spot_img
HomeFréttirUm þúsund manns fylgdust með Skallagrím fara upp um deild

Um þúsund manns fylgdust með Skallagrím fara upp um deild

Tæplega 1000 manns fylgdust með þegar Skallagrímur tryggði sér sæti í úrvalsdeild á nýjan leik með öruggum sigri á ÍA í oddaviðureign liðanan í 1. deild karla. Fjósið var í fantagír, áhorfendur beggja liða fóru á kostum og það var uppselt löngu fyrir leik, færri komust að en vildu! Skagamenn kveðja þetta tímabil sem spútniklið deildarinnar en Borgnesingar fara upp í úrvalsdeild ásamt sigurvegurum deildarinnar, KFÍ.
Skallagrímur lék síðast í úrvalsdeild tímabilið 2008-2009 og munu nú á næstu leiktíð leika í deild þeirra bestu, sé tekið mið af fjörinu í Fjósinu í kvöld verður um erfiðan útivöll að ræða fyrir 11 önnur úrvalsdeildarlið.
 
Danny Sumner var með læti á upphafsmínútunum, varið skot og myndarleg troðsla og stúkan tók kipp sem kom fram á skjálftamælum. Skagamenn byrjuðu þó betur en í stöðunni 5-10 fyrir gestina bitu heimamenn frá sér og leiddu 21-12 eftir fyrsta leikhluta.
 
Síðustu sex mínúturnar í fyrsta leikhluta skoraði ÍA aðeins tvö stig en þeir jöfnuðu sig á þurrðinni snemma í öðrum leihluta en Borgnesingar höfðu frumkvæðið. Sama hvað heimamenn reyndu tókst þeim ekki að stinga af, Áskell Jónsson setti langþráðan þrist fyrir ÍA og minnkaði muninn í 41-35 en staðan var 43-39 í háflleik. Gestirnir komust inn í sendingu á lokasekúndunum og skoruðu flautukörfu sem þó var dæmd af.
 
Darrell Flake var með 15 stig í hálfleik hjá Skallagrím og Sumner 13 en hjá ÍA var Áskell beittastur í sóknarleiknum með 12 stig og Lorenzo McClellan 10 en skotnýting kappans var ekki góð og þá hafði Terrance fremur hægt um sig.
 
Með sæti í úrvalsdeild í húfi mættu Borgnesingar með læti í síðari hálfleikinn, Lloyd Harrison og Sumner fóru mikinn, þá sérlega Harrison og reyndist hann Skagamönnum erfiður í vörninni, stelandi boltum hér og hvar og keyrandi vel í bakið á gestunum. Áhlaupið varð í fyrstu 9-2 fyrir Skallana og staðan 66-54 fyrir lokasprettinn.
 
Skallagrímur gerði út um leikinn á upphafsmínútum fjórða leikhluta, þegar fimm mínútur lifðu leiks var staðan 80-58 þar sem lokatölur reyndust svo 89-67 og gríðarleg fagnaðarlæti brutust út í Fjósinu þegar sigurinn var í höfn.
 
Grannaglíma sem fer í oddaleik, það veit bara á gott. Einvígi Skallagríms og ÍA var 1. deildinni til sóma, Skagamenn geta borið höfuð hátt sem nýliðar í 1. deild og klárlega spútniklið tímabilsins. Borgnesingar voru líklegir frá byrjun tímabils og undirstrikuðu gæði sín í kvöld og hlutu í verðlaun sæti í úrvalsdeild.
 
Til hamingju Borgnesingar!
 
Byrjunarliðin:
 
Skallagrímur: Lloyd Harrison, Sigmar Egilsson, Egill Egilsson, Danny Sumner, Darrell Flake.
ÍA: Lorenzo McClelland, Áskell Jónsson, Hörður Nikulásson, Dagur Þórisson, Terrence Watson.
 
Heildarskor:
 
Skallagrímur: Danny Rashad Sumner 26/10 fráköst/4 varin skot, Lloyd Harrison 23/11 fráköst/5 stoðsendingar/6 stolnir, Darrell Flake 19/10 fráköst/7 stoðsendingar, Sigmar Egilsson 11/5 fráköst/7 stoðsendingar, Hörður Helgi Hreiðarsson 7/4 fráköst, Davíð Guðmundsson 3, Davíð Ásgeirsson 0, Hilmar Guðjónsson 0, Óðinn Guðmundsson 0, Egill Egilsson 0/5 fráköst/5 stoðsendingar, Elvar Þór Sigurjónsson 0, Elfar Már Ólafsson 0. 
 
ÍA: Áskell Jónsson 20/7 fráköst, Lorenzo Lee McClelland 18/5 fráköst/6 stoðsendingar, Terrence Watson 10/13 fráköst/6 stoðsendingar/4 varin skot, Dagur Þórisson 9/4 fráköst, Hörður Kristján Nikulásson 4, Sigurður Rúnar Sigurðsson 3, Birkir Guðjónsson 3, Böðvar Sigurvin Björnsson 0, Oddur Helgi Óskarsson 0, Ómar Örn Helgason 0, Örn  Arnarson 0, Trausti Freyr Jónsson 0.
 
Fréttir
- Auglýsing -