spot_img
HomeFréttirUmfjöllun: Baráttusigur í Stykkishólmi

Umfjöllun: Baráttusigur í Stykkishólmi

22:49

{mosimage}

Nú fyrr í dag mættust Snæfell og Keflavík, í einum af toppleikjum

11. umferðar, í Stykkishólmi. Keflvíkingar telfdu fram nýjum bandarískum

leikmanni Isma´il Muhammad, sem kom í stað Tim Ellis. Leikurinn var sýndur í beinni útsendingu á RÚV.

Það var ljóst alveg frá byrjun að Snæfellingar ætluðu sér sigur í þessum

leik. Þeir skoruðu 6 fyrstu stig leiksins og börðust af miklum krafti um

alla lausa bolta. Það var sem Keflvíkingar væru enn í jólafríi og máttu sín

lítils gegn baráttuglöðum heimamönnum. Það var svo Þröstur L. Jóhannson sem

kom Keflvíkingum á blað með góðri körfu. Þöstur var þarna í fyrsta skipti í

byrjunarliði Keflavíkur. Nokkuð jafnræði var svo með liðunum framan af

leikhlutanum en Snæfell seig þó smátt og smátt fram úr. Að loknum fyrsta

leikhluta höfðu Snæfellingar 9 stiga forskot, 29-20.

{mosimage}

Í öðrum leikhluta héldu Snæfellingar áfram að berjast af mikilli hörku og

áttu Keflvíkingar fá svör gegn framvarðarsveit heimamanna. Greinilegt var að

þeir söknuðu Danans stóra, Thomas Soltau, sem lék ekki með vegna meiðsla í

hásin. Snæfell fór mikinn í fráköstum og tóku 17 slík í öðrum leikhluta á

móti aðeins 5 hjá Keflavík. Keflavík náði þó að minnka muninn niður í 5 stig

í öðru leikhluta, 39-34, en í hálfleik var staðan 47-37 fyrir heimamenn.

{mosimage}

Í fyrri hálfleik var Gunnar Einarsson allt í öllu hjá Keflvíkingum og

skoraði 15 stig en hjá Snæfell voru Hlynur Bæringsson og Sigurður

Þorvaldsson með 12 stig hvor. Einnig kom Jón Ólafur Jónsson sterkur inn af

bekknum fyrir Snæfell.

Þriðji leikhluti var margt um líkt fyrstu tveimur, Snæfell hélt þægilegri

forystu og hélt áfram yfirburðum í fráköstunum. Magnús Gunnarsson vaknaði

til lífsins fyrir Keflavík og skoraði 7 stig af þeim 13 sem Keflavík skoraði

í leikhlutanum. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 66-50 heimamönnum í

vil.

{mosimage}

Í fjórða leikhluta náðu Keflavík að gera nokkuð gott áhlaup að forystu

heimamanna og minnkuðu muninn niður í 10 stig en nær komust þeir ekki.

Mótlætið virtist fara illa í gestina og brutu þeir mikið á heimamönnum.

Snæfell komst fljótt í bónus og fengu alls 13 víti í leikhlutanum en skoruðu

aðeins úr 7 þeirra. Keflavík vann síðasta leikhlutann 17-14 og þar af

skoruðu þeir 5 þriggja stiga körfur. Þegar tæpar 2 mínútur voru eftir af

leiknum fékk Isma´il Muhammad dæmda á sig óíþróttamannslega villu fyrir að

slá til Hlyns Bærings. Lokatölur voru 80-67 fyrir Snæfell.

{mosimage}

Atkvæðamestir hjá Snæfell voru Justin Shouse með 22 stig og 6 stoðsendingar,

Sigurður Þorvaldsson með 20 stig, Jón Ólafur Jónsson með 16 stig og 9

fráköst og Hlynur Bæringsson með 15 stig, 15 fráköst og 7 stoðsendingar.

Hjá Keflavík var Magnús Gunnarsson með 19 stig, þar af 5 þriggja stiga

körfur og Gunnar Einarsson með 18 stig og 4 stolna bolta. Lítið sást til

Isma´il Muhammad, en hann skoraði aðeins 5 stig og tók 6 fráköst.

Tölfræði leiksins

texti og myndir: Andrés Már Hreiðarsson

Fréttir
- Auglýsing -