Hér að neðan fer bein textalýsing úr viðureign Íslands og Finnlands í U16 ára karla á Norðurlandamótinu í Svíþjóð.
Viðtal við Ragnar Friðriksson eftir leik:
– Flottur sigur hjá íslenska liðinu, Njarðvíkingarnir Ragnar Friðriksson og Kristinn Pálsson voru stigahæstir báðir með 19 stig en Kristinn var auk þess með 9 fráköst og Ragnar bætti við 5 stoðsendingum. Þá var Hilmir Kristjánsson með 17 stig, Ragnar Ragnarsson 13 og Kári Jónsson gerði 11 stig og gaf 6 stoðsendingar. Tölfræði leiksins
– 4. leikhluti
– Leik lokið…lokatölur urðu 97-64.
– 90-56 og fimm mínútur til leiksloka, þessi leikur er fyrir nokkru síðan búinn í uppskipun og kominn á hafnarvigtina. Ragnar Friðriksson, Hilmir Kristjánsson, Kristinn Pálsson og Ragnar Ragnarsson hafa verið beittir í dag. Kári Jónsson og Halldór Hermannsson hafa einnig barist vel og liðið allt verið mjög traust.
– 84-48 Halldór Garðar Hermannsson með annan þrist og 7.09mín til leiksloka og Finnar taka leikhlé. Fátt ef nokkuð sem kemur í veg fyrir að 16 ára liðið sé hér að landa sínum þriðja sigri í röð á Norðurlandamótinu.
– 79-48 Kristinn Pálsson með þrist fyrir Ísland í upphafi fjórða leikhluta og íslensku þristarnir orðnir sjö talsins í leiknum.
(Kári Jónsson gerir hér tvö stig fyrir Ísland gegn Finnum í þriðja leikhluta)
– 3. leikhluti
– Þriðja leikhluta er lokið og staðan er 76-48 fyrir Ísland. Leikhlutinn fór 21-19 fyrir Ísland. Okkar menn voru ekki sjálfum sér líkir fyrri hluta leikhlutans en bættu við sig snúning síðustu fimm mínúturnar og Ragnar Friðriksson lokaði leikhlutanum með góðu stökkskoti í finnska teignum, Ragnar kominn með 19 stig og 4 stoðsendingar í íslenska liðinu.
– 69-47 Sæþór Kristjánsson reif hér í sig gott sóknarfrákast og skoraði að því loknu, vel gert hjá Sæþóri og 1.30mín eftir af þriðja.
– 65-44 og 3.17mín eftir af þriðja leikhluta og loks lifnað aðeins yfir okkar mönnum. Finnar hafa spilað töluvert fastar í þriðja leikhluta heldur en í fyrri hálfleik og okkar menn látið það slá sig svolítið út af laginu en munurinn er engu að síður 21 stig.
– 63-44 Kristinn Pálsson með þrist fyrir Ísland og 3.45mín eftir af þriðja leikhluta.
– 60-42…Finnar með fjögurra stiga sókn, þrist og villu að auki. Íslenska vörnin frá fyrri hálfleik varð greinilega eftir inni í klefa en við gátum s.s. sagt okkur að Finnar myndu ekki bjóða upp á fullar 40 mínútur af depurð og mínus framlagi.
– 60-36 Grindvíkingurinn ólseigi Hilmir Kristjánsson skorar og fær villu að auki og setur vítið af öryggi.
– 57-36 Kári Jónsson skorar fyrstu stig Íslands í síðari hállfeik. Finnar eru búnir að skipta upp um gír í varnarleik sínum og neita að láta rúlla yfir sig, enn til þessa eru þær miður góðar upphafsmínúturnar hjá okkar mönnum, Finnar hafa skorað 7-2 fyrstu fjórar mínútur síðari hálfleiks.
– Ragnar Friðriksson var að fá sína þriðju villu en hann og Halldór Hermannsson eru báðir komnir með 3 villur í íslenska liðinu. Nú eru næstum því þrjár mínútur liðnar af síðari hálfleik og aðeins einn þristur kominn í hús og það finnskur.
– 55-32 Finnar byrja með þrist.
– Síðari hálfleikur er hafinn…
___________________________________________________________________________________________________________
Hilmir Kristjánsson er stigahæstur í íslenska liðinu í hálfleik með 14 stig, Ragnar Friðriksson er með 13 og Kristinn Pálsson er með 10 stig.
Skotnýtin Íslands í hálfleik:
Tveggja 66,7% – þriggja 42,9% og víti 89,5% (17 af 19)
(Ragnar Friðriksson fer hér sterkur að finnsku körfunni í öðrum leikhluta)
– 2. leikhluti
– Hálfleikur…staðan er 55-29 fyrir Ísland! Ef fyrsti leikhluti var góður hjá okkar mönnum þá var annar leikhluti frábær. Ísland vann annan leikhluta 35-20, hleyptu vissulega á sig fleiri stigum en þeir eru búnir að stinga Finna af! Varnarleikurinn er þéttur, pressa og svæði sem Finnar hafa trekk í trekk lent í vandræðum gegn .
– 53-29 Ragnar Friðriksson með tvö víti og 1.15mín til hálfleiks.
– 44-21 Kári Jónsson með glæsilega stoðsendingu á Hilmi Kristjánsson í hraðaupphlaupi og Hilmir klárar vel… 47-23 og Hilmir með fimm stíg í röð því hann skundaði aftur yfir völlinn og skellti nú niður þrist og er kominn með 12 stig.
– 40-19 og Halldór Hermannsson var hér að gera það sem oftast er bannað, setja þrist í spjaldið og ofaní án þess að kalla það! 4.50mín eftir af fyrri hálfleik og staðan 20-10 fyrir Ísland fyrstu fimm mínúturnar í öðrum leikhluta.
– 35-19 og Kári Jónsson setur hér þrist úr hægra horninu yfir finnsku svæðisvörnina og 5.37mín til hálfleiks. Finnar taka nú leikhlé og ráða sínum ráðum því okkar menn eru við það að stinga endanlega af ef áfram heldur sem horfir.
– Nú freista Finnar þess að láta Ísland kenna á sínu eigin tevatni og eru farnir í svæðisvörn.
– 31-19 og 6.22mín til hálfleiks.
– 28-17 Ragnar Friðriksson kominn í 11 stig á tæpum 7 mínútum, íslenska liðið heldur sig við svæðisvörnina og 31-17 því hér var nafni hans Ragnar Ragnarsson að skella niður þrist og Friðriksson með stoðsendinguna, eru Ragnarrök í dag hjá Finnum?
– 26-13 Ragnar Ragnarsson með íslenska þrist, flott sókn þar sem boltinn kom víða við en endaði hjá lausa manninum úti við þriggja stiga línu sem þakkaði fyrir sig með því að búa til stoðsendingu og 3 stig!
– 23-11 Ragnar Friðriksson er að finna sig vel, hér var hann að skora og fá villu að auki, vítið fór sína leið og strákurinn dottinn í 9 stig.
– Annar leikhluti er hafinn…það eru Finnar sem byrja með boltann og eru snöggir að skora, 20-11.
– 1. leikhluti
– Fyrsta leikhluta er lokið og staðan er 20-9 Íslandi í vil sem lokaði fyrsta leikhltua með 11-0 dembu. Sterk vörn hjá okkar mönnum sem eru að pressa Finna og falla niður í svæðisvörn og það hefur gengið ljómandi vel þessar fyrstu 10 mínútur leiksins. Kristinn Pálsson og Ragnar Friðriksson eru báðir komnir með 6 stig í íslenska liðinu og Hilmir Kristjánsson 5.
– 19-9 og Ísland stendur í miðju 10-0 áhlaupi og búnir að setja Finna aðeins á hælana. Pressan er þétt hjá okkar mönnum og Finnar eru að flýta sér í sókninni. Kári Jónsson og Halldór Hermannsson eru báðir komnir með tvær villur í íslenska liðinu.
– 17-9…og Ragnar Friðriksson gerir sín sjöttu stig fyrir Ísland eftir hraðaupphlaup og Finnar taka leikhlé þegar 2.30mín eru eftir af fyrsta leikhluta. Ísland fór að pressa og það hefði nú s.s. ekki átt að koma Finnum á óvart en þeir hafa átt bágt hér fyrstu mínúturnar gegn pressunni.
– Ragnar Friðriksson kemur vel gíraður inn af bekknum fyrir íslenska liðið, uppi á tánum í vörninni og snöggur að hnoða í fjögur stig og Ísland leiðir nú 13-9 og 3.20mín eftir af fyrsta leikhluta.
– 9-9 og hér gerast hlutirnir hratt, hátt „tempó“ hjá báðum liðum og stemmningin fer vaxandi í íslenska varnarleiknum en okkar piltar voru enda við að slátra einni skotklukku hjá Finnum.
– 4-4 Kristinn Pálsson jafnar með stökkskoti, vel gert hjá stráknum en Finnar smella niður þrist strax í næstu sókn og staðan því 4-7 og 6.20mín eftir af fyrsta.
– 2-4 fyrir Finna, íslenska liðið er að fara illa með boltann hér á upphafsmínútum leiksins og menn frekar óákveðnir í sínum aðgerðum á meðan Finnar mæta grimmir til leiks.
– Finnar eru með nokkuð hærra lið en það íslenska svo það verður mikilvægt fyrir Ísland að vinna sína vinnu vel í teignum og leggja sig alla í fráköstin.
– Leikurinn er hafinn, Íslendingar unnu uppkastið en Finnar skoruðu fyrstu stig leiksins en Hilmir Kristjánsson var síðan fljótur að koma okkar mönnum á blað, 2-2.
– Nú eru þrjár mínútur í leik. Ísland hefur unnið báða leiki sína á mótinu til þessa en Finnar lágu gegn Dönum en lögðu Eista í spennandi slag. Ísland hefur unnið Eistland og Noreg til þessa á mótinu.