spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Blikar slógu Valsstúlkur út af laginu í seinni hálfleik

Umfjöllun: Blikar slógu Valsstúlkur út af laginu í seinni hálfleik

Í kvöld mættust Breiðablik og Valur í úrvalsdeild kvenna í Smáranum í seinasta leik liðanna gegn hvort öðru í deildarkeppninni. Breiðablik náði með góðum seinni hálfleik að slá Valsstúlkur út af laginu á báðum endum vallarins og sigruðu að lokum, 81-70.
 

Gangur leiksins

Blikar virtust hafa hrist af sér slenið úr seinasta leik, en þær mættu reiðubúnar í þessa viðureign. Whitney Knight, erlendur leikmaður Blika, var miklu skárri en í seinasta leik, enda skoraði hún næstum jafn mörg stig í fyrsta leikhlutanum og hún skoraði í öllum seinasta leiknum sínum gegn Snæfell (13 stig). Staðan í lok leikhlutans; 20-23 fyrir Val.

Valur vildi hlaupa mikið í fyrstu sem að Blikar áttu aðeins í erfiðleikum með að fylgja, enda skoruðu Valur mikið úr hraðaupphlaupum og munurinn á skortöflunni var lengi sá sami og munurinn í hraðaupphlaupsstigum. Blikar voru að tapa færri boltum en Valsstúlkur, en Valur var að nýta sóknartækifærin sín betur. Heimastúlkur náðu þó að halda aðeins í við þær rauðklæddu og liðin skildu í hálfleik í stöðunni 36-42.

Blikar misstu Valsstúlkur aðeins frá sér í upphafi seinni hálfleiks með slökum sóknum og með því að stíga Val ekki nægilega vel út í sóknarfráköstum. Þær bættu þó upp fyrir það með því að herða vörnina og skora 15 stig gegn fjórum stigum Vals á seinustu fjórum mínútum leikhlutans. Liðin voru jöfn, 54-54, þegar einn leikhluti var eftir.

Breiðablik komu heldur betur stemmdar inn í fjórða leikhluta, en þær byrjuðu á að skora fyrstu 8 stigin á fyrstu 90 sekúndunum. Vandinn var ekki að gestirnir væru eitthvað rólegari en í hinum leikhlutunum, það var meira það að Blikastelpurnar fóru loksins að gefa allt sitt í vörnina og láta boltann flæða í sókninni. Valsstúlkur voru eitthvað andlausar undir lokin og þrátt fyrir að þær næðu að klóra aðeins í bakkann endaði leikurinn með sigri Breiðabliks, 81-70.
 

Þáttaskil

Þáttaskilin urðu um miðjan þriðja leikhlutann þegar að Breiðablik fór að setja meiri orku inn í leikinn sinn og fór að hitta betur úr skotunum sínum. Góða gengið hélt áfram inn í fjórða leikhlutann, vörnin hélt, þær fengu hraðaupphlaup, sóknin rúllaði og Valsstúlkur gátu einhvern veginn aldrei komið til baka.
 

Tölfræðin lýgur ekki

Það sést á tölfræðinni hvernig vörnin hjá Breiðablik skilaði sér í sóknina, en þær skoruðu 21 stig eftir tapaða bolta hjá Val og gáfu 9 fleiri stoðsendingar í leiknum. Slök þriggja stiga nýting Vals átti líka þátt í þessu. Valur, sem hittir yfirleitt úr 33% þriggja stiga skota sinna, þurfti að sætta sig við 22% nýtingu frá þriggja stiga í kvöld.
 

Hetjan

Whitney Knight var mjög mikilvæg fyrir Breiðablik í kvöld, en hún skoraði 30 stig, tók 11 fráköst, stal tveimur boltum og varði tvö skot. Hún endaði með 31 framlagsstig, hæst allra í leiknum. Í hinu liðinu var Aaliyah Whiteside best með 30 stig, 10 fráköst, 3 stoðsendingar og 2 stuldi. Hún endaði með 25 framlagsstig, hæst allra í sínu liði.
 

Kjarninn

Þá eru Blikar aftur komnir á sigurbraut eftir arfaslakan seinasta leik, en Valur lætur eftir toppsætið og Haukar sitja núna efstir í Domino's deild kvenna. Breiðablik og Skallagrímur (sem vann sinn leik gegn Njarðvík) eru núna bæði einum sigri á eftir Stjörnunni sem er í seinasta sæti úrslitakeppninnar. Blikastelpur hefja seinustu heilu umferðina milli liðanna með stæl á meðan að Valsstúlkur þurfa aðeins að girða sig ef að þær vilja verða deildarmeistarar og, það sem mikilvægara er, eiga heimavallarréttinn gegnum alla úrslitakeppnina.

Tölfræði leiksins

Myndasafn: Bjarni Antonsson

 

Viðtöl eftir leikinn:

"Blikaliðið eins og það á að vera."

"Við fengum eitthvað högg á okkur og vorum ekki tilbúnar að taka við því, standa upp og halda áfram."

Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndir / Bjarni Antonsson
Fréttir
- Auglýsing -