spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Fjölnir stal sigrinum með sterkum lokasprett

Umfjöllun: Fjölnir stal sigrinum með sterkum lokasprett

Gulir Fjölnismenn lyftu sér upp í 8. sæti Iceland Express deildar karla í kvöld með fræknum 100-96 baráttusigri gegn KR. Íslands- og bikarmeistararnir leiddu langstærstan hluta leiksins en gulir gáfust aldrei upp og stálu sigrinum á lokasprettinum. Calvin O´Neal gerði 31 stig í liði Fjölnis og Nathan Walkup bætti við 27 stigum og 14 fráköstum. Það var þó Hjalti Vilhjálmsson sem kveikti í sínum mönnum á lokasprettinum og var kveikjan að sigri Fjölnismanna. Í liði KR setti David Tairu niður 25 stig en hann, Edward Horton og Hreggviður Magnússon léku vörn Fjölnis oft grátt í kvöld.
 
Fjölnismenn byrjuðu betur og hljóp þeim kapp í kinn þegar Árni Ragnarsson varði í tvígang skot frá Edward Horton. Gestirnir úr vesturbænum tóku þó hægt og bítandi við sér, komust í 14-15 og leiddu svo 22-27 að loknum fyrsta leikhluta. Ægir Þór Steinarsson byrjaði á Fjölnisbekknum í kvöld en kom inn þegar um þrjár mínútur voru eftir af fyrsta leikhluta og virtist nokkuð sprækur en hann er að stíga upp úr ökklameiðslum.
 
Fjölnismönnum gekk illa að ráða við Hreggvið Magnússon en hann fór að láta til sín taka eftir að David Tairu róaðist sem var fljótur upp í 16 stig. Árni Ragnarsson var að vinna vel í liði Fjölnis en vörnin hjá gulum var hriplek enda fengu heimamenn á sig 54 stig í fyrri hálfleik og leiddu gestirnir 46-54 í leikhléi þar sem Calvin O´Neal var með 14 stig og Nathan Walkup 11 í liði Fjölnis. Hjá KR var David Tairu með 16 stig og þeir Hreggviður og Edward voru báðir með 11.
 
Nathan Walkup opnaði síðari hálfleik með látum fyrir Fjölni er hann tróð með tilfþrifum, Íslands- og bikarmeistarar KR létu það ekki á sig fá og stýrðu leiknum. Vörn heimamanna var enn í basli með þá Tairu, Horton og Hreggvið og því leiddu gestirnir 70-76 eftir þriðja leikhluta en áður en hann var úti hafði Hrafn Kristjánsson nælt sér í tæknivíti fyrir samskipti sín við annan dómara leiksins.
 
Edward Horton jók muninn í 10 stig fyrir KR með þriggja stiga körfu, 73-83 en þá hertu Fjölnismenn róðurinn. Þegar gulir færðust nærri kviknaði á Hjalta Vilhjálmssyni, Hjalti minnkaði muninn í 88-89 með þriggja stiga körfu og jafnaði svo leikinn í næstu sókn 89-89 af vítalínunni. Hjalti jafnaði svo leikinn aftur í stöðunni 93-93 og Nathan Walkup náði forystunni fyrir Fjölni 95-94 þegar 1.25mín. voru til leiksloka. Þarna komst Fjölnir yfir í fyrsta sinn síðan í stöðunni 8-5.
 
Þegar um 50 sekúndur voru til leiksloka var Walkup aftur á ferðinni, KR-ingar voru á leið í hraðaupphlaup og gáfu langa sendingu sem Walkup las eins og opna bók, stal boltanum, fann Calvin frammi sem breytti stöðunni í 97-94.
 
26 sekúndur voru eftir þegar KR grýtti boltanum útaf í fljótfærni og Fjölnismenn létu þetta tækifæri ekki úr greipum sér ganga, lokatölur reyndust 100-96 þar sem Nathan Walkup gerði 6 af síðustu 7 stigum Fjölnis í leiknum.
 
Seiglusigur hjá Fjölni í kvöld sem gáfust aldrei upp en að sama skapi geta KR-ingar nagað sig í handarbökin yfir því að hafa ekki nýtt þau fjölmörgu tækifæri í kvöld til að stinga Fjölnismenn af.
 
 
Stigaskor:
 
Fjölnir: Calvin O’Neal 31/5 fráköst, Nathan Walkup 27/14 fráköst, Árni Ragnarsson 14/11 fráköst/3 varin skot, Trausti Eiríksson 8, Hjalti Vilhjálmsson 8, Arnþór Freyr Guðmundsson 7/6 stoðsendingar, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 4, Ægir Þór Steinarsson 1, Tómas Daði Bessason 0, Haukur Sverrisson 0, Gústav Davíðsson 0, Daði Berg Grétarsson 0.
 
KR: David Tairu 25/8 fráköst, Edward Lee Horton Jr. 24/7 stoðsendingar, Hreggviður Magnússon 16/5 fráköst, Finnur Atli Magnusson 11/8 fráköst, Emil Þór Jóhannsson 6/4 fráköst, Skarphéðinn Freyr Ingason 5/5 fráköst, Jón Orri Kristjánsson 3, Martin Hermannsson 2/4 fráköst, Ólafur Már Ægisson 2, Björn Kristjánsson 2, Kristófer Acox 0, Páll Fannar Helgason 0.
 
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Jakob Arni Isleifsson
 
Stiklur:
-Jón Sverrisson lék ekki með Fjölni í kvöld en hann er staddur erlendis í námsverkefni.
-Ægir Þór Steinarsson lék með Fjölni í kvöld en hann hefur verið fjarverandi undanfarið sökum ökklameiðsla.
-Fjölnir setti niður 3 af 20 þristum sínum í leiknum og kvennalið félagsins skaut 13 þristum í gær gegn Njarðvík án þess að hitta, meistaraflokkar félagsins hafa því skorað níu stig í 33 þriggja stiga tilraunum á 80 mínútum síðustu tvö kvöld í Dalhúsum.
-Fjölnir fékk 41 vítaskoti í kvöld, KR fékk 9 eða jafn mörg víti og þeir settu niður af þriggja stiga körfum í leiknum.
 
Myndir og umfjöllun / Jón Björn Ólafsson – [email protected]
Fréttir
- Auglýsing -