spot_img
HomeFréttirU16 kvk: Öruggur sigur á Norðmönnum

U16 kvk: Öruggur sigur á Norðmönnum

Hér að neðan fer bein textalýsing úr viðureign Íslands og Noregs á Norðurlandamótinu í Svíþjóð. Viðureignin var milli U16 ára kvennaliða þjóðanna þar sem Ísland hafði öruggan sigur í leiknum og hefur liðið nú unnið tvo fyrstu mótsleikina sína. 
 
 
Viðtal við Lárus Jónsson aðstoðarþjálfara U16 ára liðsins
 
Viðtal við Evu Kristjánsdóttur eftir leik:
 
Ingibjörg Sigurðardóttir var stigahæst í íslenska liðinu með 19 stig og 8 fráköst og Eva Kristjánsdóttir bætti við 14 stigum og 11 fráköstum. Þóra Kristín Jónsdóttir gerði 13 stig en liðsvörnin stóð upp úr og þar stóð Salvör Ísberg sig mjög vel, sterkur varnarmaður þar á ferðinni. Hér má svo nálgast tölfræði leiksins.

– 4. LEIKHLUTI

 
– LEIK LOKIÐ – Ísland vann Noreg 61-38 og hefur nú unnið tvo fyrstu leikina sína á Norðurlandamótinu. 
 
 - 59-36 Blikinn Ísabella Ósk Sigurðardóttir var að gera sín fyrstu stig í leiknum fyrir íslenska liðið eftir góða sendingu inn í teiginn þar sem hún kláraði með stuttu teigskoti, snyrtilega gert.
 
– 57-36 fyrir Ísland og 3.15mín eftir af leiknum. Íslenska liðið hefur farið illa með boltann síðustu mínútur og Norðmenn leiða leikhlutann 7-12 til þessa en það eru engin hættumerki á lofti, sigurinn virðist vera kominn í huga íslenska liðsins og að öllum líkindum eru okkar stelpur að gefa eftir vegna þessa. Það færi þó betur á því að klára verkefnið af krafti.
 
– 55-29 og 5.19mín eftir af leiknum. Hanna Þráinsdóttir hefur átt skemmtilegar rispur hér síðustu mínúturnar en þessi leikur endar örugglega með sigri Ísland þökk sé sterkum varnarleik liðsins.
 
– 50-29 og 7.51mín eftir af leiknum þegar íslenska liðið tekur leikhlé en Norðmenn hafa opnað þennan fjórða leikhluta með 5-0 skvettu og íslensku skotin hafa ekki viljað niður síðustu mínútur.

– Fjórði leikhluti er hafinn…

 
(Ingibjörg Sigurðardóttir var komin með 19 stig og 5 fráköst í íslenska liðinu eftir 30 mínútna leik)
 
– 3. LEIKHLUTI
 
– Þriðja leikhluta er lokið og það er óhætt að kasta því fram að íslenska liðið sé búið að gera út um leikinn. Staðan eftir 30 mínútna leik er 50-24 Íslandi í vil en Þóra Kristín Jónsdóttir átti lokaorðið fyrir Ísland með þriggja stiga körfu. Þriðji leikhluti fór 17-5 fyrir Ísland og frændur okkar Norðmenn mega heldur betur bæta við sig snúning ef þær ætla að bjarga þessu á 10 mínútum.
 
– Tvær mínútur eftir af þriðja leikhluta og Norðmenn hafa aðeins komið við fimm stigum til þessa í leikhlutanum. Staðan 44-24 Íslandi í vil.
 
– Munurinn er orðinn 20 stig! Ingibjörg Sigurðardóttir var enda við að skella niður þriggja stiga körfu og sú er heldur betur að finna sig vel hér í Vasalund. Staðan er 42-22 fyrir íslenska liðið og þó þær Ingibjörg og Eva hafi að mestu séð um stigaskorið þá er liðsvörnin enn það sem Norðmenn hreinlega ráða ekki bót á. Stelpurnar eiga mikið hrós skilið fyrir þennan varnarleik og t.d. komnar með 13 stolna bolta. 
 
– 39-22 og Norðmenn ráða ekkert við Ingibjörgu Sigurðardóttur sem er að fara mikinn á báðum endum vallarins. Ingibjörg er komin með 14 stig í íslenska liðinu. 
 
– 19-35 og 5-0 byrjun á síðari hálfleik hjá íslenska liðinu en Norðmenn svara með þrist og staðan 35-22. Vörn íslenska liðsins hefur verið glimrandi þessar þrjár fyrstu mínútur í síðari hálfleik þó Norðmenn hafi lætt að einum þrist.
 
– 19-33 Ingibjörg Sigurðardóttir opnar síðari hálfleik fyrir Íslands hönd með þriggja stiga körfu og munurinn orðinn 14 stig.
 
– Nú styttist í að síðari hálfleikur rúlli af stað. Ef áframhald verður á íslenska varnarleiknum eru okkar stelpur í fínum málum.
 
(Skagfirðingar láta ekki hanka sig á því að stíga ekki út…hér gerir Guðlaug Rún það með myndarbrag en hún og íslenska liðið hafa haldið Norðmönnum í 19 stigum fyrstu 20 mínútur leiksins)
 
Eva Margrét gerir 2 af 8 stigum sínum í fyrri hálfleik

 
Skotnýting Ísland í fyrri hálfleik
Tveggja 30,7% – þriggja 16,6% og víti 64,7%

– 2. LEIKHLUTI
 

– Hálfleikur og Ísland leiðir 30-19. Ingibjörg Sigurðardóttir er með 9 stig og 2 fráköst í hálfleik og Eva Kristjánsdóttir er með 8 stig og 8 fráköst og hefur sýnt nokkur skemmtileg tilþrif þennan fyrri hálfleikinn.

– Flott innkastkerfi hjá Íslandi sem lauk með því að Eva Kristjáns fékk boltann, skoraði og fékk villu að auki, vítið fór niður og Ísland komið í 30-19 og 22 sekúndur til hálfleiks.

 
– Staðan er enn 25-19 fyrir Ísland og Norðmenn biðja um leikhlé. Liðunum hefur ekki tekist vel til þennan leikhluta að finna körfuna og ofuráherslan liggur í vörninni. Eva Kristjánsdóttir og Ingibjörg Sigurðardóttir hafa verið beittastar í íslenska liðinu og þá hefur Þóra Kristín Jónsdóttir átt lipra spretti. Okkar stúlkur þurfa þó rétt eins og í fyrsta leikhluta að vera ákveðnari í námunda við körfuna og klára betur, þá fyrst gæti skilið almennilega á milli liðanna.

– 25-19 – Íslenska liðið Þóra Kristín Jónsdóttir gerir fyrsta íslenska þristinn í leiknum eftir rúmlega 16 mínútna leik. Fyrsti af fimm tilraunum sem vildi niður og ekki laust við að liðinu hafi verið létt að sjá hann loksins fara niður. 
 

– 22-17…Ingibjörg með laglega hreyfingu á blokkinni og skorar úr erfiðu færi, 5.30mín til hálfleiks.
 
– 18-15 og Norðmenn mæta með 4-0 rispu.

– 18-11…Norðmenn taka leikhlé.

 
– Annar leikhluti er hafinn…íslenska liðið er að leggja mikið upp úr því að hafa læti í vörninni og fyrstu sókn Norðmanna lauk með „loftbolta“ – góð vinnsla á stelpunum varnarlega en mættu vera ákveðnari þegar þær sækja á norsku körfuna, þ.e. klára færin sín af meiri festu því þær gera vel að prjóna sig fram hjá norsku vörninni.

– 1. LEIKHLUTI

 
– Ingibjörg Sigurðardóttir er komin með 6 stig og 2 fráköst í íslenska liðinu en nýting okkar kvenna mætti vera betri. 30,7% í teignum og báðir þristarnir hafa ekki viljað í netið. 8 af 10 vítum liðsins hafa þú fundið sér réttan stað.
 
– Fyrsta leikhluta er lokið og leiðir Ísland 16-11 en íslenska liðið gerði sex síðustu stig leikhlutans, góður endasprettur.
 
– 12-11 Ísland komið yfir á ný og okkar stelpur eru ófeimnar við að sækja á teiginn og þá sérstaklega Ísfirðingurinn Eva Kristjánsdóttir en Norðmönnum dugir fátt annað en að brjóta á henni þegar hún leggur af stað í átt að körfunni.
 
– 10-11 og Norðmenn eru aðeins að taka við sér og finna glufur á íslensku vörninni sem fyrstu sjö mínútur leikhlutans var prýðisgóð en hefur gefið eftir. 
 
– 10-7 fyrir Ísland og það er broddur í Ingibjörgu sem Norðmenn virðast ráða illa við. Rúmar þrjár mínútur eru eftir af fyrsta leikhluta. 
 
– 6-4 Ingibjörg Sigurðardóttir kemur íslenska liðinu yfir og það er góður gangur í varnarleiknum hjá okkar stelpum þessar fyrstu fimm mínútur enda Norðmenn aðeins búnir að gera fjögur stig á þessum tíma. 
 
– 2-4 Eva Kristjánsdóttir með annað víti, búin að taka 4 víti á upphafsmínútunum og tvö vildu niður. 4-4 Ingibjörg Sigurðardóttir jafnaði eftir gott sóknarfrákast. Byrjar nokkuð fjörlega þessi leikur hjá liðunum hér í Vasalund. Fjörlega vissulega en bæði lið tiltölulega mistæk engu að síður.
 
– Eva Kristjánsdóttir skoraði fyrstu stig leiksins fyrir Ísland af vítalínunni en Norðmenn voru fljótir að svara í 1-2.
 
– Byrjunarlið Íslands skipa: Ingibjörg Sigurðardóttir, Kristrún Björgvinsdóttir, Karen Dögg Vilhjálmsdóttir, Eva Kristjánsdóttir og Þóra Kristín Jónsdóttir.
 
– Leikurinn er hafinn og það eru Íslendingar sem vinna uppkastið.
 
– Leikurinn er við það að hefjast…
 
 
– Hér voru norskir stuðningsmenn U16 ára liðsins enda við að ljúka að syngja þjóðsönginn…græjurnar hér í Vasalund biluðu eitthvað og aðstandendur liðsins tóku sig til og splæstu í sönginn fyrir stelpurnar, vel gert! 
Fréttir
- Auglýsing -