spot_img
HomeFréttirU18 karla: Förum brattir til Solna á þriðjudag

U18 karla: Förum brattir til Solna á þriðjudag

Einar Árni Jóhannsson stýrir U18 ára karlaliði Íslands á NM sem hefst í Solna næstkomandi miðvikudag. Menn halda brattir til Svíaveldis að sögn Einars og fyrsta markmiðið, að ná í sigur gegn Dönum á miðvikudagskvöld.
,,Hópurinn minn er nokkuð reyndur og þessir strákar hafa margir hverjir spilað lengi saman.  Kjarninn myndaðist í raun í U15 árið 2009 þegar við fórum á Copenhagen Invitational en þar unnum við alla leiki og þar með mótið og sjálfstraustið í hópnum varð töluvert.  Árið 2010 fórum við svo með örlítið breytt lið á NM í U16 og renndum kannski svolítið blint í sjóinn þar.  Liðið var aftur á móti að spila mjög vel og efldist í raun í hverjum leik og sigrar gegn Svíum og Dönum gáfu okkur mikið sjálfstraust enda bæði með mjög sterka hópa og Finnar í raun líka. Mikil samheldni einkenndi þennan hóp og úrslitaleikurinn á NM fyrir tveimur árum bar þess glöggt merki.  Varnarleikur liðsins var mjög sterkur, og við héldum til að mynda Svíum í 15 stigum í síðari hálfleik úrslitaleiksins ef ég man rétt og sigruðum þann leik með miklum yfirburðum," sagði Einar sem heldur inn í lokaundirbúning liðsins um helgina.
 
,,Það hafa þrjár breytingar átt sér stað á hópnum síðan á NM fyrir tveimur árum og það er svosem ekkert leyndarmál að það er missir í Matthíasi Orra Sigurðarsyni og Þorgrími Kára Emilssyni sem voru báðir í spilakjarna liðsins í bæði U15 og U16.  En eins og einhversstaðar segir þá kemur maður í manns stað og þessir þrír sem hafa bæst við hópinn eru strákar sem hafa verið í hlutverkum í ´95 liðinu í bæði U15 og U16 og hafa því orðið fína reynslu eins og strákarnir sem fyrir eru. Við æfðum vel um síðustu helgi og þessir strákar eru tilbúnir að leggja mikið á sig til að uppskera ríkulega.  Lokasprettur undirbúnings fer svo fram um helgina og við förum brattir til Solna á þriðjudagsmorgun," sagði Einar og bætir við að hungrið til að standa sig sé svo sannarlega til staðar.
 
,,Það hjálpar klárlega að hluti hópsins lék í U18 liði Íslands í fyrra og einsog áður sagði þá eru flestir þessara drengja búnir að koma á NM oftar en einu sinni áður þannig að reynslan í hópnum er fín.  Við leggjum þetta verkefni upp með svipuðum hætti og fyrir tveimur árum, erum heldur að byggja ofan á það sem við höfum verið að gera taktískt og hungrið til þess að fara og standa sig er svo sannarlega til staðar.  Fyrsta markmið er klárlega að ná í sigur gegn Dönum á miðvikudagskvöld, en þegar þessi hópur er annars vegar þá væri fáránlegt að halda öðru fram en að við ætlum okkur sigur í hverjum einasta leik í Solna þetta árið.  Drengirnir eru tilbúnir að gera allt til þess að ná sínum markmiðum og ég er fullur tilhlökkunar gagnvart verkefninu."
 
Leikir U18 ára landsliðs karla á mótinu:
 
Miðvikudagur 16. maí
Ísland-Danmörk
 
Fimmtudagur 17. maí
Ísland-Svíþjóð
 
Föstudagur 18. maí
Ísland-Noregur
 
Laugardagur 19. maí
Ísland-Finnland
 
Landsliðshópur Íslands – U18 karla
 
Dagur Kár Jónsson · Stjarnan, 186 cm · bakvörður
Elvar Már Friðriksson · Njarðvík, 182 cm · bakvörður
Emil Karel Einarsson · Þór Þorlákshöfn, 197 cm · framherji
Hugi Hólm · KR, 196 cm · framherji
Jens Valgeir Óskarsson · 206 cm, Njarðvík · miðherji
Maciej Stanislav Baginski · Njarðvík, 192 cm · bakvörður
Martin Hermannsson · KR, 191 cm · bakvörður
Sigurður Dagur Sturluson · Njarðvík, 186 cm · bakvörður
Stefán Karel Torfason · Þór Ak, 201 cm · miðherji
Svavar Ingi Stefánsson · FSu, 204 cm · framherji
Valur Orri Valsson · Keflavík, 182 cm · bakvörður
Þorgeir Blöndal · KR, 190 cm · bakvörður
 
Þjálfari: Einar Árni Jóhannsson
 
Fréttir
- Auglýsing -