spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Breiðablik ósigraðar á heimavelli

Umfjöllun: Breiðablik ósigraðar á heimavelli

Breiðablik tók á móti Haukum í Smáranum í kvöld í leik sem margir héldu að væri ráðinn áður en hann hófst. Svo fór hins vegar ekki og Blikar komu flestum nema sínum eigin stuðningsmönnum á óvart með því að kafsigla Haukastelpum. Lokastaða 92-74.
 

Blikar fóru mjög vel af stað og náðu með góðri vörn og sjóðandi heitri sókn að skora 35 stig í fyrsta gegn aðeins 20 stigum hjá Haukum. Gestirnir vissi varla hvað á sig stóð veðrið og gátu ekki minnkað muninn í öðrum leikhlutanum heldur töpuðu honum sömuleiðis og staðan í hálfleik 56-34 fyrir heimamönnum.

Haukar mættu aðeins beittari í seinni hálfleik og stríddu Breiðablik framan af. Á einum tímapunkti var útlit fyrir að þær rauðklæddu myndu ná að brjóta Blikastelpurnar og þá sérstaklega þegar Ivory Crawford fékk fjórðu villuna sína í þriðja leikhluta og Hildur þjálfari sá sig tilneydda til að skipta henni út af.? Heimastúlkur höktu aðeins eftir það og Haukar gengu á lagið og náðu að minnka muninn í 15 stig. Þá var Crawford aftur skipt inn á og hún leiddi lið sitt á 7-0 áhlaup þar sem hún skoraði 5 stig og gaf stoðsendingu á Sóllilju Bjarnadóttur fyrir hin 2 stigin. Ivory var þá aftur skipt út af og Blikar fóru að rúlla betur.

Í fjórða leikhluta náðu Kópavogsmærarnar á tímabili að breikka bilið í 30 stig en fór síðan að rúlla aðeins á varamannabekknum og sigldu 92-74 sigri í höfn.
 

Þáttaskil

Leikurinn var strax orðinn ójafn í fyrsta leikhluta og Breiðablik hélt áfram að hlaða á nánast allar 40 mínúturnar. Þáttaskilin voru þannig séð um leið og fyrsti fjórðungur kláraðist, en þá höfðu Blikar 15 stiga forskot og létu muninn ekki verði minni en það það sem eftir lifði leiks. Haukastelpur virtust ekki mættar á meðan að Breiðablik virtust reiðubúnar að verja heimavöllinn og láta finna fyrir sér í vörn og sókn.
 

Hetjan

Þær sem stóðu upp úr leiknum voru þær Auður Íris Ólafsdóttir og Ivory Crawford. Þær byrjuðu leikinn sterkt og voru alltaf til taks ef að Blikar þurftu körfu gegn áhlaupi Hauka. Ivory skoraði 12 stig (5/6 í skotum utan af velli) á fyrstu 10 mínútum leiksins og Auður Íris hitti úr öllum þristum sínum í sama leikhlutanum. Þær voru innspýtingin í byrjun sem liðið úr Kópavogi þurfti til að klára leikinn með stæl. Crawford lauk leik með 28 stig, 11 fráköst og 5 stoðsendingar (31 framlagsstig) og Auður skilaði 17 stigum, 6 fráköstum og 4 af 10 í þriggja stiga skotum. Flottur leikur hjá þeim báðum.
 

Tölfræðin lýgur ekki

Léleg skotnýting hjá Haukum virtist gera útslagið í leiknum, en þær hittu aðeins úr 36% skota sinna utan af velli á meðan að Blikastelpurnar hittu úr meira en helmingi skota sinna (52% utan af velli). Góð vítanýting Haukanna (88%, 16/18 í vítum) gat lítið gert til að bæta stöðuna þrátt fyrir slæma vítanýtingu Breiðabliks í leiknum (41%, 5/12 frá vítalínunni).
 

Kjarninn

Svo virðist sem að Blikar séu baneitraðar á heimavelli, þær hafa afgreitt þau tvö lið sem að var spáð á toppinn fyrir byrjun tímabilsins og eru augljóslega varhugaverðar á sínu eigin parketi. Haukar virðast þurfa aðeins að skoða sig eftir heldur andlausan leik gegn liði sem þær áttu að vinna örugglega.

Næsti leikur Breiðabliks er gegn Njarðvík í Ljónagryfjunni á sjálfan kjördag, 28. október, en þær ná vonandi að sækja sinn fyrsta útisigur þar. Haukar þurfa að vera fljótar að hrista þennan leik af sér og fá Keflavík í heimsókn á Ásvelli næsta laugardag.
 

Tölfræði leiks
Myndasafn: Bjarni Antonsson

Viðtöl eftir leikinn:

Auður Íris: Nú er hjartað að verða grænt?
Hildur Sig: Við þurfum að koma svona gíraðar í útileikina líka
Ingvar Þór: Við gleymdum að mæta andlega tilbúnar í þennan leik

Umfjöllun / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Bjarni Antonsson

Fréttir
- Auglýsing -