spot_img
HomeFréttirU18 kk: Frábær síðari hálfleikur afgreiddi Svía

U18 kk: Frábær síðari hálfleikur afgreiddi Svía

Hér að neðan fer bein textalýsing úr viðureign Íslands og Svíþjóðar í U18 ára flokki karla.  
 
 
– Viðtal við Maciej Baginski eftir leik
 
 
– Maciej Baginski fór mikinn í kvöld með 36 stig í íslenska liðinu en þá var hann einnig með 6 fráköst og 4 stoðsendingar. Dagur Kár Jónsson bætti við 27 stigum og 5 stoðsendingum og þá var Pétur Rúnar Birgisson með 19 stig og 4 stoðsendingar. Hugi Hólm var einnig traustur með 5 stig, 8 fráköst og tvo stolna bolta. Tölfræði leiksins.
 
– 4. leikhluti
 
– LEIK LOKIÐ og góður 103-87 sigur hjá íslenska liðinu!
 
– Baginski heldur áfram að kvelja þá sænsku, skorar og fær villu að auki og setur vítið og kemur Íslandi í 100-84 og er þar með kominn með 36 stig! Hugi Hólm og Pétur Rúnar fara af velli og íslensku áhorfendurnir gefa þeim myndarlegt og verðskuldað lófatak.
 
– 1.23mín eftir og Maciej Baginski smellir niður tveimur vítum og breytir stöðunni í 95-82. Þetta er í höfn hjá okkar mönnum, vel af sér vikið!
 
– Hugi Hólm réttur maður á réttum stað…sóknarfákast hjá kappanum sem skoraði, fékk villu að auki og skoraði úr vítinu og kom Íslandi í 91-80. Hugi búinn að vera ódrepandi í kvöld, kannski ekki drekkhlaðin stat-lína hjá stráknum en hann er í bullandi yfirvinnu allan leikinn, dugnaðarforkur.
 
– Hér steinlá einn kafloðinn þristur frá Degi Kár Jónssyni sem kom Íslendingum í 88-80 og 3.58mín til leiksloka. Svíar báðu strax um leikhlé.
 
– 85-79 Pétur Rúnar að skora fyrir Ísland og kominn með 19 stig, Pétur hefur verið virkilega flottur í kvöld.
 
– 83-79 og 5mín eftir af leiknum, hér gerast hlutirnir hratt og æsilegur lokasprettur framundan. 
 
– 78-73 fyrir Ísland og 6.00mín til leiksloka.
 
– 76-71 og heimamenn í Svíþjóð byrja með látum, Jordan Peltier að gera Íslendingum skráveifu en hann hefur verið heitur fyrir utan. Ingi Þór tekur leikhlé fyrir Ísland þegar 8.14mín eru til leiksloka.
 
– Maciej Baginski opnar með þrist og 76-64…strákurinn kominn með 29 stig.
 
(Þorgeir Blöndal og Hugi Hólm)
 
– 3. leikhluti
 
– 73-64 og þriðja leikhluta er lokið, Ísland vann leikhlutann 31-16! Magnaður leikhluti hjá okkar mönnum…leikinn sem liðsheild.
 
– 69-59 Dagur Kár með þrist eftir stoðsendingu frá Maciej Baginski og munurinn kominn upp í 10 stig á nýjan leik.
 
– 66-59…Svíar ætla ekki að láta stinga sig af og 2.25mín eftir af öðrum leikhluta þegar Ingi Þór tekur leikhlé fyrir Ísland. 
 
– 62-51 Maciej Baginski smellir niður þrist fyrir Ísland og kappinn kominn með 26 stig, 4.00mín eftir af þriðja leikhluta.
 
– Smá töf á framkvæmd leiksins núna á meðan dómarar eiga hér í samskiptum við aðila á ritaraborðinu.
 
– 56-51 og Svíar skora sín fyrstu stig í síðari hálfleik eftir fjórar mínútur en það var þristur sem rataði heim hjá þeim.
 
– 52-48 og Íslendingar eru í fantaformi, pressan þétt og Svíar komast hvorki lönd né strönd, 10-0 byrjun og heimamenn taka leikhlé. 7.19mín eftir af þriðja.
 
– Maciej með tvö víti og kemur Íslandi yfir 50-48 og 8-0 byrjun Íslands í síðari hálfleik, flott vinnsla á strákunum og líf í vörninni. 
 
– 48-48 og Hugi Hólm jafnar! Flott stoðsending hjá Degi Kár og Ísland opnar síðari hálfleik með 6-0 kafla. Flott byrjun hjá strákunum.
 
– 44-48 Maciej Baginski með þrist…hressandi að sjá þá fara niður enda aðeins 2 af 14 sem vildu fara heim í fyrri hálfleik.
 
– Þá er síðari hálfleikur hafinn og Íslendingar tefla fram Degi Kár, Pétri Rúnari, Eysteini Bjarna, Maciej og Huga Hólm.
 
– Síðari hálfleikur hefst eftir örskammastund
 
Skotnýting Íslands í hálfleik
Tveggja 37,5% – þriggja 14,3% – víti 75%
 
(Tómas Hilmarsson)
 
– 2. leikhluti
 
– 42-48…fyrri hálfleik lokið og honum lokaði Dagur Kár Jónsson með tveimur erfiðum stigum. Ísland vann annan leikhluta 21-16 og okkar menn ætluðu ekkert að láta stinga sig af og börðust vel síðustu mínúturnar í öðrum leikhluta.
 
– 40-48 og 8 sekúndur eftir þegar Íslendingar taka leikhlé, flott barátta í íslenska liðinu hér undir lok annars leikhluta enda Svíar komnir á kafla með 20 stiga forystu sem nú er komin niður í 8 stig.
 
– 37-46, munurinn kominn undir 10 stiga múrinn og 1.04mín til hálfleiks.
 
– Maciek Klimaszewski með eitt víti og minnkar muninn í 34-44 og áhlaup Íslands orðið 8-0, Klimaszewski er að koma sterkur inn í miðherjastöðuna og berst vel, ekki margar mínúturnar sem hann hefur fengið þetta Norðurlandamótið en hann er að finna sig núna gegn Svíum.
 
– 30-44 og 4-0 kafli hjá íslenska liðinu sem er farið að pressa og reynir að hleypa ládeyðunni sinni upp í smá fjör…og það bætist í kætið því Ísland er búið að gera 7 stig í röð og minnka muninn í 33-44 og 3.48mín í hálfleiks og Svíar taka leikhlé.
 
– 26-44 og sænskur þristur fellur þegar fimm mínútur eru eftir af öðrum leikhluta…íslenska liðið biður um leikhlé.
 
– 24-41 og 6.30mín eftir af öðrum leikhluta. Þetta er ekki fögur sjón í augnablikinu, fimm á fullu í sólóverkefnum hjá íslenska liðinu og vantar alla samstöðu í okkar menn. 
 
– 24-39 og Maciej Baginski kominn með 14 stig af 24 stigum Íslands til þessa. Vantar meiri brodd í sóknarleik íslenska liðsins en Svíar eru að spila sterka maður á mann vörn.
 
– 24-36 og tvær mínútur liðnar af öðrum leikhluta. Nýting Svía hefur verið til fyrirmyndar, t.d. 60% í teignum og 80% í þriggja stiga í fyrsta leikhluta!
 
– Annar leikhluti er hafinn.
 
(Jón Axel Guðmundsson setur í gang eina sókn í fyrsta leikhluta)
 
– 1. leikhluti
 
– Fyrsta leikhluta lokið og staðan 21-32 fyrir Svíþjóð. Okkar menn þurfa að herða róðurinn í vörninni, óásættanlegt að hleypa á sig 32 stigum á 10 mínútum.
 
 - 17-30 og 1.16mín eftir af fyrsta, Svíar eru ófeimnir við að senda Íslendinga á línuna enda vítaskotin orðin 14 talsins og 11 þeirra hafa ratað rétta leið. 11 af 19 stigum liðsins komin af vítalínunni og íslenska liðið aðeins búið að fá dæmdar á sig tvær villur gegn 9 hjá Svíum svo það þarf ekkert að grennslast frekar um það hvort liðið er að leika almennilega vörn – Ísland búið að fá á sig 30 stig á 9 mínútum!
 
– 16-25 og þrjár mínútur eftir af fyrsta leikhluta, fínt jafnvægi á leik Svía, þeir sundurspila íslensku vörnina og koma boltanum inn-út og finna oftar en ekki besta kostinn gegn íslensku vörninni og það er illt viðureignar. Ingi Þór tekur leikhlé þegar 2.40mín eru eftir af fyrsta leikhluta enda tímabært að stoppa í götin í vörninni.
 
– 11-16 Maceij Baginski með fjögur stig í röð fyrir Ísland…það eimir greinilega enn af þristafjörinu úr kvennaleiknum í herbúðum Svía því heimamenn eru 4-4 í þristum og staðan 11-19.
 
– 7-14 og Svíar bíta frá sér með 10-0 áhlaupi. Ingi Þór gerir þá eina skiptingu. Pétur Rúnar kemur inn fyrir Dag Kár.
 
– 7-4 Dagur Kár með stökkskot við endalínuna…Svíar hafa dælt inn á stóru mennina sína en þeir klára illa í kringum körfuna og eru fremur klunnalegir, Hugi og Tómas mega þó hafa sig alla við í frákastabaráttunni.
 
– Svíar gera fyrstu stig leiksins en Tómas Hilmarsson jafnar strax fyrir Ísland, 2-2. 
 
– Leikurinn er hafinn og það er Ísland sem vinnur uppkastið.
 
– Byrjunarlið Íslands: Dagur Kár Jónsson, Jón Axel Guðmundsson, Hugi Hólm, Maciej Baginski og Tómas Hilmarsson.
 
– Íslensku piltarnir í 18 ára liðinu hafa unnið tvo leiki og tapað einum en Svíar hafa tapað tveimur leikjum og unnið einn. 
 
– Um fimm mínútur eru í leik en mögulega verður nokkurra mínútna töf þar sem á eftir leika þjóðsöngva fjögurra þjóða áður en leikar geta hafist. 
 
Fréttir
- Auglýsing -