spot_img
HomeFréttirÚlfarnir mega bíða eftir Ægi

Úlfarnir mega bíða eftir Ægi

 
Ægir Þór Steinarsson verður áfram hjá Fjölni fyrst um sinn, hann mun líkast til ná um 5-7 deildarleikjum með liðinu í Iceland Express deild karla sem og nokkrum bikarleikjum en halda að þeim loknum til Bandaríkjanna í nám. Tómas Heiðar Tómasson félagi Ægis úr Fjölni er þegar farinn út en Ægir þarf að gangast undir stöðupróf á nýjan leik og getur því hafið tímabilið með Fjölni en ekki lokið því. Tómas og Ægir vöktu athygli fyrr á árinu þegar þeir sömdu við sama háskólann, Newberry.
,,Það kom upp að ég skoraði aðeins of lágt í SAT prófinu, það olli því að það verður smá seinkun á því að ég fari til Newberry,“ en skólaliðið gengur undir nafninu Newberry Wolves. Ægir mun því ganga í úlfahjörðina í seinna fallinu.
 
,,Maður býr bara til eitthvað jákvætt úr þessu enda munaði svo litlu, var grátlega nærri þessu,“ sagði Ægir sem var allur þó hinn hressasti. ,,Karfan byrjar seint þarna úti og ég missi ekki af mörgum leikjum, þetta gætu verið um sex leikir í heildina sem ég missi af en ef allt gengur upp næ ég fyrsta leik með liðinu í kringum 10. desember svo þetta er enginn heimsendir.“
 
Fyrir liggur að Ægir gangist undir annað SAT próf í byrjun október eða nóvember. ,,Það verður erfitt að byrja tímabilið með Fjölni og fara svo, maður gæti lent í skrýtinni stöðu en við tökum bara á þeim málum þegar að því kemur,“ sagði Ægir og þó Fjölnismenn fagni því að hafa Ægi framan af tímabili verður skarð hans vandfyllt þegar kappinn hverfur á braut.
 
Fréttir
- Auglýsing -