spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Blikarnir unnu á lokakaflanum gegn Fjölni

Umfjöllun: Blikarnir unnu á lokakaflanum gegn Fjölni

Breiðablik vann Fjölni á föstudagskvöldið í spennuleik í Smáranum þar sem gestirnir leiddu mest allan leikinn. Undir lok leiksins sigu Blikar fram úr og unnu með rosalegri lokakörfu á seinustu sekúndum leiksins, 92-90.
 

Gangur leiksins

Blikar opnuðu fyrir leikinn með fjórum stigum í röð en Fjölnismenn voru fljótir að svara fyrir sig og tóku forystuna eftir að nokkrar mínútur voru liðnar af leiknum. Skotnýting gestanna utan af velli var nokkuð góð í fyrsta leikhlutanum (71.4%) og allt virtist ganga upp hjá þeim á meðan að Breiðabliksmenn voru heldur hógværari í hittni með 42.1% skotnýtingu utan af velli. Staðan eftir fyrsta leikhlutann var 21-28, Fjölni í vil.

Fjölnir héldu áfram að hitta vel í næsta leikhluta og sérstaklega fyrir utan þriggja stiga línuna, en allt virtist vilja fara ofan í hjá þeim. Blikar höfðu skotið mikið af þristum í fyrsta leikhlutanum en fóru nú að reiða sig meira á að fara inn í teig og sækja stigin þannig. Það gekk vel eftir enda gátu þeir minnkað muninn og liðin skildu að í hálfleik í stöðunni 46-48.

Áfram hélt hátt stigaskor í leiknum, en bæði lið voru dugleg að sækja án þess að vera nægilega góð að verjast gegn hinu liðinu. Fjölnir hélt áfram þristaregninu sínu, en þeir settu fleiri þriggja stiga skot í öðrum og þriðja leikhluta en víti eða tveggja stiga skot. Breiðablik var ekki að hitta jafn vel úr þristunum sínum en gættu það upp með sóknarfráköstum og fleiri stigum fyrir innan þriggja stiga línuna. Staðan fyrir lokaleikhlutann var 70-73, gestunum í vil.

Breiðablik héldu áfram í við gestina þrátt fyrir að þeir héldu áfram að setja þrista framan í lokafjórðungnum og það kom loks að því að Fjölnismenn hættu að finna körfuna frá þriggja stiga línunni. Samstillt átak erlendra leikmanna Breiðabliks, Chris Woods á fyrstu 5 mínútum fjórða leikhlutans og Jeremy Smith á seinni 5 mínútunum áttu stóran þátt í því að á lokamínútunum voru Blikar í höggfæri og náðu sigri með því að skora seinustu tvö stigin á lokasekúndunum. Lokastaðan varð að lokum 92-90 fyrir heimamönnum.
 

Þáttaskil

Vatnaskil leiksins urðu þegar 5 mínútur voru eftir af leiknum og Jeremy Smith var skipt inn á fyrir Chris Woods í stöðunni 81-87. Fjölnismenn náðu ekki að skora nema 3 stig gegn 9 stigum Blika það sem eftir lifði leiks og Jeremy átti stóran þátt í því. Hann slökkti á Sam Prescott Jr. hjá Fjölni með góðri vörn og stal tveimur boltum af honum og í stöðunni 90-90 fékk Fjölnir ágætt tækifæri til að endurheimta forystuna en Jeremy náði varnarfrákasti eftir misheppnað skot hjá Sam með örfáar sekúndur á leikklukkunni. Hann smellti fáranlegri hafnarboltasendingu þvert yfir allan völlinn í hendurnar á Árna Elmari Hrafnssyni í hraðaupphlaupi sem náði að setja erfitt sniðskot með rúma sekúndu eftir á klukkunni. Þrátt fyrir að fá tækifæri með leikhléi og innkasti gátu Fjölnismenn ekki lagað stöðuna og sigur Blika því staðreynd.
 

Tölfræðin lýgur ekki

Skotnýting Fjölnis í leiknum var draumi líkast, en þeir settu 15 af 27 þristum niður (55.6%) og 16 af 30 tveggja stiga skotum (53.3%). Vandinn var að í svo naumum leik sem þessum skipta sóknarfráköst og tapaðir boltar máli og Breiðablik fengu 21 fleiri skot utan af velli sem þeir gátu nýtt í að stela sigrinum á lokasekúndunum. Fjölnismenn höfðu betri skotnýtingu og hærra framlag en Blikar í leiknum, en skotnýtingin brást undir lokin og tapaðir boltar reyndust dýrir á lokametrunum.
 

Maður leiksins

Chris Woods og Jeremy Smith deila heiðrinum að sigrinum í kvöld þó að tölfræðin láti það líta út fyrir að Woods hafi verið drjúgari en Smith. Chris Woods skoraði 32 stig, tók 8 fráköst, gaf 2 stoðsendingar og hafði 33 framlagsstig í leiknum. Jeremy Smith var heldur hógværari með 8 stig, 6 fráköst, 2 stoðsendingar og 3 stolna bolta. Málið var að Smith spilaði vörn og undir lokin var það hann sem skilaði liðinu sigri. Báðir mjög mikilvægir fyrir liðið sitt í kvöld. 

 

Kjarninn

Þá eru Blikar áfram í öðru sætinu og Fjölnismenn eiga litla von á að komast í úrslitakeppnina fram fyrir Snæfell. Breiðablik hefur litla von um að fara beint upp, en þeir þyrftu að vinna alla leikina sína og vonast til að Skallagrímur tapaði allavega tveimur (þ.a. einum gegn Blikum). Fjölnismenn eru í svipaðari stöðu, en þeir gætu aðeins komist inn í úrslitakeppnina ef þeir ynnu alla leikina sína sem eftir eru og að Snæfell hætti bara skyndilega að kunna að spila körfu.
 

Tölfræði leiksins

Myndasafn: Bjarni Antonsson

 

Viðtöl eftir leikinn:

[Um lokamínúturnar] "Við fórum bara að stíga út í þá."

[Um lokamínúturnar] "Við fórum bara inn í skelina."

Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Bjarni Antonsson
Fréttir
- Auglýsing -