Strákarnir í U18 ára landsliðinu máttu sætta sig við súrt tap gegn Finnum í dag en íslenska liðið lenti undir snemma og var lungann úr leiknum að komast á ný upp að hlið þeirra finnsku. Það hafðist en Finnar reyndust sterkari í andaslitrum leiksins og unnu leikinn 91-97. Dagur Kár Jónsson var stigahæstur í íslenska liðinu með 25 stig og 3 fráköst en næstur honum var Hugi Hólm með 15 stig og 9 fráköst. Íslenska liðið fær hrós fyrir að gefast aldrei upp og láta ekki stinga sig af heldur áttu okkar menn raunhæfan möguleika á því að ræna Finna um hábjartan dag en þjófavörn þeirra virkaði að þessu sinni.
Finnar léku „aggressíva“ maður á mann vörn frá fyrstu mínútu og nýttu hæð sína vel og náðu 13-21 forystu. Maciej Baginski var framan af helsti sóknarbroddur íslenska liðsins en undir lok fyrsta leikhluta mætti Dagur Kár Jónsson með fjögur íslensk stig í röð og minnkaði muninn í 18-22 og þannig stóðu leikar eftir fyrsta hluta. Ísland sendi fimm þrista á loft í fyrsta leikhluta og vildi enginn þeirra niður, okkar menn þurftu reyndar að bíða ansi lengi eftir fyrsta þristi leiksins.
Finnar voru alltaf litlu barnaskrefi á undan íslenska liðinu í öðrum leikhluta, Maciej Baginski lenti í villuvandræðum og áður en fyrri hálfleikur var úti var hann kominn með fjórar villur. Hugi Hólm færði Ísland nærri er hann tók sóknarfrákast og skoraði í kjölfarið, minnkaði muninn í 31-33. Íslenska liðið náði ekki að jafna og Finnar leiddu 38-39 í leikhléi en Ísland vann annan leikhluta 20-17 þar sem Maciej var kominn með 10 stig, Dagur Kár 8 og Hugi Hólm var með 7 stig og 3 fráköst og íslenska liðið 0 af 10 í þristum.
Síðari hálfleikur hófst á háu nótunum fyrir íslenska liðið en þá setti Dagur Kár Jónsson niður þrist og kom Íslendingum yfir, 41-39. Finnar voru ekkert á því að láta forystuna af hendi og með hinn öfluga Oskar Michelsen í broddi fylkingar gerðu þeir 10-0 áhlaup og komust í 41-49. Nú til að bæta gráu ofan á svart þá fékk Maciej Baginski sína fimmtu villu þegar fimm mínútur lifðu af þriðja leikhluta. Dómurinn var þungur og sakirnar litlar en engu að síður hætta á að þetta myndi gerast með Maciej inni á spilandi á fjórum villum.
Íslendingar létu það fara nokkuð í taugarnar á sér í dag hversu fast Finnar fengu að spila og þúsund vatna menn juku muninn upp í 12 stig, 47-59. Ísland barði sér þó leið til baka og minnkaði muninn í 61-65 með sterku gegnumbroti hjá Pétri Rúnari en Finnar lokuðu þriðja hluta með 3-7 spretti og leiddu því 64-72 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
Framan af fjórða leikhluta virtist þessi „næstum því“ hjalli óyfirstíganlegur en það rofaði til þegar hinn mjög svo málglaði Ray Ailus þjálfari Finna fékk dæmt á sig tæknivíti fyrir mótmæli. Íslenska liðið fékk byr í seglinn og Jón Axel Guðmundsson kom Íslandi yfir 87-86 þegar tvær og hálf mínúta lifðu leiks. Lokaspretturinn varð æsispennandi, pressuvíti á hverju strái, bæði lið með skotrétt, 90-90, en leikurinn færðist töluvert á vítalínuna og þar lögðu Finnar okkur, því miður. Finnar komust í 91-94 af línunni og Íslendingar reyndu þrist til að jafna þegar 8,5 sekúndur voru eftir en sá vildi ekki niður frekar en fimmtán aðrar tilraunir í leiknum, 2 af 17 í þristum þennan daginn á meðan Finnar settu átta yfir hausamót íslenska liðsins. Lokatölur 91-97 en uppúr stendur góð barátta íslenska liðsins.
Dagur Kár Jónsson gerði 25 stig og tók 3 fráköst, Hugi Hólm var með 15 stig og 9 fráköst, Jón Axel Guðmundsson gerði 14 stig og tók 6 fráköst og þá var Maciej Baginski með 10 stig en lék lítið þar sem hann var í villuvandræðum í dag.
Fyrsti ósigur U18 ára karlaliðsins því staðreynd en liðið leikur annan stórleik á morgun gegn heimamönnum í Svíþjóð.
Viðtal við Pétur Rúnar Birgisson eftir leik



