spot_img
HomeSubway deildinSubway deild kvennaUmfjöllun: Blikar engin fyrirstaða fyrir KR

Umfjöllun: Blikar engin fyrirstaða fyrir KR

KR tók í gær á móti Breiðabliki í 9. umferð Domino’s deildar kvenna í Vesturbæ Reykjavíkur. Fyrir leikinn voru KR-ingar í öðru sæti deildarinnar með sex sigurleiki og tvö töp, á meðan Blikakonur sátu í næstneðsta sæti með tvo sigra og sex töp. Liðin voru því á andstæðum pólum deildarinnar sem sást vel í leik gærkvöldsins, því í stuttu máli sagt var ljóst frá fyrstu mínútu hvorum megin sigurinn myndi enda.

Eftir tæpan tveggja mínútna leik höfðu Blikar þriggja stiga forystu, 2-5, en það var mesta forysta þeirra í leiknum og eftir að Vesturbæingar komust yfir 6-5 var ekki aftur snúið. KR hreinlega valtaði yfir gestina í fyrri hálfleik og höfðu heimakonur afar þægilegt 30 stiga forskot í hálfleik, 54-24. KR-ingar léku á als oddi, bæði í vörn og sókn, og höfðu gestirnir hreinlega engin svör.

Þó að KR hafi kannski ekki haldið uppteknum hætti í síðari hálfleik var öruggur sigur liðsins aldrei í hættu. Benedikt Guðmundsson þjálfari Vesturbæinga gat leyft sér að hvíla lykilmenn og heimakonur lönduðu þægilegum 30 stiga sigri, 90-60.

Best

Erfitt er að segja að einhver einn leikmaður hafi staðið upp úr hjá KR í leik gærkvöldsins, en Hildur Björg Kjartansdóttir, Sanja Orazovic og Dani Rodriguez áttu allar flottan leik og eru illviðráðanlegt þríeyki. Hildur og Dani skoruðu 21 stig hvor og Sanja bætti við 17, en allar þrjár spiluðu aðeins rúmlega 20 mínútur í leiknum. Hjá Blikum var Danni Williams stigahæst með 14 stig.

Framhaldið

Næsti leikur KR er sannkallaður stórleikur gegn Val, 1. desember næstkomandi í Origo-höllinni, en á sama tíma fær Breiðablik Keflavík í heimsókn í Smárann.

Myndir úr leik gærdagsins frá Báru Dröfn, ljósmyndara Körfunnar má finna hér.

Fréttir
- Auglýsing -