spot_img
HomeFréttirUm leikinn er ekkert að segja

Um leikinn er ekkert að segja

Enn var tölfræðilegur möguleiki fyrir FSu að komast í úrslitakeppni 1. deildar karla þegar síðasti heimaleikur liðsins hófst í kvöld, gegn Vængjum Júpíters. Til þess þurftu þó bæði Breiðablik og Hamar að tapa sínum leikjum. Útilokað var í sjálfu sér að Hamar myndi tapa fyrir Augnabliki en ekki hefði öllum komið það á óvart ef Þór að norðan hefði unnið Blikana. Að leikslokum kom í ljós að vonin, ef einhver bar hana í brjósti, var útópía. Bæði Hamar og Blikar unnu sína leiki og Breiðablik fer því verðskuldað í úrslitakeppnina, eftir að hafa jarðað Norðanmenn með 30 stigum í Smáranum. Með sigri á ÍA hirti Fjölnir 2. sætið af Þór á síðustu stundu, sem var kannski gæfa Þórsara, því þeim hentar betur að leika gegn Hetti en Breiðabliki í undanúrslitunum. Undirritaður leyfir sér að spá því að Fjölnir og Þór leiki til úrslita um að fylgja Stólunum upp og Fjölnir hafi betur í þeim þeim slag.
 
En að leiknum í Iðu. Um hann er ekkert að segja. Vængirnir fallnir og FSu. hafði ekkert að gera í kvöld annað en að kveðja keppnistímabilið og hörðustu stuðningsmenn sína (fáeina foreldra og nána fjölskyldumeðlimi leikmanna, nokkra fyrirmyndarfélaga í Íþróttafélaginu Suðra auk Bjössa á Borg, Óskars Atla og Kalla Hannibals) á jákvæðum nótum. Það gerðu leikmenn liðsins. Allir komust á blað, Erik Olson vann sem sannur jafnaðarmaður og allir leikmennirnir spiluðu meira en 10 mínútur og komu boltanum í körfuna. Vel gert. Drengjaflokksliðið spilaði óstutt langtímum saman. Collin Pryor skoraði mest, 20 stig, tók 14 fráköst, gaf 8 stoðsendingar, skilaði 77% nýtingu og 41 framlagsstigi. Hlynur Hreinsson var eldheitur fyrir utan þriggjastigalínuna á tímabili í seinni hálfleik en að öðru leyti gekk þetta að mestu snuðrulaust fyrir sig. Helst að liðið réði á köflum ekki nógu vel við hraðann sem greinilega var planað að keyra upp og sumar sóknirnar urðu fyrir vikið endasleppar. En 43ja stiga sigur, 107-64 var síst of stór. Einbeiting í slíkjum leikjum er hins vegar fátíð.
 
Vængirnir voru ekkert að stressa sig, reyndu að hafa gaman af þessu og sýndu inn á milli að í liðinu eru góðir körfuboltamenn, þó þeir hafi æfingarnar ekki endilega efst á forgangslistanum um þessar mundir. Sindra Kárason þekkja t.d. allir sem eitthvað hafa fylgst með boltanum og hann var öflugastur gestanna með 20 stig og eitthvað fleiri fráköst held ég en þau 4 sem skráð eru á stattinu. Sindri hefur áður verið í betra formi en nú, og það sama má segja um aðra leikmenn liðsins. Það var líka skarð fyrir skildi að Brynjar Kristófersson var ekki með, þrælgóður leikmaður sem sýndi það í fyrri leik liðanna að er í hörkuformi og gæti byrjað í flestum sterkustu liðunum í deildinni.
 
Að lokum verður að geta dómaranna sem áttu góðan dag þegar á heildina er litið. Jón Bender kom með sína alþekktu ró og yfirvegun sem sveif yfir vötnum og hafði góð áhrif á alla í húsinu og fyrir vikið naut Hákon sín vel. Má segja að þetta sé fyrsti leikurinn sem er vel dæmdur hjá FSu-liðinu í vetur. Ekki var seinna vænna.
 
En undirritaður þakkar sínu liði fyrir skemmtilegan, en skrykkjóttan vetur. Einn sigur af þessum fjölmörgu naumu tapleikjum hefði tryggt sæti í úrslitakeppninni. Eftir á að hyggja eru leikirnir gegn Hamri, Þór og heimaleikurinn gegn Hetti sárgrætilegir tapleikir (heil 10 stig í súginn) sem sýna fyrst og fremst að Fsu-liðið er ungt og skortir stöðugleika. Hæfileikarnir eru nógir og ef kjarni leikmanna og þjálfarateymi heldur áfram eru því allir vegir færir.
 

FSu-Vængir Júpiters 107-64 (30-13, 22-27, 35-10, 20-14)

FSu: Collin Anthony Pryor 20/14 fráköst/8 stoðsendingar, Hlynur Hreinsson 16/4 fráköst, Erlendur Ágúst Stefánsson 13/4 fráköst/6 stoðsendingar, Svavar Ingi Stefánsson 11/6 fráköst, Birkir Víðisson 10, Geir Elías Úlfur Helgason 10, Ari Gylfason 9/4 fráköst/5 stoðsendingar, Arnþór Tryggvason 6/11 fráköst, Maciej Klimaszewski 6/6 fráköst, Gísli Gautason 4, Þórarinn Friðriksson 2.

Vængir Júpiters: Sindri Már Kárason 20/4 fráköst, Árni Þór Jónsson 13, Hörður Lárusson 10/7 fráköst, Eiríkur Viðar Erlendsson 8, Bjarki Þórðarson 7, Eysteinn Freyr Júlíusson 4/9 fráköst, Óskar Hallgrímsson 2, Jón Rúnar Arnarson 0/4 fráköst.

Dómarar: Jón Bender, Hákon Hjartarson 

Texti:Gylfi Þorkelsson
 
Fréttir
- Auglýsing -