spot_img

Karfan.is

Sagan og ritstjórn

Davíð Eldur

Ritstjóri

Ólafur Þór Jónsson

Ritstjóri

Elías Karl Guðmundsson

Ritstjóri

Sigurður Orri Kristjánsson

Ritstjóri

Karfan.is hóf göngu sína á veraldarvefnum þann 14. desember árið 2005. Stofnendur síðunnar voru þeir Jón Björn Ólafsson, Davíð Ingi Jóhannsson og Ingvi Steinn Jóhannsson. Hjörtur Guðbjartsson sá um tæknilegan undirbúning að vefsíðunni og notaði til þess vefforritið Joomla. Árið 2009 tók vefsíðan stakkaskiptum þegar Sæþór Orri Guðjónsson kom Karfan.is inn í Smartwebber vefumsjónarforrit en honum til aðstoðar var sérlegur tæknimaður Karfan.is, Skúli B. Sigurðsson. Nýtt útlit síðurnar var í höndum Skúla. Frá stofnun Karfan.is hefur síðan verið vistuð af Greind en með tilkomu nýrrar síðu síðla árs 2009 færðist vistunin yfir til Smartmedia.

Í september 2016 tók við ný ritstjórn á Karfan.is en þá viku úr ritstjórn Jón Björn Ólafsson, Skúli Björgvin Sigurðsson og Hörður D. Tulinius. Við ritstjórninni tóku Ólafur Þór Jónsson og Davíð Eldur Baldursson.

Davíð Ingi Jóhannsson hannaði upprunalega lógó (kennitákn) síðunnar og á höfundarréttinn að merkinu. Kennimerkið var hluti af körfunni frá stofnun 2005 og allt til haustsins 2018.Sumarið 2018 hófst vinna við nýja síðu sem Daníel Rúnarsson hjá fyrirtækinu Kasmír setti upp. Þar með var horfið frá fyrra kerfi og ný síða sett upp á Wordpress. Við það tækifæri var ákveðið að endurhanna lógó síðunnar og var það Stefán Rafn Sigurbjörnsson sem hannaði það og á höfundarréttinn að merkinu.Á haustdögum 2018 urðu svo breytingar á ritstjórn og eignarhaldi Körfunnar. Þeir Jón Björn Ólafsson, Skúli B. Sigurðsson og Hörður Tulinius viku úr eigendahóp eftir margra ára starf. Á sama tíma var fjölgað í ritstjórn Körfunnar og inní hana komu þeir Sigurður Orri Kristjánsson og Elías Karl Guðmundsson.

Tilurð Körfunnar var sú að stofnendur síðunnar sáu glöggt að víða var pottur brotinn í umfjöllun um íslenskan körfuknattleik og þá sér í lagi þegar tekið er tillit til neðri deilda og yngri flokka. Síðunni var ekki ætlað að keppa í umfjöllun við fjölmiðla landsins enda hefur Karfan.is allt frá upphafi verið rekin af sjálfboðaliðum sem gefið hafa vinnu sína og tíma til handa íþróttinni. Vonast er til að svo megi verða um ókomin ár.

Gestum síðunnar hefur fjölgað jafnt og þétt frá stofnun árið 2005 og í dag skipta vikulegir gestir þúsundum og kunna forsvarsmenn Karfan.is lesendum sínum bestu þakkir fyrir vikið.

Karfan er ávallt í leit að nýjum sjálfboðaliðum sem sjá sér fært um að efla umfjöllun á síðunni þá sér í lagi þeir sem gætu hugsað sér að skrifa um eða ljósmynda körfubolta.

Á lokahófi KKÍ 2008 fékk Karfan.is sérstök heiðursverðlaun KKÍ fyrir óeigingjarnt starf í þágu körfuboltans á Íslandi.