Solna fengu einnig fimm villur og urðu allir frá að víkja. Alls voru dæmdar 52 villur í leiknum sem var síður en svo grófur þrátt fyrir að menn væru að pústra endrum og sinnum, svona eins og gengur og gerist.

 

Það voru engu að síður Njarðvíkingar sem reyndust sterkari á lokasprettinum og höfðu að lokum sigur 102-95. Hjörtur Hrafn Einarsson fær rós í hnappagatið hjá Njarðvíkingum en þessi 17 ára gamli leikmaður stóð sig mjög vel í leiknum og gerði 19 stig.

 

Tölfræði leiksins

 

[email protected]

 

 

{mosimage}

Fréttir
- Auglýsing -